Lokakafli Ömmu

Ég er orðin frekar óþolinmóð eftir að fæða litlu krílin mín. Bumban stendur svo langt út að ég er sífellt hrædd um að falla framyfir mig og steypast á hausinn. Peter er búinn að vera hér hjá mér alla síðustu viku og er það búið að vera dásamlegt að hafa hann. Ég er búin að ná töluverðum tökum á skapsveiflunum í mér og finn ekki þessa miklu reiði sem á það til að brjótast út í mér við fáránlegustu tækifæri. Ekki það að það hafi svosem bitnað á neinum, bara það að þetta skuli blossa svona upp fyrirvaralaust setur mig úr jafnvægi.

Ég ætlaði að fara í göngutúr í góða veðrinu í gær en þurfti svo oft að fara á wc að ég hélt að það væri eitthvað að blöðrunni í mér!? Ég bara lagði ekki í að fara í þessu ástandi út á meðal fólks. Það hefði sennilega orðið uppþot ef ég, kasólétt af tvíburum, hefði bara vippað niður um mig og skvett úr mér þar sem að ég stóð. Það er að segja, ef ég hefði ekki orðið afvelta! Ég er ekki viss um að Peter hefði náð mér á fætur aftur ef ég ylti nú um koll :)

Lokakaflinn í sögu Ömmu minnar

 

Amma og Pabbi litu hvort á annað og svo á lögreglumanninn sem stóð í uppsparkaðri hurðinni. Hvað gengur hér á, sagði hann og hikaði örlítið. Amma byrjaði að garga "Hjálp, hann ætlar að drepa mig líka, hann er morðingi"!! Hún lét sig falla með leikrænum tilburðum niður á hnén. Pabbi leit steinhissa á hana en renndi í grun hvað hún hafði sagt. 

Lögreglumaðurinn hrópaði í átt til pabba og bað hann um að sleppa byssunni. Pabbi var þjálfaður hermaður og hikaði ekki eitt augnablik. Ég sé fyrir mér að hann hafi hugsað þetta á þann veg að þar sem að lögreglumaðurinn sá hann með morðvopnið í hendinni, myndi honum aldrei verða trúað þegar hann segði að Amma hefði myrt fólkið í svefnherberginu. Ekki síst vegna þess að þetta fólk hafði verið með mig, barnið hans, í sinni umsjá í óþökk foreldra minna. Ef eitthver var með ástæðu og kunnáttu til þess að drepa þetta fólk, var það pabbi. Hann, eins og ég sagði, hikaði ekki eitt augnablik heldur stökk niður stigann og að lögreglumanninum. Hann vissi að lögreglumenn í gamla landinu gengu aldrei um vopnaðir heldur höfðu bæði skammbyssu og einhleypta haglabyssu í farangurgeymslu lögreglubílanna.

Hann keyrði haglabyssuna undir hökuna á lögreglumanninum og spurði hann hvort hann talaði ensku? Já, ég tala hana ágætlega sagði lögreglumaðurinn en kom varla út úr sér orðunum fyrir stami. Pabbi lyfti haglabyssunni hærra upp og horfði fast í augun á lögreglumanninum. Ég ætla að segja þetta aðeins einu sinni og hlustaðu vel eftir. Lögreglumaðurinn reyndi að kyngja munnvatninu en gat það greinilega ekki því hann fór að hósta ákaft, ekki, bað hann pabba, ekki skjóta mig.. ég á konu og lítið barn. Hann sá það á augum pabba að honum var full alvara með því að beina skotvopninu að honum. Það lak þvag niður buxnaskálmar lögreglumannsins. Pabbi hugsaði örlítið málið og þrýsti haglabyssunni svo fastar undir höku lögreglumannsins. Hversu mikið metur þú líf þitt? Spurði hann lögreglumanninn, hversu mikið langar þig til að sjá litla barnið þitt aftur? Lögreglumaðurinn byrjaði að gráta hljóðlaust, sölt tárin láku niður kinnarnar á sveitalegu andlitinu. Ég, ég elska barnið mitt meira en allt annað í lífinu og það er mér ekkert eins mikilvægt og það. Ég myndi fórna öllu fyrir það, sagði hann og röddin brast hvað eftir annað.

Þú og bara þú stendur á milli mín og fangelsis fyrir lífstíð. Ég hef engu að tapa, alls engu. Skilur þú það? Ég myrti ekki þetta fólk þarna uppi á efri hæðinni, heldur gerði þessi kona það. Hann kinkaði í áttina til ömmu sem lá ennþá á hnjánum. Ég get tekið í gikkinn núna og slátrað þér og tekið hana svo af lífi með hinu skotinu. Ég kveiki svo í húsinu og verð kominn úr landi áður en réttarlæknar sjá að þið voruð myrt með haglabyssu en brunnuð ekki í hel. Skilurðu mig? Hvæsti hann á lafhræddan lögreglumanninn. Já, svaraði lögreglumaðurinn. Ég skil þig.

Ef að ég hinsvegar leifi þér að lifa og geng hér út, hvað ætlar þú að gera?

Lögreglumaðurinn horfði steinhissa á pabba, hvað ætla ég að gera?

Já, hvað ætlar þú að gera endurtók pabbi?

Lögreglumaðurinn skildi loks hvað vakti fyrir pabba, ég ætla ekkert að gera. Ég , ég segi að hér hafi bara gerst eitthvað óhapp og ég hafi verið of seinn á vettvang.

Gott, sagði pabbi, þú ert að ná þessu. Hann slakaði aðeins byssunni til að sýna lögreglumanninum að hann meinti það sem hann sagði og að hann gæti slakað aðeins á. Hann skipaði lögreglumanninum að setjast í stigann og sá hlýddi óðar. Hlandblautur settist hann í neðstu þrep stigans og nuddaði gagnaugun með fingurgómunum. Pabbi miðaði ennþá haglabyssunni á hann en horfði nú á ömmu. Ég ætla að ganga héðan út og fara með dóttur þína aftur til Ameríku. Ég ætti með réttu að drepa þig hér og nú fyrir það sem þú hefur gert dóttir þinni og dótturdóttir. Annan eins aumingjaskap hef ég aldrei séð áður. Þú ert rotin og ill persóna. Ég ætla ekki að stúta þér því ég er viss um að það er helmingi verra fyrir þig að rotna hægt innanfrá. Ég mun sjá til þess að við munum ná dóttir okkar úr klónum á þér fyrr eða síðar. 

Hann fór lagði haglabyssuna frá sér við dyrastafinn og sagði við lögreglumanninn. Þú átt mér líf þitt að launa. Mundu það að ég var hársbreidd frá því að gera barnið þitt föðurlaust eins og þessi illa norn hefur gert barninu mínu. Ég drap ekki þessar manneskjur heldur gerði þessi kona það. Þú ræður hvernig þú spilar úr restinni.

Hann snérist á hæli og gekk hröðum skrefum út.

Amma og Lögreglumaðurinn sátu þegjandi og hreyfðu hvorki legg eða lið. Eftir heila eilífð að henni fannst, spurði Lögreglumaðurinn hana hvort hún væri ekki dóttir Xxxx ? Jú það er víst, sagði hún klökk, afhverju? Hún þurfti reyndar ekki svar, faðir hennar var afar valdamikill og hafði töluverð ítök í meðal annars lögreglunni. Þau þögðu áfram. Lögreglumaðurinn stóð upp, ræskti sig hátt og sagði, það er skelfilegt hvað rekur fólk til þess að myrða maka sinn og drepa sig svo á eftir. Amma horfði með furðusvip á hann. Já, þú meinar það? Þau unnu samhent í að laga sómasamlega til á efri hæðinni svo skelfilega morðið leit núna út fyrir að vera morð og sjálfsmorð. 

Amma fór til höfuðborgarinnar daginn eftir. Hún snéri aldrei aftur í litla sjávarplássið.

Lögreglumaðurinn stóð við það sem hann lofaði pabba. Hann hætti í lögreglunni og fór að vinna við hnífabrýningar í frystihúsinu. Litla telpan hans varð að gjafvaxta ungri konu og átti alla tíð innilegt sambandi við föður sinn. Amma fylgdist náið með þeim úr fjarlægð. Hún vildi vera örugg um að leyndarmálið læki ekki út. 

Eftir að hafa púslað þessu svo saman komst ég að því að Mamma hafði nálægt því misst vitið þegar pabbi kom aftur upp á hótelið og sagði henni hvað gerst hafði. Hún bar sitt barr ekki eftir þetta og eftir að þau komu út til Chicago, hrörnaði henni andlega þar til að lokum að hún svipti sig lífi. Fyrir einhverja duttlunga örlaganna endaði ég í sömu borg og hún bjó í síðustu ár ævi sinnar. 

Það fór svo eins og pabbi hafði spáð. Amma rotnaði hægt og rólega innanfrá. Hún lét það aldrei uppi hvað hafði gerst þennan örlagaríka dag í sjávarplássinu. Þegar hún dó, skildi hún eftir bréf stílað á mig. Það var skrifað í miklum flýti og rakti söguna hér fyrir ofan. Hún bað mig og góðan guð að fyrirgefa sér þrjóskuna og særindin sem hún hafði ollið mér og mömmu í lífinu. Hún hafði alltaf ætlað að hafa samband við mig og segja mér hvernig á þessu öllu stæði en eins og með svo margt í lífinu, kom hún sér aldrei að því. Hún þorði ekki að standa fyrir framan mig og segja mér hversu illgjörn hún hafði verið gagnvart mömmu og mér. Hugleysi hennar hafði kostað sitt. Hún kvaddi þennan heim eins og hún hafði lifað lífinu. Bitur.

Ég sjálf er búin að gera upp hug minn gagnvart þessu öllu. Það var auðvitað gríðarlegt sjokk að fá bréfið og lesa flausturslega skrift ömmu minnar viðurkenna tvöfalt morð og allt sem á gekk. Ég var lengi að jafna mig og á sennilega ekki eftir að komast að fullu yfir það. Oft hugsa ég til þess þegar ég stóð í herbergi fólksins sem ól mig upp og sá blóðugar sletturnar á veggnum og koddann blóðuga bak við hurðina. Það myndast einhverskonar tenging við pabba minn að hugsa til þess að hann var þarna líka og sá sömu skelfilegu hlutina og ég. Auðvitað sá hann töluvert meira en ég, en þegar þessi tenging kemur upp í huga minn þá á einhvern skrítinn hátt líður mér vel. 

Ég ætla ekki að lifa lífinu bitur yfir því sem er liðið. Það er ekkert sem ég get gert til þess að breyta fortíðinni. Ég er búin að ganga í gegnum gríðarlegt tóm í mínu lífi og var þetta tóm næstum búið að reka mig út í sjálfsmorð. Fyrir einskæra og svolítið sjálfselska tilviljun, hitti ég mann og varð ólétt eftir hann eftir stutt kynni. Það var svo á síðasta augnabliki fyrir planlagða brottför mína af þessari jörð, að þessi einkennilegu forlög tóku í taumana og ég komst að því að ég væri barnshafandi. Eftir bílslys og þá staðreynd að fjarlægur vinur kom alla leið hingað út til þess að vera mér til aðstoðar, sá ég að lífið er bara alveg þess virði að lifa því. 

Núna er ég meira að segja að læra að elska Peter, barnsföður minn. Hann vinnur á hægt og bítandi. Það hlýtur að vera varið í mann sem að þolir konu með tvöfaldan skammt af óléttuhormónum og ævilangt sjálfstæði í farteskinu.

"Ég elska þig Peter" Kannski ég geti bara sagt það við hann í kvöld þegar hann leggst uppí við hliðina á mér og strýkur varlega yfir kúluna mína.

Jacky Lynn 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Eins og vanalega algjörlega frábær færsla,kærar þakkir

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 22.4.2009 kl. 22:28

2 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Mjög spennandi lesning.

Hjartanskvedja frá Jyderup.

Gudrún Hauksdótttir, 28.4.2009 kl. 07:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband