Færsluflokkur: Bloggar
Amma mín
28.2.2009 | 23:17
Mér líður bara dásamlega í dag. Allt er svo bjart og fallegt framundan hjá mér og litlu krílin dafna vel inni í framsetta maganum mínum. Peter er sannur herramaður og gerir allt sem ég bið hann um og jafnvel meira til.
Ég er búin að finna húsnæði í gamla fallega hluta borgarinnar minnar og stutt frá gríðarlega fallegum útivistargarði með fallegu vatni. Húsið er ekki mjög stórt en afar vel viðhaldið og fallegur Art Deco stíll á því. Það góða við það er að það er alveg fullbúið húsgögnum, eða það er að segja, allar mublur og svoleiðis. Það vantar hnífapör, diska, glös pg svo auðvitað allt lín og þessháttar. Við Peter erum búin að þræða búðirnar og versla frá okkur ráð og rænu. Hann fór til Vancouver í gær en ætlar að koma aftur við fyrsta tækifæri. Við erum búin að eiga dásamlegar stundir og spjallað mikið saman. Það er alveg einstakt hversu góður hlustandi hann er. Það eru engar frammígripssögur hjá honum þegar ég er að tala. Ekkert verið að segja "Já, en veistu, ég hafði það líka bara slæmt" og reynt að toppa einhverja vanlíðunar sögu sem ég var í miðjum klíðum að segja.... skiljið þið hvað ég er að meina?
Ég er bara að verða svakalega hrifin af honum en veit ekki hvað verður.... ennþá.
Hann var alveg dásamlegur við mig um daginn þegar ég fékk emailinn frá gamla landinu. Það voru síðustu púslin sem mig vantaði í sögu ömmu minnar.
Ég brotnaði niður en náði að segja Peter frá þessari sögu í stuttu máli. Hann var ekki hrifinn af illindum gömlu konunnar.
Hér kemur saga Ömmu minnar.
Hún var fædd inn í ríka fjölskyldu og átti föður sem var framarlega í stjórnmálum síns tíma. Hún átti heima í höfuðborginni en flutti úr henni þegar hún var gjafvaxta og hitti unnusta sinn. Þau leigðu sér hús í nálægum bæ og hófu búskap saman. Með peningum frá föður sínum opnaði hún svo verslun og smásaman vann hún sig upp í það að "eiga" nánast allan bæinn ef svo mætti að orði komast.
Það komu fljótlega brestir í samband hennar og unnustans þar sem að hann virtist vera frekar hneigður fyrir karlmenn. Það voru ófá skiptin að amma borgaði leigubílstjórum vel fyrir þagmælsku þegar þeir keyrðu unnustanum ofurölvi heim í hlað ásamt ungum fylgdarsveini sem þekktur var fyrir kynhneigð sína. Í að það minnsta tvö skipti kom unnustinn heim í engu öðru en kvenundirfatnaði og málaður eins og drós í framan.
Á þessum tíma var betra að deyja en að láta upp komast um þvílíkt hneyksli sem þetta og varð það svo að unnustinn fannst látinn inni á lager búðarinnar, hengdur. Sjálfsmorð var það skráð í bækur lögreglunnar en manna á milli var sagt að amma hefði komið þessi svona fyrir. Peningar langafa og staða hans í þjóðfélaginu dugðu samt til að þagga allt kjaftæði niður.
Afa minn hitti hún svo stuttu síðar og gerði hún hann að sínum ektamanni á met tíma. Það var alveg augljóst að hann gat ekki verið faðir barnsins sem hún bar undir belti þótt þau bæði segðu svo vera.
Þau eignuðust svo móður mína.
Það var stuttu eftir fæðinguna að óveðursskýin fóru að hrannast upp fyrir þessum ungu hjónum.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Grautur Fortíðar
19.2.2009 | 20:26
Við Peter fórum á spítalann í gær og ég og krílin tvö vorum sónuð í bak og fyrir. Það lítur allt eðlilega út með krílin og mér líður bara þokkalega. Peter var mjög spenntur og spurði lækninn margra spurninga og vildi vita nákvæmlega hvað fyrir augu bar á skjánum. Hann var eins og lítill krakki í leikfangabúð og mesta furða að hann tók ekki sónarinn af lækninum og rúllaði honum bara sjálfur yfir magann á mér :)
Þar sem að ég er orðin þetta gömul, var boðið upp á hnakkaspiksmælingu og kom allt eðlilega út úr því. Ég vildi hinsvegar ekki fara í blóðprufuna sem var boðið upp á til að meta líkurnar á barni/börnum með Downs syndrome. Við ræddum þetta aðeins áður en við fórum inn og niðurstaðan var sú að við tækjum því sem að höndum bæri. Ekkert flóknara en það.
Það hríslaðist um mig vellíðunartilfinning þegar ég sá svo litlu krílin á skjánum. Hugsa sér hversu nálægt ég var að enda þetta allt, og það bara fyrir svo örstuttu síðan. Ég vil ekki hugsa um það meira. Ég ætla að loka þær tilfinningar niðri og henda lyklinum. Ég tel mig ekki þurfa að kryfja þau mál neitt frekar og held að ef ég fari enn og aftur til sálfræðings, þá flæki ég líf mitt bara enn frekar, heldur en það leysi eitthvað. Ég var búin að gera upp öll innri mál og ætlaði að enda þann vítahring. Núna hef ég allt annað sjónarhorn á lífið og tilveruna og allt er orðið breytt. Þá á maður að mínu mati, ekkert að vera garfa í graut fortíðar.
Talandi um fortíð.....
Ég er búin að standa í samskiptum við konuna á skrifstofunni í gamla landinu. Hún er búin að vera afar hjálpleg. Mig vantaði örfáar upplýsingar til þess að geta klárað að gera upp fortíðina við Ömmu mína í gamla landinu. Þær upplýsingar komu á e-mail í gær.
Amma mín var bitur kona, hún hataði dóttur sína meira en pestina oggerði henni allt til skráveifu eftir að hún komst að því að hún var ástfangin af manni sem var af erlendu bergi brotin. Síðasta púslið í skilningi mínum á hatri gömlu konunnar kom svo í þessum e-mail í gær. Ég fékk sjokk og stóð bara fyrir framan tölvuna og hágrét þegar Peter kom inn í herbergið. Hann stökk til og greip um mig. Hvað er að Jacky Lynn, spurði hann og áhyggjurnar leyndu sér ekki í röddinni? Ég settist niður og hélt um magann, það fór um mig skelfingarstraumur og skyndilega skildi ég gömlu konuna og allt hennar hatur. Mér varð flökurt og stóð aftur upp til þess að fara á salernið og kasta upp. Peter vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Þetta er allt í lagi, sagði ég frekar ósannfærandi, ég var bara að fá svo leiðinlegar upplýsingar, ég þarf bara smá vatn og svo jafna ég mig.
Eftir að hafa fært mér vatnsglas og strokið mér um ennið með votu handklæði, sagði ég Peter upp og ofan sögu foreldra minna.... og ömmu.
Fu** ! Var það fyrsta sem hann sagði eftir að ég hafði lokið mér af.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laus við gifsið :)
12.2.2009 | 09:19
Ég er loksins laus við gifsið og fóturinn grær vel. Það eru auðvitað smá verkir ennþá en ekkert til að tala um. Ég finn auðvitað vel fyrir aukaþyngdinni sem krílin tvö eru að leggja á mig en það er samt barnaleikur miðað við það að þurfa að dröslast um á hækjunum. Ég haltra pínulítið en held að það sé bara meðan vöðvarnir í ökklanum eru að styrkjast.
Meðgangan gengur vel og ég er minna þreytt núna en á fyrstu vikum meðgöngunnar. Núna er ég komin rétt um 19 vikur og það er sónar og fósturmælingar í næstu viku.
Peter ætlar að koma og vera með mér í spítalaheimsókninni. Þessi elska. Hann er búinn að panta tíma hjá lækni til að kanna frjósemina því að auðvitað er maðurinn alveg steinhissa á því að vera allt í einu að verða tvíbura pabbi eftir að hafa í mörg ár verið dæmdur úr Barnseignarleiknum. Það hlýtur að koma svipur á fyrrum konuna hans við þessar fréttir. Ég hlakka til að sjá hann í næstu viku. Hann fær stórt knús og koss... ef hann kemst þá að fyrir stóru bumbunni sem er að myndast framan á mér :)
Ég kem til með að segja ykkur í næstu bloggum hér á eftir hvað varð eiginlega um illu ömmu mína og afhverju hún var svona hatursfull gagnvart móðir minni.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Er að venjast....
8.2.2009 | 00:23
Ég er fór upp á spítala í gær. Ég hafði fengið bréf sent með DHL með vægast sagt skrítnum upplýsingum. Það er best að segja það bara beint hér... ég geng með tvíbura!
Það skrítna er að þeir sáust ekki báðir á sónar vegna þess að annar er alveg á bak við hinn, segir í bréfinu. Hvernig vita þeir að það eru tvö kríli þarna inni, jú, hormónagildin mín eru upp úr öllu valdi svo þeir (læknarnir) telja að það séu tvö.
Ég fór svo í annan sónar í gær og fékk þetta allt staðfest. Það eru tvö lítil kríli þarna inni í ört stækkandi kúlunni.
Afhverju segi ég "Sjokk og Sjálfsásökun" í fyrri færslu...?
Ég var næstum því búin að enda þessi tvö litlu líf án þess að vita að þau yxu inni í mér og það fyllir mig skelfingu. Nún líður mér eins og Guð sé að leika sér að mér, láta mig hlaupa upp og niður tilfinningaskalann.
Ég hringdi í Peter og sagði honum fréttirnar í gærkvöld. Hann varð eiginlega bara glaður... gerði grín og sagðist ætla í mál við lækninn sem úrskurðaði hann ófrjóan.
Jacky Lynn.... Lofarðu mér því að ég á þessi börn? Spurði hann mig svo grafalvarlegur í símann. Já minn kæri Peter, ég lofa þér því og stend við það fram í rauðann dauðann. Þú og enginn annar gæti hugsanlega verið faðir þessa barns...barna !
Læknarnir drógu úr mér svo mikið blóð í gær að ég lá alveg heillengi inni á deild að jafna mig. Drakk örugglega tvo lítra af safa og borðaði kexkökur til að ná orku aftur.
Það kom svo læknir sem leit á mig og tók munnvatnssýni, eða stroku eins og hann kallaði það. Ég náði ekki alveg að spyrja út í það því að hann var kallaður upp í bíp-kerfið sitt og varð að rjúka með það sama. Hann minnti mig svakalega á Dr. House eða réttara sagt á leikarann sem leikur Dr. House. Hef ekki hugmynd um hvað hann heitir en er fjári sexí með sína 5 daga brodda og nístandi blátt augnaráðið.
Það er lítið að gerast í húsnæðismálum en fasteignasalinn sagðist vera að undirbúa að kynna fyrir mér nokkur hús. Kannski bara í næstu viku. Það væri betra ef það væri seinnipart vikunnar því að ég á að losna við gifsið á miðvikudag ef allt lýtur vel út á myndum. Það verður töluverður léttir.
Núna ligg ég hér uppi í rúmi og hamra á tölvuna mína. Það er ýmislegt að brjótast um í höfðinu á mér og nokkrir góðir bloggvinir búnir að krefja mig meiri upplýsinga um fortíð mína. Ég var búin að skrifa heilmikið um það og láta kæran vin fá það í hendurnar en eins og þið vitið sem þetta lesið, fóru hlutirnir nú örlítið öðruvísi en ég hafði reiknað með. Ég ætla þess vegna að bæta aðeins úr því í næstu færslum.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sjokk og sjálfsásökun
6.2.2009 | 11:12
Er til Guð ? Ef svo er, hvað í fjáranum er hann þá að pæla?
Bréfið frá Spítalanum var svo sannarlega til þess að ég þarf að endurskoða líf mitt, eina ferðina enn.
Ég er ekki andlega tilbúin undir það að ræða innihald bréfsins á þessu augnabliki.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hormónar !
3.2.2009 | 12:17
Við Peter erum búin að eiga góðar stundir hér í Chicago. Hann þarf samt að fara aftur til Vancouver í kvöld vegna vinnu og þessháttar.
Við erum búin að ræða málin í þaula og það er komin niðurstaða í vangaveltur okkar.
Ég er einfaldlega of sjálfstæð til þess að fara að flytja eitthvað inn á mann sem ég þekki nánast ekki neitt. Ólétt eða ekki, ég þarf að kynnast honum svo miklu miklu betur en það. Ég ætla því að halda mínu striki og búa hér í Chicago... þar til að krílið fæðist og sjá svo bara til með framhaldið. Hann er mikið á þönum vegna vinnu sinnar og ætlar að vera með annan fótinn hér hjá mér. Hann fær auðvitað að gista og svoleiðis og hver veit nema við getum þróað eitthvað samband úr þessu öllu :)
Mér finnst þetta vera eina rétta ákvörðunin í stöðunni. Allavega núna. Ég finn að hormónarnir í mér eru alveg á fleygiferð og ég sveiflast fram og til baka í tilfinningaskalanum. Eina stundina langar mig til þess að hann detti niður á hnén og biðji mig að giftast sér og hina vill ég ekki sá þetta Canadíska greppitrýni nokkru sinni aftur !! Úff stutt öfga á milli eða hvað.
Hann er farinn in í borgina á fund en fer svo beint út á völl eftir það og flýgur heim til sín. Núna sit ég með tárin í augunum og huga að ég hefði átt að kveðja hann betur en ég gerði. Kannski átti ég að taka utan um hann og kyssa hann í staðinn fyrir að vinka og segja bara "bye bye" !? Ég ætlaði bara að vera Cool en hef örugglega virkað "frosin" á hann.
Það var að koma sendill frá DHL með bréf til mín frá spítalanum..... hmmmm skrítið. Ætli þeir hafi fundið út að ég gangi með tvíbura? Hahahahaha það skyldi þó aldrei vera.
Nenni ekki að opna það núna.... ég er ennþá pínu í öngum mínum varðandi Peter og sakna hans nú þegar..... Guð minn góður.... Hvað er eiginlega þetta með Hormóna og óléttu.... ég get ekki náð stjórn á þessum sveiflum....
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Flutningar?
30.1.2009 | 08:33
... en á sama tíma verð ég að segja þér Jacky Lynn, að ég og Marie skildum vegna þess að við gátum ekki eignast börn saman. Ég er neflinlega ófrjór !
Ég verð að segja það að kjálkinn á mér seig niður á bringu ef svo mætti að orði komast. Andlitið á mér varð eflaust alveg eldrautt og hjartað byrjaði að hamast í brjósti mér. Allt í einu var ég komin í alveg gríðarlega vörn gagnvart Peter, hvað í fjáranum var maðurinn að meina með þessu? Ófrjór... ég er bara alveg þokkaleg í líffræði og veit alveg að það er bara eitt skráð tilfelli af "Meyfæðingu" það er að segja, fæðing án líffræðilegs sæðisgjafa. Ég er nokkuð viss um að ég er ekki tilfelli númer tvö.
Peter sat bara og starði á hendurnar á mér. Hann var greinilega að brjóta heilann um þetta allt.
Hvað átti hann svosem að halda, við þekktumst ekki neitt, hittumst eina kvöldstund fyrir nokkrum mánuðum, njótum ásta, hittumst ekki fyrr en núna og þá skelli ég bara óléttufréttum á ófrjóan manninn!? Ekki nema von að hann verði hvumsa.
Hvað vissi hann svosem nema ég væri "Bæjadruslan" óaðfinnanlega klædd reyndar en gæti samt verið sú sem við tölum um í kaffitímum á vinnustöðum og gerum grín að fyrir augljósan drusluhátt... en öfundum pínu fyrir fjörugt næturlífið.
Ég gat auðvitað verið hver sem er og hann vissi ekkert um mitt líf að ráði.
Peter, sagði ég, ég verð bara að segja þér að ég kom úr sambandi fyrir löngu síðan. Ég hef ekki verið með neinum karlmanni kynferðislega eða á nokkurn annan hátt fyrir utan þig þessa kvöldstund í Október. Ég tók svo óléttu prufu á jóladag og mér til mikillar undrunar þá reyndist hún jákvæð. Ég lenti svo í árekstri og var flutt á spítala og það var sónaður á mér maginn og athugað hvort litla fóstrið hefði nokkuð beðið skaða af, en sem betur fer var svo ekki. Peter, ég er eins viss um það að þú ert faðirinn að þessu barni og hægt er að vera. Ófrjór eða ekki, þá er það bara eini möguleikinn. Ég skil vel ef þú vilt fara í DNA athugun og ég skal gera allt sem þarf að gera til þess að fá botn í þetta.
Ég er líka, Peter, ef þú vilt, tilbúin í að taka alla ábyrgð á þessu barni og sleppa þér lausum við allar skuldbindingar eins og ég sagði áðan!
Peter tók á sig rögg og sagði, veistu Jacky Lynn, mig bara svimar af þessu öllu. Auðvitað hefur maður lesið að það koma alveg upp tilfelli þar sem að menn hafi verið dæmdir ófrjóir en hafa svo átt barn þrátt fyrir það.
Hann stóð upp og strauk hendinni yfir hárið á mér ofur blíðlega. Jacky Lynn, ég trúi þér alveg. Mér finnst ég sjá það í augunum á þér að þér er alveg full alvara og þú bara berð svo góðan þokka með þér að ég neita að trúa að þú sért eitthvert "flagara" kvendi með illan ásetning. Hann skælbrosti til mín og fannst þessi lína sín alveg greinilega fyndin. Mér tókst að brosa líka en hjartað var enn að hamast.
Hvað er þá næst í stöðunni Jacky Lynn, hvar passa ég inn í þetta allt? spurði hann.
Ég þagði og horfði á gifsaðan fótinn á mér. Ég veit það ekki alveg Peter, ég var búin að loka á þetta líf mitt hér í Chicago og stefndi annað. Núna þarf ég að finna mér hentugan stað til að búa á og ala barnið. Ég er eiginlega ekki komin lengra en það. Ég gerði eiginlega ekki ráð fyrir þér í jöfnunni.
Hann hugsaði sig um og sagði svo, gætirðu hugsað þér að búa annarsstaðar en hér í Chicago? Til dæmis í Vancouver?
Ég fór ósjálfrátt að skellihlæja við tilhugsunina..... Yrði ég þá kannski bara "Frú Canada" !!
Jacky Lynn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Viltu verða Pabbi?
29.1.2009 | 09:08
Jacky Lynn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er ólétt Peter !
25.1.2009 | 13:33
Ég sat bara hálf frosin þegar Mr. Canada, Peter, spurði mig aftur " Er ekki allt í lagi Jacky Lynn?"
Ha jú jú, ég er bara að melta þetta sem þú ert að segja Mr. C... Peter. Ég er alveg upp með mér að þú skulir vera svona hrifinn af mér en satt best að segja þá hef ég ekkert sérstaklega leyft mér að finna fyrir mikilli hrifningu af karlmönnum undanfarið. Það sem við áttum fyrir nokkrum mánuðum síðan var bara tilviljunarkennt stefnumót tveggja sála sem þurftu á friðþægingu að halda. Ég hafði ekki nokkurn áhuga eða vilja til áframhaldandi sambands þess vegna strokaði ég út númerið þitt. Ég var á afar erfiðum tímamótum í lífi mínu Peter og það var bara ekkert pláss fyrir einn eða neinn á því augnabliki. Það kom hinsvegar alvarlegt babb í bátinn eins og sagt er, reyndar tvöfalt babb ef út í það er farið. Ég lenti í þessu bílslysi en það var svo annað sem kom uppá, annað sem er öllu meira mál en bílslysið sem ég á eftir að jafna mig á með tíð og tíma Peter.
Ég þagði og horfði niður á gipsaðan fótinn á mér.
Peter stóð upp, gekk að vínskápnum og hellt sér meira rauðvíni í glasið. Hann gekk út að glugganum og horfði út á vatnið.
Við sátum þarna drykklanga stund án þess að segja neitt en svo tók ég af skarið.
Peter, ég er ólétt!
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Erfiðar ákvarðanir ÚFF !
22.1.2009 | 19:49
Ég er búin að vera í miklum hugarrenningum í dag! Það er gríðarlega margt sem brotist hefur upp á yfirborðið hjá mér og tilfinningarnar voru á tímabili að bera mig ofurliði. Eftir mikla sálarrannsóknir, ákvað ég að skrifta og segja frá því sem hefur þjakað mig lengi. Mér er töluvert létt og vonast til að fá bót og betrun. Það á þó eftir að koma í ljós.
Ég hitti Mr. Canada í gær. Hann er ennþá sami sjarmörinn og hann var þegar við hittumst á síðasta ári. Eitthvað er hann þó þreytulegri karlanginn. Það kom reyndar í ljós afhverju, þegar við settumst niður inni í koníaksstofunni hér á gistihúsinu fallega og ræddum málin og sögðum hvað á okkar daga hafði drifið síðan síðast.
Ég byrjaði, og sagði honum frá því að ég hefði verið á þannig stað í mínu lífi að ég hefði ekki viljað nokkuð samband að heita gæti, þess vegna hefði ég lokað á símanúmerið hans og ekki hringt til baka. Hann kinkaði kolli og sagðist skilja afstöðu mína að hluta til amk.
Ég sagði honum svo frá árekstrinum þegar ég var á leiðinni til Xxxxx en auðvitað sagði ég honum ekki ástæðuna fyrir för minni. Bara að ég hafði verið á smá ferðalagi og ég held að hann hafi haldið að ég væri á leið til vina í jólaheimsókn.
Hann sagði mér örlítið frá sínu lífi:
Hann fór beint heim til Vancouver, eftir að hafa klárað verkefnið sitt hér í Chicago og sótti um skilnað frá konunni sinni !!!
Þegar þetta datt svona casual út úr honum, þá fraus ég hreinlega í sætinu mínu og gat varla mælt. Hvað meinarðu ? Ertu... varstu giftur þegar við vorum saman? Ég roðnaði af reiði og spáði alvarlega í það að skvetta úr jurta-te glasinu mínu framan í hann.
Hann brosti vandræðalega út í annað munnvikið og sagði, já Jacky Lynn, ég var giftur þegar við eyddum saman frábærri nótt.... en, áður en þú drepur mig með augunum (ég var meira að hugsa um morð með brotnu te-glasi), þá vorum við Marie, löngu skilin að borði og sæng, hún flutti frá mér fyrir næstum því fjórum árum síðan en við höfum bara aldrei haft fyrir því að skilja á pappírunum. Afhverju veit ég ekki alveg, en það var sko tímabært. Ég verð að segja þér elsku vina, að ég var og er alveg kolfallinn fyrir þér. Ég hef eiginlega ekkert sofið síðan þú hafði samband um daginn því ég er búinn að vera svo spenntur að hitta þig. Ég kom hingað að hitta þig og ætlaði að reyna að vera cool en það er bara ekki séns að ég geti það Jacky Lynn. Ég ætla að segja þér hér og nú, að þú hefur tekið öll völd í mínu hjarta og huga. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segjast elska þig, því ég trúi því að fólk verði að kynnast áður en ástin kemur inn í spilið, en guð minn góður Jacky Lynn, ég þrái að kynnast þér.... og verða svo ástfanginn !
Ég sat bara eins og einhver spýtukerling þarna í stólnum notalega og kom ekki upp orði. Ég hef ekkert hugsað um Mr. Canada á þennan hátt, enda hefur yfirlýst markmið mitt verið það að enda þessa tilvist hér á jörðinni. Ég hallaði mér afturábak í stólnum og lét veika fótinn upp á skemilinn. Hugsanirnar æddu um höfuðið og ég bókstaflega fann þær skella fram og tilbaka á höfuðbeinunum.
Jacky Lynn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)