Amma og "Afi"?

Ég hef það alveg ágætt þessa dagana. Fer í langa göngutúra hér um nágrenið og tek strætó niður í bæ og sit á kaffihúsinu góða og slaka á með rjóma-smoothies. Ég er alveg hætt að drekka kaffi og hreinlega hryllir við tilhugsuninni. Ég er hinsvegar komin með eitthvað æði gagnvart samlokum með gúrku, skinku og eplamauki !! Ekki spyrja hvernig mér datt þessi samsetning í hug en ég bara varð að fá þetta og það strax. Ég stóð við eldhúsborðið og hendurnar á mér hreinlega titruðu meðan ég var að búa þetta til og ég hlýt að hafa litið út eins og fíkniefnaneytandi að fá sér skammt dagsins.

 Ég nýt þess að vera ólétt en finn samt fyrir mikilli þreytu, sérstaklega seinnipart dags. Ég er farin að leggja mig í sófann og setja Oprah eða Dr. Phil á sjónvarpið og sofna svo út frá malinu í þeim. Þrátt fyrir klukkutíma lúr þá er ég komin inn í rúm rétt um 9:30pm og steinsofna með það sama.

Peter kemur hingað fljótlega og ætlar hann að reyna að vera í tvær vikur hér í Chicago. Það verður notalegt að hafa hann hér. Ég er svosem vön því að vera ein en það er eitthvað við nærveru hans sem fyllir mig öryggi. Svo er það þessi dásamlega feremón hlaðin lykt af manninum! Ég stal af honum peysu og sef með hana á næturnar. Wink

Áfram með hana Ömmu.....

Amma og "Afi" áttu ekki fyrir höndum að eiga farsælt og fallegt hjónaband. Þvert á móti.

Móðir mín var ekki fyrr komin í heiminn þegar fór að berast út sá kvittur í bæjarfélaginu að "Afi" minn hefði verið "keyptur" inn í þetta hjónaband. Barnið litla var afar dökkt yfirlitum með brún augu og alveg kolsvart hár. Bæði Amma og "Afi" voru ljóshærð og reyndar líka fyrrum  kærastinn sem var látinn.

Fljótlega fóru sögurnar að bera keim að því að Amma hefði "legið undir" Kana og barnið sem hún bar undir belti var kallað "Ástands-barnið" og gott ef einhverjir voru ekki farnir að kalla Ömmu fyrir "Kanamelluna" á bak við tjöldin.

"Afi" fór eins og svo margir sem lenda í mótlæti, ímynduðu eða ekki, að drekka. Hann var aldrei sáttur við það að Amma skyldi eignast barn með "Útlendingsræfil" eins og hann orðaði það við nánast hvern sem var þegar hann var á túrafylleríi. Samt virðist Amma aldrei hafa sagt neinum með hverjum hún átti mömmu mína, en þar sem að hún var svo "Ítölsk" á brún og brá, kom engum til hugar annað en að hún hefði legið undir útlendingi.

Horfandi á manninn sinn vaða lengra og lengra niður í svaðið, gerði Amma allt sem hún gat til þess að halda andliti meðal fólks. Hún var af efnuðum ættum og það varð að halda í fjölskyldugildin hvað sem það kostaði. Stöðugt pískrið gerði Ömmu að bitri konu, bitri gagnvart fólkinu sem stóð henni næst en gerði ekkert til þess að verja hana. Smám saman virðist hún hafa lokað fyrir tilfinningar sínar og fór að draga úr samneyti við fólk.

Svo kom áfallið.

Jacky Lynn 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Hjartanskvedjur til tín Jacky Linn.

Kvedja frá Jyderup

Gudrún Hauksdótttir, 9.3.2009 kl. 10:24

2 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

kærleiksknús á þig ljúfan...ekki láta okkur bíða svona lengi næst

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 10.3.2009 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband