Færsluflokkur: Bloggar
Koma boðuð
20.1.2009 | 20:02
Ég var að koma úr símanum. Hr. Canada var á línunni og er búinn að boða komu sína hingað til borgarinnar á morgun !
Þá ætlar hann að koma hingað og eyða með mér kvöldstund. Ég er núna að búa mig undir að segja honum frá því að hann verði orðinn faðir eftir nokkra mánuði
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að bera mig að við að segja honum fréttirnar...
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mr. Canada
17.1.2009 | 00:53
Ég lét verða af því að hringja í Mr. Canada, eða Peter eins og ég kalla hann hérna.
Hann var ekkert nema ljúfmennskan og spjallaði á skemmtilegu nótunum og gerði nett grín að kvöldinu okkar góða. Kvartaði svolítið undan því að hafa ekki getað náð í mig og var orðin vonlaus um að heyra í mér aftur. Bara sætastur.
Ég spurði hann hvort hann væri á leið til Chicago á næstunni og jú það gat hann staðfest. Hann er að koma hingað frá Canada fljótlega og við ætlum að hittast. Ég sagði honum að ég væri hálf farlama og lýsti hann yfir miklum áhyggjum af mér þegar ég sagði honum að ég hefði lent í bílslysi.
Nú tekur bara við kósý kvöld hjá mér og ætla ég að hlusta á CD sem fólkið lánaði mér. Billie Holiday heitir söngkonan og er alveg hreint mögnuð. Ég ætla líka að fara í bað og það fyrsta síðan á jólunum! Ég hef bara farið í "þvottapoka" þvott síðan í slysinu. Núna er baðið tilbúið en ég er að láta það kólna aðeins niður svo að litla krílinu verði ekki heitt... of heitt það er að segja. Ég er líka búin að setja poka yfir fótaspelkuna svo það er engin hætta á að þetta blotni allt í gegn. Úff þetta verður bara notalegt, það hríslast um mig vellíðunartilfinning. Nú væri gott að fá sér rauðvínsglas.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Að Krókna
16.1.2009 | 00:43
Ég er bara að krókna úr kulda og er orðin blá á fingrunum.
Úti er 14°F og það bilaði kyndingin hér á gistihúsinu. Hjónin dásamlegu sem eiga húsið, komu strax með auka teppi fyrir mig til að hjúfra mig í og núna er maðurinn að fara til að kaupa rafmagnsteppi, svona ef skyldi vera að kyndingin yrði ekki löguð í dag ! Við sjáum hvað setur, ef þetta lagast ekki þá flyt ég tímabundið á hótel, ekki ætla ég að komast á síður blaðanna hérna undir fyrirsögninni "Fraus í hel með hor í nös" ! En guð minn góður hvað kuldinn smýgur inn gegnum merg og bein.
Ég er búin að "opna" síðuna mína á Facebook. Er að skoða þetta form tjáningar núna. Það er víst þannig að maður er ekki "inn" ef maður er ekki með síðu á Facebook. Ég sé samt ekki hvernig er hægt að blogga þarna inni, er það kannski ekkert hægt?
Þrátt fyrir mikinn kulda, þá er ég að verða meira og meira sátt við lífið og tilveruna. Litla krílið inni í mér á auðvitað allan þátt í því geri ég ráð fyrir. Einnig frábærir vinir, hér í Us og líka í litlu fjarlægu landi. Þið eruð búin að vera mér stoð og stytta og þakka ég ykkur svo innilega fyrir það. Þið, elsku bloggvinir hafið verið dugleg að skrifa í athugasemdakerfið hér og senda mér einkaskilaboð. Ég á bara til eitt orð yfir það "Dásemd", þið eruð hreinasta dásemd.
Það er alveg ótrúlegt hvað ég hef fengið mikið út úr því að tjá mig hér á síðum MBL Bloggsins. Það hafa rekist hingað inn alveg heill hellingur af góðu fólki og skrifað mér fallega um bloggið mitt og hvatt mig til dáða. Eftir 1. Janúar, hættu heimsóknirnar mikið til að koma inn á síðuna mína, mér til svolítilla vonbrigða. Ég fór samt af stað með þessa síðu, ekki til að auglýsa mig, heldur átti hún að verða einskonar minningagrein um þessa konu frá gamla landinu sem hefur verið búsett svo lengi í Us. Svo breyttust áætlanir og núna finn ég fyrir mikilli þörf fyrir að tjá mig og fá feedback. Sem betur fer þá á ég nokkra góða bloggvini sem eru duglegir að gefa mér allskyns ráð og punkta.
Ég er búin að taka út "Næstum til himna" og setja inn gestabók.
Nú er maðurinn kominn eftir bæjarrúntinn og ég ætla að taka fagnandi á móti rafmagnsteppinu. Áætlunin er sú að hjúfra mig undir teppinu og eiga bara náðugt kvöld hér í sófanum og horfa á TV. Það er svosem ekki eins og ég geti mikið farið á Gala ball ! Svona "flækjufótur" eins og Jac sagði í athugasemdakerfinu.
Gegnum smá krókaleiðir hef ég komist að því að Mr. Canada er væntanlegur til hingað til Chicago. Ég held að ég hringi í símann hans eftir að formlegum vinnutíma ljúki í dag. Það ætti að verða forvitnilegt símtal.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heim
12.1.2009 | 23:26
Það gekk vel að komast hingað niður eftir á Gistihúsið góða. Bílstjórinn á bílnum sem keyrði mig, aðstoðaði mig alveg upp í stofu þar sem að ég er að nota hækjur í fyrsta skipti á ævinni. Það er heilmikið mál að ganga með þessi hjálpartæki. Ég vona að ég nái að venjast þeim áður en gifsið verður tekið af eftir nokkrar vikur.
Eftir að hafa komið mér fyrir í fallega rúmgóða herberginu "mínu", slakaði ég aðeins á og hóf síðan að hringja út um allar jarðir.
1. Lögfræðingurinn minn
2. Fasteignasalan sem sá um að selja húsið mitt (ætla að finna lítið barnvænt hús)
3. Vinur minn í fjarlæga landinu
4. Vinkona mín í Cleveland
5. (reyndi amk 4 sinnum að hringja í Mr. Canada.... en guggnaði á því )
6. Útfarastjórann..... (sorry vinur, þú misstir viðskiptavin)
7. Já ég semsagt reyndi 5 sinnum að ná í Mr. Canada......
8. Fyrrum vinnuveitanda, hann bauð mig velkomna aftur til vinnu ef ég hefði áhuga á. Hann spurði ekkert og ég sagði ekkert. Algjör gullmoli þessi maður.
Ég, áður en ég gleymi því, ætla að þakka ykkur kærlega fyrir fallegar athugasemdir. Án þeirra væri ég sennilega hætt að blogga hér. Mér skilst samt að mér sé þetta ekki leyfilegt lengur!? Að blogga hér "Nafnlaust" !? Það er samt enginn búinn að stoppa mig? Er ég að misskilja eitthvað...allavega ætla ég að blogga þar til að einhver skrúfar fyrir mig :)
Það var semsagt alveg nóg að gera hjá mér í dag og var það alveg ágætt enda hafði ég þörf á að dreifa huganum aðeins. Nú er ég bara á fullu að einbeita mér huglægt að því að "gleyma" öllu um sjálfsmorðshugleiðingar undanfarinna mánaða eða ára og koma inn fallegum framtíðar-hugsunum.
Ég er mikið búin að velta því fyrir mér hvort litla barnið sem vex innra með mér, verði drengur eða stúlka. Ég hef heyrt að sumar konur hreinlega finni það sjálfar eða í það minnsta, fái það sterklega á tilfinninguna hvort það verður. Ég finn bara ekkert! Ég ætla samt ekkert að láta það á mig fá og verð himinlifandi með hvort kynið sem er. Bara að það sé heilbrygt, það hlýtur að skipta öllu máli.
Ég e búin að vera töluvert slöpp í allan dag og með flökurleika. Það eru víst fylgikvillar óléttunnar og reikna ég með að það gangi yfir fljótlega. Að öðru leiti líður mér vel. Andlegt jafnvægi er bara nokkuð gott miðað við það sem á undan er gengið, en ég finn samt að ég þarf að hugsa um líf mitt. Ég þarf að gera þetta upp, allt þetta dæmi sem á undan er gengið. Ég ætla ekkert að "loka" það inni og láta það éta mig upp, halla mér svo að flöskunni eða einhverju öðru og verra þegar árin færast yfir. Nei, ég ætla að kljást við þessa drauga hér og nú..... og sigra !
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komið að heimför....
10.1.2009 | 13:19
Heim hvert ?
Það er von að maður spyrji sig. Ég byrja samt bara á að flytjast á gistihúsið góða. Það stóð til að ég færi á sjúkrahótel en eftir að hafa talað við gistihúsfólkið, kom í ljós að þau geta boðið mér upp á herbergi á neðstu hæðinni þannig að ég þarf ekkert að príla upp eða niður stiga. Ég fer þess vegna beint þangað í dag eftir útskriftina hér á spítalanum.
Ég átti gott samtal við lögfræðinginn minn í morgun og var það afráðið að ég mun ekki (sic) gefa peningana mína til góðgerða að þessu sinni. Hinsvegar ætla ég að finna einhverja leið til að bæta fyrir gjörðir mínar. Ég er á þessu augnabliki fegnust því að lögfræðingurinn ákvað að bíða aðeins með það að setja inn á reikning góðgerðafélagsins. Hann vildi vera viss um hvernig mér reiddi af.
Það er tilhlökkun í mér að komast af þessum spítala, ég kann ekki vel við mig þegar fólk stjanar svona í kringum mig. Það er eitthvað svo "niðurlægjandi" við það að ókunnug kona ætli sér að "þrífa" mitt allra heilagasta.... því mun ég aldrei venjast. Svo er það bara spítalalyktin sem fer í mínar fínustu taugar.
Það er búið að hafa uppi á Hr. Canada ! Ég er komin með númerið hans en þori ekki fyrir mitt litla líf að hringja í það.
"Sæll, manstu eftir mér?"
"Nei, ég er sjarmör og venjulega umvafinn kvenfólki, afhverju ætti ég að muna eftir þér?"
"Ja, sko, við sváfum saman eina nótt í October"
"Já okey vina, þú ert þá ein af 31, geturðu verið nákvæmari?"
"Ja sko, ég heiti Jacky Lynn"
"Hahahaha heldurðu virkilega að ég leggi nöfn á minnið, ég er sko bara mannlegur"
"Já en við áttum sérstaka nótt, það small allt svo vel saman og við náðum bæði frábærum hæðum í samlífi okkar"
"Já ok, þá erum við aftur komin í 31"
" En come on, við höfðum það svo huggulegt eftir að hafa farið út að borða og enduðum svo á hótelinu mínu!"
"30"
"Ég var í "ömmu-naríum...."
"Já ert þetta þú Jacky Lynn, gaman að heyra loksins frá þér..... wassup?"
"Ja sko, ég ætlaði að kála mér en rétt áður en ég lét verða af því, komst ég að því að ég er ólétt.... og þú ert pabbinn!?"
"click.... dut dut dut dut......."
Ég reikna með að samtal okkar gæti litið svona út.... en ég er svo sem óþarflega svartsýn eða hvað?
Ég hringi í hann á morgun.... eða hinn.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ein en samt ekki :)
8.1.2009 | 16:11
Það er grámyglulegt hér fyrir utan spítalann. Ég horfi stöðugt út og læt mig dreyma um litla krílið sem vex og dafnar inni í mér. Það er alveg ótrúleg tilfinning og notaleg að horfa á n þrýstast út í náttjakkann og vita að það er vegna krílisins en ekki ofáts :)
Vinur minn góði er kominn til síns heima og gekk allt vel hjá honum. Kæri vinur, stuðningur þinn er búinn að vera ómetanlegur.
Ég læt fara vel um mig hér og glápi á sápuóperur allan liðlangan daginn. Ég er komin með það á hreint að Guiding Light er hannað af fólki með djúpa sálarröskun og fær fullnægju sína með því að demba þessum ósóma yfir okkur saklausa áhorfendur. Ég get samt varla beðið eftir þættinum á eftir
Fæ svo niðurstöður í þessum blóðrannsóknum á morgun. Veit ekki afhverju læknirinn vildi ólmur taka svona mikið af prufum..... það er jú búið að staðfesta að ég er ólétt
Ég er búin að setja í gang gegnum fyrirtækið sem ég vann hjá, leit að Canadíska sjarmörinum. Ég læt ykkur vita hvað kemur út úr því....
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Allt í ágætu standi
5.1.2009 | 16:31
Ég er búin að fara í allskyns rannsóknir og mælingar hér á spítalanum. Það verður ekki betur séð en að ég sé í alveg þokkalegu standi miðað við aðstæður. Ég fæ svo niðurstöður í blóðrannsókn síðar í vikunni og á ég ekki von á öðru en góðum fréttum þar enda líður mér alveg þokkalega vel (fyrir utan verk í fæti, bringunni, höfðinu og svo þessa eiífu þreytu :) )
Andlega hliðin er einnig á uppleið eftir hræringar síðust vikna. Á ég þar mikið að þakka kærum vini sem hafði fyrir því að fljúga alla leið hingað til Ameríku frá landinu sem hann er búsettur í, til þess að standa við sjúkrabeð mitt. Hann gerir mest lítið úr því sjálfur en segir það hafa verið meira til þess að sleppa aðeins frá konu og börnum heldur en til að hitta mig ! Eitraður húmoristi :)
Hann á pantað flug heim í kvöld og erum við þegar búin að kveðjast.
Enn og aftur, takk fyrir kæri vinur og ég þakka ykkur hinum fyrir falleg skilaboð.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Aftur til Chicago
4.1.2009 | 00:24
Þá erum við vinur minn komin til Chicago! Ég fékk blendnar tilfinningar þegar ég sá Sears Turninn gnæfa yfir Freeway eða Hraðbrautina, á leið okkar inn í borgina mína fallegu. Ekki átti ég von á því að sjá hann aftur, þennan gamla rótgróna vin. Tár fylltu augu mín við sýnina og ég vakti athygli sjúkraflutningamannsins sem sat aftur í hjá mér, er ekki allt í lagi vina? Fer illa um þig? Nei, sagði ég, það er bara svo gaman að sjá Sears gamla aftur. Hann brosti og játti því, já mér finnst hann alltaf svo tilkomumikill.
Vinur minn keyrði á eftir okkur eða undan, veit ekki alveg hvort, á bílaleigubíl. Hann tékkaði sig inn á hótel og ætlar að kíkja á mig í kvöld eða fyrramálið, fer eftir því hvernig rannsóknirnar ganga.
Ég er núna bara að bíða eftir því að það verði náð í mig og mér rúllað inn í skoðun. Búin að koma mér ágætlega fyrir hér á stofunni og læt ferðaþreytuna líða úr fótleggjunum.... eða réttara sagt, fótleggnum, því hinn er svosem í langvarandi þreytukasti !
Mér líður alveg bærilega, er svolítið dofin andlega en við því mátti svosem búast eftir að hafa tæmt batteríin og gert klárt fyrir lokun kerfis.
Vinurinn minn var búin að vara mig við þessu, sagði að það væri eiginlega óhjákvæmilegt að ég myndi sökkva niður í eitthvert svartnætti og dofa, en þá væri um að gera að strjúka yfir kviðinn og muna að sólargeislinn þarna inni ætti allt sitt undir mér komið. Hann notaði ekki nákvæmlega þessi orð en meiningin var sú sama ;)
Ég á eftir að sakna hans gríðarlega þegar hann svo fer aftur til síns heima
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Nýtt ár, ný tækifæri, nýtt líf !
2.1.2009 | 18:55
Ég sit hér í sjúkrarúmi mínu og skrifa á fartölvuna mína. Minn elskulegi blogg vinur situr hérna hjá mér og styttir mér stundirnar með spjalli og óþrjótandi uppsprettu af bröndurum! Á morgun förum við svo í sjúkrabíl til Chicago og er ætlunin að ég fái að fara "heim" eftir læknisrannsókn á spítalanum þar. Þetta er tryggingamál (að láta skoða mig á spítalanum þar) og verð ég víst að hlýta því. Vinur minn er búinn að fá inni fyrir mig á sjúkrahóteli og verð ég þar næstu 4-6 vikurnar meðan fóturinn jafnar sig.
Vinkona mín frá Cleveland kom að heimsækja mig í morgun og verð ég að segja að það var mikið grátið hér á stofunni En það góða við það að þetta voru gleðitár. Takk fyrir elsku vinkona án þín væri mitt fátæklega líf enn fátæklegra.
Núna tekur alveg nýr kafli við í mínu lífi.... ég þarf greinilega að upphugsa og endurmeta mína stöðu og það all rækilega. Síðustu árin hafa farið í þvílíkar sjálfspælingar og naflaskoðanir varðandi hversu leið ég hef verið á þessu blessaða lífi. Á einu augnabliki er svo lífi mínu kollvarpað.... það er alveg ótrúlegt að hugsa til þess að ég var á leið til Xxx-xxxxx til að taka þetta líf og enda það! Hvað ef ég hefði ekki stoppað til að taka þessa "prufu" ? Hvað ef ...hvað ef ?
Ég ætla ekkert að spá neitt meira í það, ég tók þessa ákvörðun á sínum tíma og var að fylgja sannfæringu minni. Ég hafði ekkert að lifa fyrir og til hvers þá að vera eyða súrefni fyrir öðrum? Þannig leit ég á þetta.... núna er málið fyrir mig að snúa þessari hugsun algerlega við, fara að horfa á lífið sjálft öðrum augum. Það er skyndilega svo bjart yfir mér, ég á því ekki að venjast.
Eins og ég hef áður sagt hér á blogginu mínu, þá getgat ég ekki eignast barn. Núna er þeirri hindrun rutt úr vegi og ég er ólétt.... hmmm ég þarf aðeins að kjamsa á því orði.... Ólétt.... það fer um mig sælustraumur alveg hreint.... litla krílið innan í mér á eftir að verða sannur engill. Litla dásamlega kraftaverkið mitt.
Ég kreppi hnefana mína og lofa hérmeð að þetta litla barn skuli fá alla þá ást og umhyggju sem ég fór svo innilega á mis við í allri æsku minni !
Ég vil þakka ykkur alveg innilega fyrir athugasemdirnar ykkar og einkaskilaboð. Ég hef fengið afar falleg bréf frá sumum af bloggvinkonum mínum og eiga þær innilegar þakkir skildar. Á þessu augnabliki treysti ég mér ekki til að svara þeim persónulegu spurningum sem ég hef fengið og bið ég þær/þá um að virða það við mig.
Ég veit ekki hvort ég á að halda áfram að blogga hérna, núna þegar allt er svo breytt í tilveru minni? Þetta blogg átti að vera kveðjuóður til lífsins, minningarbrot um manneskju sem á ekki neinn að.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég er slösuð en lifandi!
30.12.2008 | 17:32
Kæru bloggvinir og þið sem þetta lesið:
Á leið minni til endastöðvarinnar tóku aldeilis örlögin í taumana.
Ég var að keyra á Freeway og gekk afar hægt vegna mikillar snjókomu og vinds. Ég var oft komin á þá skoðun að best væri að leggja bílnum við eitthvert Model við veginn og gista bara þar fram á vorið. Ég er alls óvön að keyra í snjó og það hræddi mig mikið hvað það voru margir bílar sem komu á mikilli ferð og tóku framúr mér og hinum sem fóru varlega.
Ég stoppaði við eina vegabúðina og fór á salernið með prufuna mína.
Ég þarf ekkert að segja ykkur að ég kláraði allar þrjár prufurnar áður en mér féllust alveg hendur og sat hágrátandi inni á salerninu. Þær sýndu allar blá línu sem merki um óléttu ! Ég bara sat þarna inni, titraði,skalf og grét þess á milli. Ég er búin að vera ólétt í rúmlega tvo mánuði án þess að vita það sjálf !! Hvernig er það eiginlega hægt!? Finna konur virkilega ekki fyrir einkennunum skýrar en þetta? Ég er búin að vera slöpp, flökurt á morgnanna og með netta magaverki, en samt ekkert svo afgerandi að mér dytti ólétta í hug. Ég rifjaði upp í huganum, allar konurnar sem hafa fætt börnin sín í klósettið!! Þessar sem maður les um í National Enquirer og svoleiðis sneplum. Mér leið eins og einni af þeim. Ekki góð tilfinning.
Eftir að hafa grátið nægju mína, sá ég að auðvitað og fann, að allar sjálfsmorðshugmyndir voru fyrir bý! Núna var líf mitt komið í eina allsherjar kollsteypu og ég varð bara að vinna úr því í ró og næði.
Ég ákvað þarna inni á salerninu, að snúa aftur til Chicago og koma mér fyrir á gistihúsinu meðan ég hugsaði málið og jafnaði mig aðeins. Einnig var ofarlega í huga mér að ná sambandi við Herra Dásamlegan eða Mr. Canada eins og ég kallaði hann alltaf í huganum. Það gæti orðið þrautin þyngri vegna þess að ég var búin að deleta út símanúmerinu hans. Ég verð allavega að reyna, mér finnst hver maður eiga rétt á því að vita af því ef hann á barn, ekki satt?
Ég var semsagt búin að snúa við og var á leið aftur til Chicago þegar slysið varð.
Það var ennþá þessi skelfilegi hríðarbylur og lítið lát þar á. Það gerðist svo að einn af þessum óðu bílstjórum sem sífellt voru að taka framúr á alltof mikilli ferð, keyrði aftan á mig og kastaði bílnum sem ég var á á bílinn sem var á undan mér.
Ég man ekki eftir mér fyrr en ég lá hér inni á spítalanum og það var verið að tengja mig við einhversskona mælitæki sem átti að greina hjartslátt í litla fóstrinu. Læknirinn sagðist hafa sett mig í sónar meðan ég var meðvitundarlaus og ástæðan var sú að sjúkraflutningamennirnir höfðu séð pakkningarnar utan um óléttuprufuna á gólfinu á bílnum.
Hann staðfesti við mig að fóstrið væri um það bil 2-3 mánaða og það virtist ekki hafa orðið fyrir hnjaski í árekstrinum. Það var búið að setja á mig dömubindi og nú ætti að fylgjast með því hvort það kæmi eitthvað blóð niður.
Ég var svo svæfð því að það þurfti að gera aðgerð á fætinum á mér sem að brotnaði illa, eins er ég ofboðslega marin um alla bringuna eftir öryggisbeltið og hálsinn er ennþá hafður í kraga vegna þess að ég fékk Whiplash. Ég er dofin fram í fingurgómana á vinstri hendi og segir læknirinn góði að það sé vegna klemmdra tauga í hálsinum.
Núna ligg ég hér í sjúkrarúmi með annan fótinn hengdan upp í loft og horfi á vin minn dotta í stól við hliðina á rúminu mínu. Ég er fegin því að fartölvan mín slapp ósködduð úr slysinu, annað en ég.
Ég er byrjuð að gráta hljóðlega þegar ég horfi á þennan dásamlega mann. Það var hringt í hann af hjúkrunarfólkinu hér vegna þess að hans númer var eina númerið í símanum mínum.
Hann og konan hans ákváðu í sameiningu að það væri ekki spurning að hann kæmi hingað alla leið til Ameríku til þess að bjóða fram aðstoð sína. (það leka tárin hjá mér núna). Þrátt fyrir jólaboð, gamlárskvöld og allt, þá kom hann. Hversu góðar geta manneskjur verið, ég bara spyr?
Hann kom svo hér í gær og ég vaknaði við að hann stóð við rúmið mitt. Ég þekkti hann samstundis, hlýjan sem fylgdi brosinu hans var alveg í takt við það sem hann hefur skrifað mér á blogginu og svo í þessum örfáu símtölum sem við höfum átt. Kæra Xxxxxxxx þú átt alveg yndislegan eiginmann, takk fyrir að sjá af honum alla þessa leið. Þið munuð eiga mína vináttu vísa það sem eftir er.
Hvað tekur nú við?
Ég þarf greinilega að endurhugsa líf mitt og tilveru. Nú er komið lítið kríli sem, ef allt gengur að óskum, á eftir að dafna vel og þarfnast ást minnar og umhyggju. Það má guð vita að ég hef nóg af slíku.
Ég þarf einnig að gera ráðstafanir með allt annað. Allir mínir peningar áttu að fara í góðgerðamál að mér genginni. Kannski er hægt að stoppa það eitthvað af, best að reyna að ná sambandi við lögfræðinginn minn í dag. Annars hef ég minnstar áhyggjurnar af peningum þessa stundina. Ég er meira að berjast við tilfinninguna um það að hafa brugðist sjálfri mér með því að hafa ekki endað þetta allt eins og ég stefndi að. Eins ótrúlegt og það kann að virðast, þá fékk ég skilaboð frá einni bloggvinkonunni þar sem að hún lýsir yfir furðu sinni á því að ég skuli vera lifandi ennþá? Ég varð svolítið hissa því það skein í gegn hjá aumingja manneskjunni að hún og hennar líf hefði beðið hnekki á því að ég skyldi ekki hafa staðið við mitt??
Ég bið bara góðan guð að geyma þessa konu.
Ég er sátt og það skiptir eiginlega öllu máli ekki satt?
Nú sé ég loks ljósið við enda ganganna í formi lítils sólargeisla sem vex innra með mér.
Jacky Lynn
Jólin mín urðu svo raunverulega að Jólakraftaverki
Í dag er 1. Dagurinn af restinni af lífi mínu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)