Færsluflokkur: Bloggar
Sá ég virkilega mömmu mína?
9.12.2008 | 08:23
Ég þakka ykkur fyrir athugasemdir og faðmlög sem þið, bloggvinir og aðrir hafið sent mér hér á Moggablogginu. Ég met það mikils.
Ég er heil heilsu en mér er búið að líða frekar undarlega og tel það vera álag vegna komandi atburðar.
Ég held hér áfram með bloggið mitt enda fer nú að styttast í ... ja sögulok?
Þau sátu á veitingastaðnum fram eftir degi áður en þau sáu nokkra hreyfingu við húsið. Þau áttuðu sig á því að fólkið hlyti að vera að vinna. Það var svo rétt upp úr kvöldmat að þau sáu mann og konu koma gangandi að húsinu og opna með lyklum. Þau voru bara tvö á ferð. Foreldrar þínir Jacky Lynn, urðu fyrir miklum vonbrigðum. Þau höfðu vonast til að sjá litla stelpuhnátu bregða fyrir í það minnsta.
Þeim leist hinsvegar afar illa á þetta fólk, eins og mamma þín sagði, það bar ekki með sér góðan þokka. Þau sátu þarna á veitingastaðnum og hughreystu hvort annað þegar skyndilega birtust tvær ungar stúlkur fyrir framan hús fólksins. Önnur var dökkhærð og hin með sítt ljóst hár. Mamma þín horfði á þær í smástund en það var pabbi þinn sem benti henni á þig, dökkhærðu stúlkuna, og sagði að það færi sko ekki á milli mála að þetta væri þú! Þið mæðgurnar væruð eins líkar og hægt var að vera. Móðir þín fór að skæla af geðhræringu og ætlaði að stökkva út til þess að ná af þér tali. Þess þurfti hún ekki því að í sömu andrá, genguð þið stúlkurnar í átt að versluninni og fóruð inn. Pabbi þinn þurfti að halda fast í handlegginn á mömmu þinni svo að hún myndi ekki standa upp og grípa þig í faðm sér og hlaupa með þig á brott.
Þegar þú komst inn í verslunina, veittir þú þeim athygli, ófeimin gekkst að borðinu þeirra og sagði hátt og snjallt, Hæ, ég heiti Xxx, hvað heitir þú?
Mamma þín fór alveg í kerfi en sagði svo hvað hún héti og pabbi þinn líka, ó eruð þið útlendingar? Sagðir þú þá og mamma þín sagði að hún hefði átt heima lengi í útlöndum en væri frá gamla landinu. Þú horfðir víst á þau til skiptist og mamma þín var viss um að hún las úr svipnum þínum að þér fannst þú kannast við þau... að sálir ykkar væru að tengjast, því að blóðböndin fyndu sér alltaf leið að sýnum nánustu á einn eða annan hátt.
Gamli maðurinn brosti örlítið og spurði mig hvort ég myndi eitthvað eftir þessum atburði?
Ég verð að viðurkenna að hversu mikið sem ég brýt heilann um þetta tiltekna augnablik, þá koma alls engar minningar upp sem gætu átt við það. Ég fór auðvita oft í sjoppuna, eins og hún var alltaf kölluð verslunin, og þar voru oft útlendingar eða bara framandi fólk á förnum vegi. Ég gat ómögulega munað eftir að hafa átt orðaskiptin sem afi minn rakti hér fyrir mér.
Gamli maðurinn leyfði mér aðeins að brjóta heilann um þetta en hélt svo áfram.
Það skiptir ekki öllu máli Jacky Lynn, þau fengu í það minnsta að sjá litlu dóttur sína og yrðu við það tvíefld við það að ná þér til baka. Þau ætluðu ekki að fara að klúðra málunum þarna í sjoppunni með því að koma upp um sig. Það var erfitt en þau voru staðráðin í að nota lagalegar aðgerðir í baráttu sinni fyrir þér og vissu að bíða yrði betri tíma til aðgerða. Þau voru í það minnsta búin að sjá þig og það gaf þeim mikið.
Þú og vinkona þín keyptuð ykkur nammi í poka og skoppuðuð svo út úr sjoppunni og fóruð eitthvert inn í bæinn.
Eftir að hafa jafnað sig í smá stund, stóðu foreldrar þínir upp og fóru á litla hótelið. Þau pökkuðu saman og keyrðu til borgarinnar.
Það var komið að aðgerðastund fannst þeim.
Ég var búin að sitja hjá gamla manninum í nokkra klukkutíma en það var eins og tíminn hefði liðið á ofurhraða. Hann var greinilega orðinn þreyttur og ég var það líka. Hann stóð upp og bauð mér að koma í heimsókn daginn eftir til að klára söguna og ég þáði það auðvitað með þökkum. Það var afráðið að ég myndi mæta upp úr tíu því að sjúkraþjálfarinn hans væri farinn um það leiti. Hann fylgdi mér til dyra og þegar ég snéri mér við til að taka á kurteisan hátt í höndina á honum, tók hann utan um mig og faðmaði mig fast að sér. Ég endurgalt faðmlagið og saman stóðum við fastklemmd í nokkra mínútur, litla hjartans litla barnabarnið mitt, snökti hann og tárin runnu niður kinnar hans. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja svo ég faðmaði hann bara fastar að mér. Þetta var afi minn. Ég var ekki alveg búin að melta það hugtak. Ég hafði alltaf haldið að ég væri ein.
Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þeim tilfinningum sem að brutust út þegar ég var svo komin heim í fallega húsið mitt. Ég opnaði vínflösku og hellti mér í eitt staup, fór í mjúku prjónuðu inniskóna mína og settist fyrir framan arinn. Þarna sat ég bróðurpartinn úr kvöldinu og starði í logana. Hugur minn æddi um víðan völl ef svo mætti að orði komast. Ég fór í fyrsta skiptið síðan fólkið sem ól mig upp, framdi sjálfsmorð, að hugsa um það. Hverskonar manneskjur voru þetta eiginlega að taka að sér barn sem að amma þess hafði komið upp á þau og passa sig svo á því að sýna þessu barni alls enga ástúð? Kannski gat þetta fólk ekki átt börn, en hefðu þau þá ekki átt að fagna því að fá tækifæri á að ala eitt upp, umvefja það ástúð og umhyggju sem þau hefðu byrgt inni vegna þess að þau höfðu ekki fengið tækifæri til að sýna eigin barni hana?
Ég get svarið það eins og ég sit hér, að þetta fólk sýndi mér aldrei svo mikið sem vott af hlýju eða umhyggju, hvað þá ást eða eitthvað í líkingu við það. Ég reikna með því að það sé þess vegna sem ég hef alltaf átt erfitt með að tjá mínar tilfinningar opinberlega. Ekki það að ég hafi ekki nóg af þeim, ég er ekkert tilfinningakalt gerpi, alls ekki. Ég hef bara aldrei fundið sérstaka þöf fyrir að láta þær í ljós. Svo kom sjokkið að ég væri óbyrja og þá fannst mér það vera punkturinn yfir i-ið. Ef ég gæti ekki einu sinni sýnt barninu mínu hvaða tilfinningar, ást og umhyggja byggju í mínu brjósti, afhverju að sýna öðrum það? Ég, án þess að gera mér fulla grein fyrir því, lokaði smám saman á tilfinningar mínar og varð köld og einræn.
Ég taldi mig alltaf vera svo mikið í sambandi við sjálfa mig að ég sá ekki hættumerkin.
Það var svo einn dag að ég tók ákvörðunina að enda þetta allt. En, eins og þið vitið sem hafið lesið bloggið mitt frá upphafi, þá var það að undangengnum miklum sjálfsskoðunum. Bæði með fagfólki og ein, þannig að þetta er engin skyndiákvöðrun.
Ég minni aftur á að þessir atburðir, þetta samtal við afa minn, átti sér stað fyrir ca 10 árum. Það breytist margt á þeim tíma eins og þið vitið.
Jacky Lynn
Í dag eru 17 dagar til Jólanna minna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eitthvað svo slöpp.
5.12.2008 | 09:13
Ég er búin að vera eitthvað svo slöpp og þreytt undanfarið, hef ekki haf neina orku í morgunskokkið mitt og er bara eitthvað svo ónóg sjálfri mér. Vaknaði í gær og kastaði næstum upp vegna ógleði. Hélt ég væri veik en svo bráði þetta af mér þegar leið á morguninn.
Fólkið hér á gistihúsinu er verulega indælt við mig. Ég er búin að vera svo lengi hjá þeim að þau eru farin að líta á mig eins og heimalning. Konan kemur með ferskan blómavönd á hverjum degi inn á herbergið mitt og stjanar í kringum mig ef hún getur. Ég geri mitt besta til að hún komist ekki upp með það :)
Ég er að rita næstu færslu og læt hana inn síðar. Er eitthvað svo þreytt í augnablikinu.
Takk fyrir athugasemdirnar og vertu velkomin nýja bloggvinkona.
Ég fór, eins og Jac, inn á Barnaland en fann ekkert um síðuna mína þar!?
Ég bendi ykkur samt á upphafsorð bloggsins míns. Þar tala ég um að ég sé ekki að leita eftir hjálp eða aðstoð að nokkru leiti. Ég er ekki að gera lítið úr erfiðleikum annarra með skrifum mínum, að ég tel, heldur er ég að kynna fyrir ykkur líf mitt og tilfinningar. Fólki er auðvitað sjálfrátt að lesa eða ekki að lesa bloggið mitt.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Áreynsla:
4.12.2008 | 09:44
VIÐVÖRUN: ÞETTA BLOGG ER EKKI FYRIR VIÐKVÆMAR SÁLIR, HÉR SKRIFA ÉG UM VIÐKVÆMA HLUTI OG LEGG TIL AÐ FÓLK FARI ANNAÐ EF ÞAÐ EKKI ÞOLIR PERSÓNULEG SKRIF.
(Afsakið kæru föstu lesendur, þetta tel ég vera nauðsyn vegna þess að ég hef fengið bréf þar sem að viðkvæm kona fannst það afar óhugnanlegt sér hvernig ég skrifa um mínar tilfinningar og afstöðu til dauðans. Ætli ég verði ekki bara að setja þetta sem fastan haus á bloggið mitt? Hvað finnst ykkur?)
Það er búið að vera töluverð áreynsla fyrir mig að skrifa undanfarið hér á blogginu. Ég er að reyna að rifja upp gamla hluti, atburði og tilfinningar. Það er reyndar hægara sagt en gert! Kannist þið við það? Þegar ég er búin að koma einhverju frá mér og les svo yfir það, tek ég stundum eftir því að tímaröðunin er ekki alveg rétt, einhverra hluta vegna. Minnið er kostulegt fyrirbæri, en ef ég gæti nú komið þessu beint á blað eins og ég man hlutina, þá væri þetta einfaldara. Það er bara svona þegar maður er orðin svona ryðguð í Íslenskunni, að ég þarf sífellt að vera fletta upp í orðabók og laga málfræðivillur sem best ég get, þá verður sagan eitthvað svo minna vægi finnst mér.
Ég vil þakka þeim sem hrósa mér fyrir skrifin mín, ég virkilega met það mikils. Ég hef fengið töluvert af einkaskilaboðum þar sem fólk tíundar að ég ætti að gefa út bók.... ég verð nú að viðurkenna að mér finnst engin efni standa til þess, amk ekki miðað við heimsóknir inn á þessa síðu mína. Ég fékk þó reyndar inn um það bil 4000 heimsóknir einn daginn!? Mikið kom það mér á óvart, en ég tel nú samt að þar hafi verið á ferð einhver bilun í teljaranum hjá MBL.
Ég ákvað það að vel huguðu máli að tengja síðuna mína ekkert inn á fréttir MBL, heldur vildi ég svo gjarna að fólk sem rækist hér inn, myndi þykja lífssaga mín áhugaverð og kæmi aftur og skoðaði meira. Ég átti aldrei von á því að eignast blogg-vini, hvað þá fólk sem að legði sig fram um að senda mér falleg skilaboð. Ég þakka kærlega fyrir það og verð að segja, að ég met það mikils. Það hefur verið mér töluverð hvatning við að skrifa áfram hvernig sagan mín er og var.
Fyrirgefið hvernig ég veð úr einu í annað en ég bara þurfti að koma þessu frá mér.
Ég set inn aðra færslu í kvöld að mínum tíma, nótt að ykkar.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Varnaðarorð:
3.12.2008 | 19:57
Ég vil byrja þennan pistil minn á því að vara viðkvæmar sálir við að lesa bloggið mitt!
Ég mun aldrei skilja afhverju fólk kemur hingað inn, les bloggið mitt og fordæmir mig svo fyrir það eitt að tjá mig í rituðu máli ! Ég er nokkuð viss um að það ríkir ritfrelsi á Íslandi, meðan ég er ekki að níðast á einum eða neinum, þá finnst mér ég hafa fullan rétt á því að tjá mig um mitt eigið líf, tilfinningar og, að lokum, dauða. Það dásamlega við mannskepnuna er sú staðreynd að við höfum heila.... ef einhver sem þetta les, fyllist óhug, óþoli eða fordæmingu, þá ætti heili viðkomandi að geta stöðvað lesturinn og snúið sér að einhverju öðru! Ég mun halda áfram mínu striki og segja frá því hvernig mér líður, hef liðið og mun líða. Láttu þessi varnaðarorð verða þér til varnar og hættu að lesa núna:
Jacky Lynn
En fyrir ykkur hin sem hafið fylgst með:
Ég starði á hann og fann fyrir svima eitt augnablik, svo fylltust augun mín bara af tárum. Ég hef auðvitað oft spáð í hverjir foreldrar mínir væru en alltaf reynt að kæfa þá hugsun eins vel og mér var mögulegt. Núna sat ég fyrir framan mann sem var faðir blóðföður míns, ég fékk nett sjokk, ég sat fyrir framan Afa minn !
Titrandi og skjálfandi reyndi ég að koma upp orði en það var ekki alveg að heppnast. Gamli maðurinn horfði bara á mig en ég gat ekkert lesið úr augnaráði hans. Hann hnyklaði brýrnar og sagði svo lágri röddu Jacky Lynn, ég er semsagt afi þinn! Augu hans flóðu skyndilega í tárum líka. Þarna sátum við og fórum bæði að snörla upp í nefið. Það hlýtur að hafa verið einkennilegt fyrir utanaðkomandi að horfa á okkur.
Þarna, sko, ég vissi ekki hvar átti að byrja, segðu mér meira takk. Hvað með föður minn? Hvað með þennan sorgaratburð sem þú talar um að blaðamenn séu eftir upplýsingum? Er faðir minn á lífi? Ég hellti yfir hann spurningum án þess að anda á milli.
Sko, við skulum bara byrja á byrjuninni kæra Jacky Lynn, sagði hann og þerraði vangana með handarbaki vinstri handar.
Sonur minn, kynntist móðir þinni þegar hann var að gegna herskyldu í gamla landinu. Hann hafði farið út að skemmta sér með félögum sínum í litlum bæ sem er staðsettur ekki langt frá herstöðinni. Móður þinni kynntist hann svo þar sem þau stóðu í röð við einhverskonar matarsölu. Þau tóku tal saman og enduðu víst sem par þetta kvöld. Móðir þín sagði syni mínum ekki hvað hún væri gömul en hún, samkvæmt syni mínum, var afar bráðþroska miðað við aldur. Í stuttu máli þá komst þú undir þetta sama kvöld. Það getum við staðfest með því að sonur minn fór í 2 mánaða æfingabúðir í Þýskalandi á mánudeginum eftir umrætt kvöld. Móðir þín og hann voru í sambandi allan tíman og þegar hann svo kom til baka, var móðir þín gengin tvo mánuði á leið.
Þar sem hún var svo ung, hafði barnaverndarnefnd afskipti af henni og fór fram á það að hún færi í fóstureyðingu og krafðist refsingar til handa syni mínum. Það var svo herráðsfundur sem ákvað að sonur minn skyldi hljóta refsingu og var hann sendur úr landi og gegndi herþjónustu hér heima næstu ár á eftir.
Þau voru nú samt sem áður afar ástfangin og létu þetta ekki aðskilja sig tilfinningalega. Þegar móðir þín var orðin lögráða samkvæmt lögum gamla landsins, flutti hún hingað út. En Jacky Lynn, án þín! Amma þín var og er afar sérstök kona, hún tók þig og kom þér í fóstur hjá barnslausu fólki sem hún þekkti. Móðir þín bar sitt barr aldrei eftir það. Það var sama hversu oft hún hringdi og grét í ömmu þinni, barnið fengi hún aldrei meðan hún byggi í synd með útlendum hermanni. Hún hafði fengið fullt forræði yfir þér sem hún svo framseldi til fólksins. Ég veit ekki hvort þau ættleiddu þig en mig grunar það, annað hefði verið einkennilegt. Við hjónin, konan mín heitin, reyndum ítrekað að ná sambandi við fólkið en það svaraði okkur ekki. Við fórum meira að segja til gamla landsins og töluðum við sendiherrann okkar þar og hann aðstoðaði okkur eins og hægt var. Það var því miður til einskis, við fengum ekki einu sinni að sjá þig hvað þá meira. Rétturinn var greinilega ekki okkar megin og allir virtust taka afstöðu með ömmu þinni.
Að lokum gáfumst við upp Jacky Lynn, það var takmarkað hvað var hægt að gera þegar allir lögðust á eitt að setja stein í götu okkar. Þau höfðu reynt allan tíman að eignast annað barn, ekki til þess að gleyma þér, heldur til þess að fá útrás fyrir alla innbirgðu ástina sem þau höfðu svo mikið af. Þeim varð ekki fleiri barna auðið. Móðir þín fór í skóla og sonur minn nýtti sér menntunina úr hernum og fékk vinnu á verkfræðiskrifstofu í miðborginni. Hann varð fljótlega mjög atkvæða mikill í borgarmálum og kleif metorðastigann hratt. Það bættist sífellt meiri vinna á hann og að lokum fór það svo að samband þeirra fór í vaskinn. En Jacky Lynn, það var bara stutt. Móðir þín flutti til gamla landsins og var nú orðin gjafvaxta ung kona, hún nam lögfræði hér úti og varð dúx í sínum árgangi. Lögfræðin lék í höndunum á henni og hennar beið glæstur frami ef hún aðeins hefði teygt sig eftir því.
Hún ákvað hinsvegar að flytja til gamla landsins og freista þess einu sinni enn að ná þér til sín, núna vopnuð sjálfstrausti og kunnáttu á lagabáknið. Hún ætlaði sér að ná þér til baka, sama hvað. Hún byrjaði á að finna sér íbúð í borginni stóru og fékk vinnu við skjalaþýðingar. Eftir að hafa verið rétt um það bil 3 mánuði í gamla landinu, sáu þau sonur minn að þau gætu ekki þrifist án hvors annars. Það varð til þess að hann hætti í vinnunni sinni og flutti til gamla landsins til að vera með móðir þinni. Þau leigðu sér íbúð í litlu bæjarfélagi sem var samvaxið borginni og móðir þín tók til óspilltra málanna að hafa uppi á litlu stúlkunni sinni og vinna að málarekstri kringum það.
Hún hafði ekki látið neinn úr sinni fjölskyldu vita að hún var komin aftur til gamla landsins. Henni fannst svikin vera alger svo hún treysti engum né trúði.
Það tók hana rétt um ár að undirbúa sig nógu vel til þess að fara með málið fyrir barnaverndarnefnd og reyndar fyrir dómara líka. Ég þekki ekki alveg þá sögu út í gegn Jacky Lynn, en ég ég veit að hún ætlaði sér ekki að láta hanka sig á neinu, svo hún var vel undirbúin.
Hún og sonur minn, faðir þinn, voru búin að hafa uppi á fólkinu sem að amma þín hafði látið þig í hendurnar á. Þau fóru um páska í litla sjávarþorpið þar sem að þau, þið, leiðrétti gamli maðurinn sig, bjugguð og voru að vonast til þess að sjá þér bregða fyrir, án þess þó að koma upp um sig.
Þau fengu gistingu á pínulitlu hóteli og gengu svo eins og hverjir aðrir túristar um bæinn og skoðuðu hann. Það vildi svo til að fólkið bjó nánast í miðbænum og rétt við staðarverslunina og veitingarstað þorpsins. Þar gátu foreldrar þínir setið við borð og fylgst með húsinu þeirra.......
Gamli maðurinn, afi minn, var orðinn rámur eftir að hafa talað svona mikið, hann ræskti sig, stóð upp og bauð mér upp á meira vatn eða kannski te? Ég þáði te með þökkum og við gengum inn í eldhúsið. Hann lét renna í hraðsuðukönnu og teið varð til á örskotsstundu. Við þögðum bæði á meðan, ég var að melta þetta allt saman og hann eflaust líka.
Við settumst aftur inn í stofuna rúmgóðu og létum fara aðeins betur um okkur en áður og svo byrjaði hann aftur að segja frá.
Í dag eru 23 dagar til "jólanna" minna.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Einn af öðrum
2.12.2008 | 10:20
Hér líða dagarnir áfram, einn af öðrum og mér líður bara ágætlega. Ég er alveg komin yfir þessa óþolinmæði sem heltók mig hér fyrir nokkrum vikum síðan. Þá var ég svo ósátt við tímamörkin sem ég hafði sett mér, ósátt við að tíminn leið töluvert hægar en ég átti von á. Þegar ég ákvað að deyja, hélt ég að síðustu dagarnir myndu líða órahratt og ég fyndi fyrir kvíða vegna þess. Ekki varð það nú að raunveruleika. Síðustu vikurnar hafa einkennst af óþolinmæði af minni hálfu, pirringi yfir því að klára dæmið ekki bara með það sama. Það er jú engin sérstök ástæða fyrir tímasetningu minni önnur en sú að mér fannst hún við hæfi á sínum tíma. Núna er ég ekki svo viss. Ég ætla samt að halda minni stefnu og hvika hvergi !
Ég er búin að vera segja ykkur frá því hvernig ég hafði upp á blóðforeldrum mínum og held ég áfram með þá frásögn. Ég minni aftur á að þetta eru atburðir sem gerðust fyrir 10 árum síðan....
Gamli maðurinn horfði beint í augun á mér og sagði, sko ef þú ert dóttir hennar "Xxxxx" þá er ég með töluvert að segja þér. Er eitthvað sem sannar að þú ert raunveruleg dóttir hennar?
Ég kvað svo ekki vera, ég er bara nýbúin að komast að því og fékk símanúmer hjá henni þar sem hún býr í gamla landinu og svo fékk ég þessa addressu hér. Ég bý hér í borginni og hef búið hér í rétt yfir 20 ár en hafði auðvitað enga hugmynd um að hún hefði einnig búið hér.
Ég sagði þetta allt í einni setningu án þess að anda á milli og fann að ég varð móð. Gamli maðurinn starði á mig og ég fann til vanmáttar gagnvart þessu stingandi augnaráði. Hann var sennilega að spá í hvort ég væri brenglaður geðsjúklingur eða eitthvað álíka.
Ég sagði honum að fljótlega eftir að ég flutti hingað út, fékk ég mig ekki til að hugsa um gamla landið. Það var ekkert þangað að sækja fyrir mig. Fólkið sem ól mig upp hafði fyrirfarið sér þegar ég var unglingur og ég ætti, að því að ég best vissi, engin skyldmenni í gamla landinu. Ég fór samt þangað í smá frí fyrir stuttu og ákvað þá að reyna að finna út úr því hverjir foreldrar mínir hefðu verið eða væru. Sú eftirgrennslan hefði leitt í ljós að þessi kona Xxxxx væri móðir mín og konan á skrifstofunni sem rannsakaði þetta fyrir mig væri nágranni hennar.
Sá gamli fékk sér sopa af vatninu og ræskti sig svo, okey segjum að þetta sé allt satt og rétt hjá þér, hvað þá með föður þinn? Fékkstu einhverjar upplýsingar um hann?
Nei, því miður þá vissi konan á skrifstofunni ekkert um hann eða hvaðan hann kom. Ég var skráð sem dóttir móður minnar fram að því að fólkið tók við mér og fékk ég þá eftirnafn hans.
Við hvað vinnur þú spurði hann allt í einu?
Ég sagði honum það, að ég væri starfskona á skrifstofu niðri í miðbæ. Hann fékk símanúmerið hjá mér og stóð upp, gekk að símanum og hringdi í númerið. Hann kynnti sig og spurði eftir Jacky Lynn, hlustaði svo augnablik og þakkaði fyrir og lagði á.
Fyrirgefðu en þetta er bara nauðsynlegt, ég hef ekki orku í að tala við enn einn fréttasnápinn sem er að velta sér upp í löngu liðnum atburðum. Nú trúi ég þér og skal segja þér allt það sem ég veit um foreldra þína Jacky Lynn.
Ég veit vel hver þau eru eða voru, þú segir að mamma þín sé á lífi en því miður er svo ekki. Þessi kona Xxxxx er hinsvegar amma þín. Móðir þín var afar ung þegar hún átti þig, svo ung að það var ólöglegt að verða ófrísk eftir karlmann á þeim aldri, það er að segja, maðurinn sem að var valdur að óléttu móðir þinnar var að framkvæma glæp samkvæmt lögum. Þau voru samt sem áður afar ástfanginn, hvaða skilning þau lögðu svosem í það.
Faðir þinn, Jacky Lynn, var sonur minn.....
Það eru 24 dagar til "Jólanna minna"
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sá gamli...
29.11.2008 | 22:10
Fyrir þá sem lesa bloggið mitt, vil ég, áður en lengra er haldið... segja ykkur það að atburðir sem ég hef bloggað um að undaförnu.... eru ekki að gerast núinu.... heldur gerðust fyrir rétt um tíu árum síðan! Ég sé á athugasemdakerfinu hjá mér að fólk virðist halda að þetta sé eitthvað sem er í gangi núna en svo er ekki !
Áfram með blessað vælið í mér.
Síminn hringdi nokkuð lengi, en svo var svarað á hinum endanum. Rám rödd eldri konu barst yfir línurnar og í eyrað mitt, alla þessa leið yfir hafið. Ég stóð eiginlega sem frosin í tíma og rúmi.
Gat þetta virkilega verið rödd móður minnar sem hafði yfirgefið mig sem ungabarn fyrir 30 árum síðan?
Var þetta konan sem skildi mig eftir hjá tilfinningalausasta fólki sem ég hef á ævinni kynnst?
Það helltust yfir mig sárar minningar og ég gat ekki svarað konunni á hinum endanum sem sagði í sífellu "Halló?, halló?".
Ég skellti á og fór að gráta. Hvað gat ég annað? Ég var gersamlega óundirbúin að ræða við þessa konu. Hvað átti ég svosem að segja? Hæ, ég er dóttir þín sem þú skildir eftir hjá herra og frú Tilfinningaheft!?
Nei ég varð að undirbúa mig betur, miklu betur. Ég er vön að hafa mikla stjórn á hlutunum og þarna fann ég að ég hafði enga stjórn á atburðum.
Ég settist inn í stofu og fékk mér glas af rauðvíni og hugsaði málið. Ég tók ákvörðun seint og síðar meir.
Strax morguninn eftir, hringdi ég í flugfélagið sem flýgur til gamla landsins og pantaði ferð. Ég hringdi svo í vinnuna og bað um frí næstu tvær vikurnar eða svo. Ég átti það alveg inni en varð glöð með sjálfri mér þegar yfirmaðurinn minn sagði án þess að hika eða forvitnast neitt nánar, ekkert mál Jacky Lynn, þú færð frí.
Ég gróf síðan upp addressuna þar sem að "móðir" mín hafði búið á hér í borginni og keyrði þangað út eftir.
Þetta var í betra hverfi borgarinnar og stærð hússins kom mér töluvert á óvart. Það var hreint út sagt litlu minna en höll. Ég leit aftur á miðann og sá að ég var á réttum stað. Ég ákvað að hringja á dyrasímann við hliðið og spyrjast aðeins fyrir. Mig langaði að forvitnast aðeins hvort gæti verið að þetta fólk sem þarna byggi, vissi eitthvað um "móðir" mína.
Það var svarað nánast um leið og ég ýtti á hnappinn. Ég kynnti mig og sagði stöðu mína hjá fyrirtækinu þar sem ég var að vinna hjá og lét sem ég væri í þeirra erindagjörðum. Hliðið opnaðist sjálfkrafa og ég gekk inn fyrir. Það var smá spotti heim að húsinu og ég gekk hann frekar stressuð í bragði. Það var hálf creepy að vera þarna að ljúga sig til um ástæður heimsóknar minnar. En ég verð að viðurkenna að adrenalínið virkaði á mig eins og eitthvert fíkniefni (ekki það að ég hafi prófað mikið af því) og ég hélt því ótrauð áfram.
Hurðin á stóra húsinu opnaðist og það kom eldri maður út á pallinn. Get ég aðstoða þig fröken? Spurði hann varfærnislega. Já, sagði ég, hversu lengi hefur þú búið hér? Spurði ég á móti.
Hann horfði á mig en virkaði ekkert hissa á spurningunni. Ég hef nú átt heima hér síðan 1956, en faðir minn byggði þetta hús og ég fékk það eftir hans dag, ég hef alls ekki hug á því að selja það ef það er það sem þú ert að spá vina, sagði hann rólega.
Ég ákvað að vera ekki að tefja málið neitt og spurði hann bara beint út, þekkirðu nokkuð konu sem ég frétti að hefði búið hérna á þessu heimlisfangi fyrir rétt um 30 árum síðan? Hún er frá landi í norðri og hún heitir "Xxxxxx xxx xxxxdóttir" ?
Hann svaraði mér með spurningu.
Ertu enn einn blaðamaðurinn að velta þér upp úr sorgaratburðum fortíðar!? Hann snérist á hæli, gekk inn og skellti á eftir sér stórri hurðinni.
Úff! Ég titraði að einskærri taugaspennu og starði á hvítmálaða hurðina, nei, hrökk upp úr mér að lokum, ég er sennilega dóttir hennar.
Ég hlýt að hafa sagt þetta töluvert hátt því að hurðin opnaðist aftur og gamli maðurinn stakk nefinu út, ertu hvað? Dóttir hennar? Hvernig má það vera?
Hann opnaði hurðina alveg upp á gátt og sagði mér að koma inn fyrir. Við getum sest inn í stofu og spjallað saman.
Ég fylgdi honum alls óhrædd inn í stóra fallega húsið og elti hann inn í stofuna. Þar settumst við niður eftir að hann hafði náð í tvær ískaldar vatnsflöskur í mini-bar.
Sko, ef þú ert dóttir Xxxx, þá er.................
Jacky Lynn
27 dagar til "Jóla"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég er þreytt.....
27.11.2008 | 10:26
Það er eitthvað svo erfitt að vera í þessu millibilsástandi sem ég er í núna. Lífið heldur áfram í hæggír og dagarnir silast framhjá einn af öðrum. Ég hef hreinlega enga lyst til þess að blogga um ekki neitt. Finn ekki neistann sem ég lagði með af stað í upphafi. Þetta blogg átti að vera kveðjan mín, kveðjan til landsins sem fæddi mig. Ég gerði alls ekki ráð fyrir að ég hefði of "mikinn" tíma þegar upp var staðið. Var frekar hrædd um að mér entust ekki dagarnir sem ég hafði sett mér fyrir. ´
Ég ætla að halda áfram með fyrri færslu:
Ég var ekki búin að vera heima nema 2 vikur þegar símtal kom frá gamla landinu.
Við erum búin að finna hver móðir þín er..... og hvar hún býr núna.
Ég hafði aldrei upplifað það áður að finna hjartað taka aukaslag... en það gerði það svo sannarlega við þetta símtal.
Áttu við að hún sé á lífi? Spurði ég konuna í símanum...
Já það er hún og það sem meira er, ég þekki hana vel því hún er nágranni minn!
Ég bað hana um að hinkra aðeins og náði í pappírsþurrku til að snýta mér, tárin runnu óheft niður kinnarnar á mér.
Konan var ekkert nema þolinmæðin við mig og skildi greinilega hvað ég var að ganga í gegnum.
Viltu að ég segi þér frá henni í stuttu máli eða ??
Já takk, sagði ég, ég vil svo gjarna vita eitthvað um hana.
Ég nota hér orð konunnar á skrifstofunni:
Ég þekki þessa konu alveg ágætlega, hún flutti í götuna til okkar þegar ég var bara lítil stúlka og vakti strax athygli okkar því hún átti svo margar kisur. Við kölluðum hana fljótlega Kisu konuna eða sumir strákarnir kölluðu hana Kattar kerlinguna. Hún vann lengi á einu Elliheimilinu hér í borginni en er löngu hætt að vinna vegna heilsubrests. Hún hefur aldrei verið gift eða í sambúð eftir að hún flutti í götuna okkar í það minnsta. Þetta er hins mesta reglu manneskja en það er greinilegt að henni líður ekki vel innra með sér. Hún á fáa eða enga vini og gerir ekki mikið annað en hugsa um kisurnar sínar. Hún fer ekkert, gerir ekkert og virðist vera mjög félagsfælin. Hún er heilsuveil en við vitum ekki hvað er að henni.
Ég var farin að titra þegar hér var komið að sögu og fann stóran kökk í hálsinum, hvað með börn, hefur hún einhverntíman minnst á börn? Að hún eigi sjálf eða hafi átt einhver börn?
Nei, var svarið, aldrei hefur hún minnst nokkuð á það, en málið er að hún talar svo lítið við fólk. Við vitum ekki einu sinni hvaðan hún kemur... ekki fyrr en ég fór í skrárnar okkar hér á skrifstofunni, komst ég að því hvaðan hún er. Hún kemur frá sama stað og þú fæddist á Jacky, en flutti þaðan strax eftir að þú fæddist og bjó erlendis í nokkur ár áður en hún flutti í götuna okkar.
Hvar bjó hún erlendis, spurði ég?
Svarið fékk mig til að kikna í hnjánum.....
Hún hafði búið í borginni minni !
Ótrúlegt en satt....
Það var einskær tilviljun að ég flutti hingað, bara hrein og klár tilviljun ekkert annað. Svo kemur í ljós að móðir mín, konan sem fæddi mig hafði einnig búið hér í borginni. Þetta finnst mér vera einkennileg tilviljun svo ekki sé meira sagt.
Ertu með addressu nokkuð, þar sem hún bjó hérna úti?
Já reyndar er ég með hana, en viltu ekki fá núverandi addressu líka? Það væri ekki mikið mál að hitta hana kannski? Konan var orðin frekar spennt á þessu öllu saman og vildi greinilega hjálpa til við "endurfundina".
Ég fékk báðar addressurnar og símanúmer hjá móður minni.... skrítið að skrifa þetta.. móðir... ég hafði aldrei átt móður.
Eftir að hafa spjallað aðeins meira við konuna á skrifstofunni, þakkaði ég henni fyrir og lofaði að hafa samband síðar. Eftir að ég hafði hugsað málið.
Ég hringdi svo í númerið sem hún hafði gefið mér upp og beið eftir svari........
Í dag eru 29 dagar til "Jóla"
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gamla landið
12.11.2008 | 21:08
Hvað er best að gera þegar manni leiðist lífið?
Ég er búin að taka mína ákvörðun, eins og lesendur þessa bloggs vita. En ég hef gert stór mistök að mínu mati.
Ég er fyrir löngu síðan búin að ákveða dánardægrið og það er ekki langt í það. Samt misreiknaði ég mig illilega. Ég hætti að vinna, seldi húsið mitt og líka bílinn. Losaði mig við allar eigur mínar fyrir utan það sem sem ég hef í ferðatöskunni minni. Eftir að ég hætti að vinna, bjó ég á lúxushóteli hér í borginni, en þar sem að ég er kannski frekar feimin að eðlisfari, þótti mér afar óþægilegt að láta þjóna mér til handar og fótar meðan ég var á hótelinu. Ég flutti þess vegna á fallegt gistihús hér rétt við stóra vatnið og sé ekkert eftir því. Þar fæ ég allan þann frið sem ég þarfnast og fólkið sem rekur staðinn er ekkert nema góðmennskan við mig.
Hin óþægilega niðurstaða er sú að ég var of snemma í þessu !
Ég læt mér leiðast !
Ég fékk reyndar nokkra spennandi daga þegar ég vann að kosninga-aðstoð við annan forsetaframbjóðandann sem kemur héðan úr borginni. Ég er bara þannig kona að ég þarfnast þess að gera eitthvað, eitthvað annað en að slæpast.
Ég ætla að segja ykkur örlítið meira frá mér og mínu lífshlaupi ef ykkur er sama?
Eftir að fólkið sem ól mig upp, var látið, tóku við nokkur ár í skóla og svo fór ég í flugfreyjuna. Sá Carrier hætti þegar mér var boðið starf á skrifstofu þar sem að nám mitt í háskólanum nýttist til fullnustu. Það krafðist að ég myndi flytja búferlum frá gamla landinu mínu og setjast að hér í borginni minni stóru. Það var ekki erfið ákvörðun skal ég segja ykkur. Það var ekkert í gamla landinu sem ég var að skilja eftir, annað en sárar minningar og tómleiki. Ég stökk því til og þáði starfið og kom mér fyrir hérna. Ég var fljót að vinna mig upp í starfi og gegndi lykil hlutverki í fyrirtækinu allt þar til ég sagði upp fyrir stuttu.
Vinnan gaf mér aldrei neitt sérstakt, hvorki sigurtilfinningu þegar vel gekk, né heldur taptilfinningu þegar illa gekk. Ég vann bara þarna, gerði mitt besta og ekkert meira en það. Ég sé ekkert eftir starfinu sem slíku en sakna rútínunnar og skipulagsins sem var í kringum starfið mitt.
Ég var búin að eiga heima hér í 10 ár þegar ég ákvað að fara í sumarfrí til gamla landsins. Ég pantaði far með gamla flugfélaginu mínu og lagði svo af stað seint síðdegis og lent á gömlu grundinni eldsnemma að morgni. Það tók á móti mér ískaldur en fallegur sumardagur. Ég átti pantaðan bílaleigubíl og fann hann að lokum á illa skipulögðu stæðinu. Ég keyrði svo til borgarinnar og skráði mig inn á hótel í miðborginni. Ég er greinilega svolítil miðborgarrotta ekki satt? Ég fór á kaffihús, listasöfn og meira að segja gamla minjasafnið. Það fannst mér reyndar frekar óspennandi en skoðaði samt allt sem fyrir augu bar. Borgin hafði breyst töluvert á þessum tíu árum en ég rataði samt ágætlega um.
Ég náði sambandi við Signýju, gömlu vinkonu mína og komst að því að hún bjó í borginni og vildi endilega hitta mig. Við hittumst svo á kaffihúsi í miðborginni. Mér brá töluvert þegar ég sá þessa gömlu vinkonu. Hún hafði bætt á sig ótal kílóum og var illa til höfð, bæði til hárs og húðar ef svo mætti að orði komast. Saga hennar var heldur ekki beysin. Eftir grunnskólanámið fór hún að vinna við fisk og var orðin ólétt 17 ára að fyrsta barninu sínu. Pabbinn var verkstjóri í fiskvinnslufyrirtækinu og rétt um 30 árum eldri en Signý, giftur og átti fjögur börn. Hann hótaði henni öllu illu ef hún kjaftaði frá sambandi þeirra og til að kóróna skömmina, lét hann reka Signýju úr fiskvinnslunni fyrir lélega mætingu. Lélega mætingin kom af þeirri ástæðu að hún var með honum einhversstaðar í Jeppaferð. Það kom auðvitað ekki fram þegar henni var svo sagt upp störfum. Hún kynntist greinilega ótal mönnum síðan og átti börn með þeim flestum. Kannski ekki alveg öllum en þegar ég hitti hana á kaffihúsinu átti hún 6 börn með 6 mönnum! Ég fann svolítið til með henni. Ég heyrði það á tali hennar að draumar hennar hefðu kafnað í ófullkomleika lífs hennar og hún var ekki sátt. Henni fannst eins og það hefði allt verið betra ef hún hefði bara komist í burtu frá gamla landinu. Hún sagðist öfunda mig.
Ég lofaði henni því að það væri engin öfund í því að lifa mínu lífi.
Ég kvaddi hana með kossi á kinnina og góðum kveðjum. Ég heyrði aldrei aftur frá henni en sá minningagrein um hana á Morgunblaðinu á netinu fyrir 8 árum. Börnin hennar skrifuðu fallega um hana. Ég gat ekki ráðið af minningagreinunum hvað hafði komið fyrir hana.
Ég notaði tímann í borginni til að reyna að hafa upp á hver blóðmóðir mín og faðir væru.... fólkið lofaði að senda mér upplýsingar ef þær fyndust yfirhöfuð. Þau voru ekki vongóð einhverra hluta vegna.
Eftir að hafa eytt viku í borginni, fór ég aftur á flugvöllinn og leit aldrei til baka. Ég vissi að hingað kæmi ég aldrei aftur.
Ég hafði rangt fyrir mér......
Nú eru bara 44 dagar til jólanna minna....
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Pólitík
6.11.2008 | 09:58
Ég er alveg úrvinda.
Fyrrverandi vinnuveitandi minn hringdi í mig fyrir nokkrum dögum síðan og bað mig um að aðstoða við forsetakjörið. Ég er búin að vinna baki brotnu vegna þess síðan á mánudag og hef nánast ekkert sofið. Nú er þessu lokið og okkar maður bara verðandi forseti. Ég er lítið í pólitík en ég kaus nú samt og kaus "rétt" ef svo má að orði komast.
Ég er búin að vera of upptekin til að hugsa mikið um væntanlegan stóratburð í lífi mínu, en mér var kippt inn í veruleikann með bréfi í morgun. Það var frá útfararstofnunni sem ég pantaði öskukerið sem á að setja öskuna mína í. Það kom víst í ljós að þeir fengu gallaða sendingu og þurfa annaðhvort að láta öskuna í aðra tegund af keri eða geyma hana í einhverju sem líkist kaffidós af myndinni að dæma sem fylgdi bréfinu. Ég hló eiginlega bara með sjálfri mér þegar ég var búin að lesa bréfið yfir tvisvar. Ég pantaði krukkufjárann fyrir öskuna mína... það er ekki eins og ég hafi stórkostlegar áhyggjur af því hvort hún sé úr brúnum leir eða svörtum.... kaffidós eða kökuboxi... það verður bara lögum samkvæmt, að vera ílát. Það væri samt nokkuð skondið að vera grafin í kökuboxi :)
Ég þakka kærlega fyrir kommentin og kveðjurnar bloggvinir góðir. Ég er að vinna að stærri færslu sem ég ætla að setja hér inn fljótlega. Mér hefur fundist eitthvað svo tilgangslaust að blogga um lífið mitt undanfarið, það er eitthvað svo tómlegt og óáhugavert.... það er auðvitað þessvegna sem ég ætla að enda þetta en samt.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það styttist....
30.10.2008 | 09:48
Ég er í alveg hreint ljómandi skapi þessa stundina. Ég er sennilega í einhverri hormónahæð líkamlega. Veit eiginlega ekki afhverju en mér bara líður eitthvað svo vel inni í mér. Ég hef ekki bloggað hér undanfarna daga vegna þess að ég skrapp til Cleveland til þess að heimsækja vinkonu mína sem þar býr. Ég leigði bíl og keyrði til hennar og við erum búnar að haga okkur eins og táningsstúlkur. Við fórum út að borða og héldumst í hendur nær alla máltíðina eins og gamlar lesbíur, við fórum í bíó og hentum poppi eins og fífl í fólkið sem sat neðar en við í salnum. Við hættum því nú samt þegar ungu krakkarnir tóku eftir því að það vorum við sem létum svona og báðu okkur um að hætta svo þeim yrði ekki kennt um þetta
Við vorum meira að segja að spá í að stela bíl, opnum blæjubíl og keyra til New York, ræna Brad Pitt og misnota hann á allan mögulegan hátt og lemja Angelinu Jolie fyrir að vera svona yfirgengilega falleg að manni svíður í augun að horfa á hana á hvíta tjaldinu! Eftir allt þetta var svo stefnan að taka Thelma & Louise á þetta og keyra fram af einhverjum klettum og enda þetta allt þannig. Ég var til en þar sem að vinkona mín er hamingjusamlega gift og á tvö falleg börn, ætlaði hún bara að henda sér út rétt áður en ég keyrði fram af brúninni.... eða eins og hún orðaði það... ég tékka mig bara inn á hótel og verð í gsm sambandi við þig meðan þú keyrir.... mundu bara að spenna beltið !
Við grétum bókstaflega úr hlátri ! Alveg satt.
Þessi elska er sú besta vinkona sem hægt er að hugsa sér. Hún stakk upp á því að við myndum gera auglýsingu þar sem að vegna fráfalls góðra vinkonu, óskaði hún eftir nýrri vinkonu og taldi svo upp kostina sem nýja vinkonan þurfti að vera búin. Þeir voru afar ólíkir mínum dyggðum og kostum og skýringin á því var að ég var víst svo einstök að hún vildi ekki skemma minninguna mín með því að fá annað eintak af mér
Við grétum.... en ekki af hlátri í þetta skipti.
Ég yfirgaf þessa dásamlegu konu og fjölskyldu hennar með tár á hvörmum. Ég er ríkari manneskja fyrir að hafa fengið tækifæri á að vera vinkona hennar öll þessi ár.
JJ, takk fyrir kommentið og falleg orð. Ég vona að þú fáir bót þinna meina kæra vina. Ég þakka mínum sæla fyrir að hafa ekki þurft að ganga gegnum svona helvíti sem þunglyndi hlýtur að vera. Ég þekki því miður of marga sem hafa orðið því að bráð. Ég get ekki gefið þér nein ráð, því miður. Ég er ekki fullkomnari en það.
Ég tel núna niður til Jóla !
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)