Færsluflokkur: Bloggar
CUP
14.6.2009 | 20:00
Það er alveg að koma að fæðingu. Ég verð sett af stað mjög fljótlega gera læknarnir ráð fyrir. Því miður kemur það sennilega of seint fyrir mig en ég verð bara að sætta mig við það. Ég ER búin að sætta mig við þessi skrítnu örlög mín og ætla sko ekki að fara eyða tíma eða orku í væl og vosbúð. Nei aldeilis ekki.
Málið er að ég greindist með CUP en það er víst krabbamein sem er með óræðan upprunastað. Já hljómar skringilega en málið er að það er ekki hægt að staðsetja hvar krabbameinið byrjaði í líkama mínum. Það er ekki hægt að hefja lyfjagjöf meðan ég ber börnin undir belti svo ég fékk val. Láta eyða fóstrunum, fara í stífa lyfjameðferð sem óvíst væri að skilaði árangri, eða halda meðgöngunni áfram eins lengi og ég þyldi og þá væri sennilega orðið of seint að berjast við meinið!!
Hvort haldið þið nú að ég hafi valið !!?
Það er einkennileg fletta örlagana sem hafa komið mér í þessa aðstöðu. Búin að vera með sjálfsmorð á heilanum í all langan tíma, hætti við þegar ég komst að því að ég væri ófrísk og nú á ég sennilega ekki eftir að njóta þess að sjá litlu krílin mín vaxa úr grasi !?
Læknarnir segja að þetta geti tekið hratt af þar sem að líkami minn er veikburða fyrir eftir meðgönguna. Þeir segja mér þó að halda í vonina og ég megi alls ekki gefast upp fyrirfram.
Það ætla ég mér svo sannarlega ekki.
Ég sit hérna heima og strýk varlega yfir fallegu bumbuna mína. Bráðum koma litlu krílin mín í þennan blessaða heim okkar.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sölt tár
31.5.2009 | 17:57
Ég fór niður á spítala í gær í enn eina blóðprufuna og sónar. Litlu krílunum heilsast bara nokkuð vel miðað við aðstæður. Líðan mín er töluvert betri núna heldur en síðustu tvær vikur. Ég er búin að taka ákvörðun og er það ástæðan fyrir því að ég er róleg núna.
Hvað gerðist?
Það er von að þú spyrjir.
Ég skal reyna að svara þér.
Ég var farin að finna fyrir einkennilegri líðan. Mér var kalt og sama hvað ég gerði, þá náði ylurinn ekki inn í kroppinn.
Ég fór upp á spítala og talaði við læknana en þeir fundu ekkert að mér. Ég var hraust miðlungs-ung kona sem gengur með tvö lítil kríli innanborðs og þeim heilsast einnig vel? Það var semsagt ekkert að hrjá mig samkvæmt þeirra bókum. Ég fann samt ekki að mér liði neitt betur við þessar afgerandi niðurstöður þeirra lækna svo ég gróf upp lækninn sem skoðaði mig eftir bílslysið. Ég mundi að hann var eitthvað hissa á blóðprufunum mínum en gaf ekkert upp hvað var að,sennilega til að hræða ekki sjúklinginn ólétta og klambúleraða.
Hann gekkst í málið þegar ég kom til hans og sendi mig í blóðprufur á annan spítala sem er einkarekinn hérna í borginni og er víst með frábæra blóðrannsóknardeild. Ég fór þangað og var þar inni í rétt um 3 klukkutíma með matarhléi. Einkennilega langur tími fyrir blóðprufur en ég var svosem ekki að gera neitt annað.
Svo var ég bara send heim og sagt að það yrði haft samband við mig síðar í þeirri viku.
Það var gert og ég var boðuð á fund með lækninum góða.
Það voru einmitt þær fréttir sem ollu mér svo mikilli sorg.
Núna græt ég eiginlega of mikið til að skrifa þetta svo ég hætti í bili. Ég hlýt að verða nógu sterk til þess að ræða opinskátt um hvað er að gerast með mig.....
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sorg !
29.5.2009 | 06:34
Mikil og djúp sorg. Get ekki tjáð mig um það núna. Það er einfaldlega of sárt.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Aftur á spítala!
14.5.2009 | 09:18
Ég er komin á spítala!
Var lögð inn í gær vegna óþæginda sem breiddust út um magann og niður í fætur. Var í rannsóknum langt fram á kvöld og fæ væntanlega niðurstöður í dag.
Óþægindin hafa minkað aðeins en einhverra hluta vegna er mér svo kalt og líður órólega.
Peter kemur væntanlega í dag, hann hefur tafist í Vancouver vegna vinnunnar. Þarf svolítið á honum að halda núna.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Róleg....
11.5.2009 | 10:10
Það er sæmilega hlýtt úti en mér er kalt. Það er eitthvað í loftinu sem að lætur mér líða þannig. Ég hef hugsað mikið um lífið og tilveruna undanfarið og hef sökkt mér niður í miklar pælingar um hvaða líf ég er að fara að bjóða tveim litlum krílum upp á.
Það hræðir mig.
Er ég nógu góð móðir fyrir þessi litlu kríli?
Á ég eftir að geta verndað þau gegn vá heimsins?
Á ég eftir að geta umvafið þau kærleika og ást?
Á ég eftir að geta sýnt þeim hve mikið ég elska þau?
Ég hef aldrei lært að elska sjálf, ég hef aldrei fundið hvernig það er að foreldri mitt umvefur mig og hvíslar í eyra mitt að það elski mig. Hvernig á ég að geta gert það við börnin mín án þess að það hljómi falskt, hljómi eins og tekið úr lélegri bíómynd?
Ég finn einhvern kulda innan í mér. Ég hef það á tilfinningunni að ég þurfi að hækka á central hitaranum en veit samt að það er alveg nógu heitt hér inni.
Held bara að taugarnar séu að gera mér grikk. Blessaðir hormónarnir eitthvað að slást hver við annan og ég verð á milli.
Mér varð bullandi flökurt áðan en það leið hjá. Svolítið seint á meðgöngunni að vera með morgunógleði :)
Ég þrái ekkert heitara núna en samloku með skinku, gúrku og pítusósu frá gamla landinu!!! Hvað er málið?
Ég verð bara að vera róleg og slaka á. Mér finnst óþægilegt að Peter skuli hafa þurft að fara til Vancouver og ég er ein heima. Hann kemur heim fljótlega en ég sakna hans hræðilega. Ég fór að sakna hans um leið og leigubíllinn flautaði hér fyrir utan og fór með hann á flugvöllinn. Ég fór að sakna hans um leið og hann horfði í augun á mér og sagði "Oh, ég þarf að fara til Vancouver" !
Róleg.....
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þreytt en ánægð
6.5.2009 | 15:25
Ég er þreytt, svo ofsalega þreytt. Þessi meðganga, eins dásamleg og hún er búin að vera, er bara búin að draga alla orku úr mér. Ég get varla beðið eftir fæðingunni en kvíði henni jafnframt mikið. Ég fékk val um hvort ég vildi fara í Keisara eða fæða á náttúrulegan hátt. Auðvitað vil ég fæða á náttúrulegan hátt, það er ekki spurning meðan ég er líkamlega fær um það. Hitt lít ég á sem neyðar-aðgerð.
Það er allt orðið klárt hér heima fyrir komu krílanna. Herbergið þeirra er tilbúið og við Peter erum búin að kaupa allt sem þarf til að hugsa um tvö lítil kríli. Mikið hlakka ég til.
Það er sæmilega heitt hér í Chicago núna, það er von á þrumuveðri í kvöld og finnst mér það alltaf svo spennandi. Það er eitthvað við þrumur og eldingar sem mér finnst svo magnþrungið. Kannski var það skortur á þeim í gamla landinu sem hefur gert þær svo ómótstæðilegar fyrir mig.
Ég fékk bréf í póstkassann í morgun. Það var frá Mæðraskoðunardeildinni. Það er verið að stofna hóp af verðandi tvíburamæðrum og var mér boðið að taka þátt.
Ég er alltof einræn til þess að hafa áhuga.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lokakafli Ömmu
21.4.2009 | 19:14
Ég er orðin frekar óþolinmóð eftir að fæða litlu krílin mín. Bumban stendur svo langt út að ég er sífellt hrædd um að falla framyfir mig og steypast á hausinn. Peter er búinn að vera hér hjá mér alla síðustu viku og er það búið að vera dásamlegt að hafa hann. Ég er búin að ná töluverðum tökum á skapsveiflunum í mér og finn ekki þessa miklu reiði sem á það til að brjótast út í mér við fáránlegustu tækifæri. Ekki það að það hafi svosem bitnað á neinum, bara það að þetta skuli blossa svona upp fyrirvaralaust setur mig úr jafnvægi.
Ég ætlaði að fara í göngutúr í góða veðrinu í gær en þurfti svo oft að fara á wc að ég hélt að það væri eitthvað að blöðrunni í mér!? Ég bara lagði ekki í að fara í þessu ástandi út á meðal fólks. Það hefði sennilega orðið uppþot ef ég, kasólétt af tvíburum, hefði bara vippað niður um mig og skvett úr mér þar sem að ég stóð. Það er að segja, ef ég hefði ekki orðið afvelta! Ég er ekki viss um að Peter hefði náð mér á fætur aftur ef ég ylti nú um koll :)
Lokakaflinn í sögu Ömmu minnar
Amma og Pabbi litu hvort á annað og svo á lögreglumanninn sem stóð í uppsparkaðri hurðinni. Hvað gengur hér á, sagði hann og hikaði örlítið. Amma byrjaði að garga "Hjálp, hann ætlar að drepa mig líka, hann er morðingi"!! Hún lét sig falla með leikrænum tilburðum niður á hnén. Pabbi leit steinhissa á hana en renndi í grun hvað hún hafði sagt.
Lögreglumaðurinn hrópaði í átt til pabba og bað hann um að sleppa byssunni. Pabbi var þjálfaður hermaður og hikaði ekki eitt augnablik. Ég sé fyrir mér að hann hafi hugsað þetta á þann veg að þar sem að lögreglumaðurinn sá hann með morðvopnið í hendinni, myndi honum aldrei verða trúað þegar hann segði að Amma hefði myrt fólkið í svefnherberginu. Ekki síst vegna þess að þetta fólk hafði verið með mig, barnið hans, í sinni umsjá í óþökk foreldra minna. Ef eitthver var með ástæðu og kunnáttu til þess að drepa þetta fólk, var það pabbi. Hann, eins og ég sagði, hikaði ekki eitt augnablik heldur stökk niður stigann og að lögreglumanninum. Hann vissi að lögreglumenn í gamla landinu gengu aldrei um vopnaðir heldur höfðu bæði skammbyssu og einhleypta haglabyssu í farangurgeymslu lögreglubílanna.
Hann keyrði haglabyssuna undir hökuna á lögreglumanninum og spurði hann hvort hann talaði ensku? Já, ég tala hana ágætlega sagði lögreglumaðurinn en kom varla út úr sér orðunum fyrir stami. Pabbi lyfti haglabyssunni hærra upp og horfði fast í augun á lögreglumanninum. Ég ætla að segja þetta aðeins einu sinni og hlustaðu vel eftir. Lögreglumaðurinn reyndi að kyngja munnvatninu en gat það greinilega ekki því hann fór að hósta ákaft, ekki, bað hann pabba, ekki skjóta mig.. ég á konu og lítið barn. Hann sá það á augum pabba að honum var full alvara með því að beina skotvopninu að honum. Það lak þvag niður buxnaskálmar lögreglumannsins. Pabbi hugsaði örlítið málið og þrýsti haglabyssunni svo fastar undir höku lögreglumannsins. Hversu mikið metur þú líf þitt? Spurði hann lögreglumanninn, hversu mikið langar þig til að sjá litla barnið þitt aftur? Lögreglumaðurinn byrjaði að gráta hljóðlaust, sölt tárin láku niður kinnarnar á sveitalegu andlitinu. Ég, ég elska barnið mitt meira en allt annað í lífinu og það er mér ekkert eins mikilvægt og það. Ég myndi fórna öllu fyrir það, sagði hann og röddin brast hvað eftir annað.
Þú og bara þú stendur á milli mín og fangelsis fyrir lífstíð. Ég hef engu að tapa, alls engu. Skilur þú það? Ég myrti ekki þetta fólk þarna uppi á efri hæðinni, heldur gerði þessi kona það. Hann kinkaði í áttina til ömmu sem lá ennþá á hnjánum. Ég get tekið í gikkinn núna og slátrað þér og tekið hana svo af lífi með hinu skotinu. Ég kveiki svo í húsinu og verð kominn úr landi áður en réttarlæknar sjá að þið voruð myrt með haglabyssu en brunnuð ekki í hel. Skilurðu mig? Hvæsti hann á lafhræddan lögreglumanninn. Já, svaraði lögreglumaðurinn. Ég skil þig.
Ef að ég hinsvegar leifi þér að lifa og geng hér út, hvað ætlar þú að gera?
Lögreglumaðurinn horfði steinhissa á pabba, hvað ætla ég að gera?
Já, hvað ætlar þú að gera endurtók pabbi?
Lögreglumaðurinn skildi loks hvað vakti fyrir pabba, ég ætla ekkert að gera. Ég , ég segi að hér hafi bara gerst eitthvað óhapp og ég hafi verið of seinn á vettvang.
Gott, sagði pabbi, þú ert að ná þessu. Hann slakaði aðeins byssunni til að sýna lögreglumanninum að hann meinti það sem hann sagði og að hann gæti slakað aðeins á. Hann skipaði lögreglumanninum að setjast í stigann og sá hlýddi óðar. Hlandblautur settist hann í neðstu þrep stigans og nuddaði gagnaugun með fingurgómunum. Pabbi miðaði ennþá haglabyssunni á hann en horfði nú á ömmu. Ég ætla að ganga héðan út og fara með dóttur þína aftur til Ameríku. Ég ætti með réttu að drepa þig hér og nú fyrir það sem þú hefur gert dóttir þinni og dótturdóttir. Annan eins aumingjaskap hef ég aldrei séð áður. Þú ert rotin og ill persóna. Ég ætla ekki að stúta þér því ég er viss um að það er helmingi verra fyrir þig að rotna hægt innanfrá. Ég mun sjá til þess að við munum ná dóttir okkar úr klónum á þér fyrr eða síðar.
Hann fór lagði haglabyssuna frá sér við dyrastafinn og sagði við lögreglumanninn. Þú átt mér líf þitt að launa. Mundu það að ég var hársbreidd frá því að gera barnið þitt föðurlaust eins og þessi illa norn hefur gert barninu mínu. Ég drap ekki þessar manneskjur heldur gerði þessi kona það. Þú ræður hvernig þú spilar úr restinni.
Hann snérist á hæli og gekk hröðum skrefum út.
Amma og Lögreglumaðurinn sátu þegjandi og hreyfðu hvorki legg eða lið. Eftir heila eilífð að henni fannst, spurði Lögreglumaðurinn hana hvort hún væri ekki dóttir Xxxx ? Jú það er víst, sagði hún klökk, afhverju? Hún þurfti reyndar ekki svar, faðir hennar var afar valdamikill og hafði töluverð ítök í meðal annars lögreglunni. Þau þögðu áfram. Lögreglumaðurinn stóð upp, ræskti sig hátt og sagði, það er skelfilegt hvað rekur fólk til þess að myrða maka sinn og drepa sig svo á eftir. Amma horfði með furðusvip á hann. Já, þú meinar það? Þau unnu samhent í að laga sómasamlega til á efri hæðinni svo skelfilega morðið leit núna út fyrir að vera morð og sjálfsmorð.
Amma fór til höfuðborgarinnar daginn eftir. Hún snéri aldrei aftur í litla sjávarplássið.
Lögreglumaðurinn stóð við það sem hann lofaði pabba. Hann hætti í lögreglunni og fór að vinna við hnífabrýningar í frystihúsinu. Litla telpan hans varð að gjafvaxta ungri konu og átti alla tíð innilegt sambandi við föður sinn. Amma fylgdist náið með þeim úr fjarlægð. Hún vildi vera örugg um að leyndarmálið læki ekki út.
Eftir að hafa púslað þessu svo saman komst ég að því að Mamma hafði nálægt því misst vitið þegar pabbi kom aftur upp á hótelið og sagði henni hvað gerst hafði. Hún bar sitt barr ekki eftir þetta og eftir að þau komu út til Chicago, hrörnaði henni andlega þar til að lokum að hún svipti sig lífi. Fyrir einhverja duttlunga örlaganna endaði ég í sömu borg og hún bjó í síðustu ár ævi sinnar.
Það fór svo eins og pabbi hafði spáð. Amma rotnaði hægt og rólega innanfrá. Hún lét það aldrei uppi hvað hafði gerst þennan örlagaríka dag í sjávarplássinu. Þegar hún dó, skildi hún eftir bréf stílað á mig. Það var skrifað í miklum flýti og rakti söguna hér fyrir ofan. Hún bað mig og góðan guð að fyrirgefa sér þrjóskuna og særindin sem hún hafði ollið mér og mömmu í lífinu. Hún hafði alltaf ætlað að hafa samband við mig og segja mér hvernig á þessu öllu stæði en eins og með svo margt í lífinu, kom hún sér aldrei að því. Hún þorði ekki að standa fyrir framan mig og segja mér hversu illgjörn hún hafði verið gagnvart mömmu og mér. Hugleysi hennar hafði kostað sitt. Hún kvaddi þennan heim eins og hún hafði lifað lífinu. Bitur.
Ég sjálf er búin að gera upp hug minn gagnvart þessu öllu. Það var auðvitað gríðarlegt sjokk að fá bréfið og lesa flausturslega skrift ömmu minnar viðurkenna tvöfalt morð og allt sem á gekk. Ég var lengi að jafna mig og á sennilega ekki eftir að komast að fullu yfir það. Oft hugsa ég til þess þegar ég stóð í herbergi fólksins sem ól mig upp og sá blóðugar sletturnar á veggnum og koddann blóðuga bak við hurðina. Það myndast einhverskonar tenging við pabba minn að hugsa til þess að hann var þarna líka og sá sömu skelfilegu hlutina og ég. Auðvitað sá hann töluvert meira en ég, en þegar þessi tenging kemur upp í huga minn þá á einhvern skrítinn hátt líður mér vel.
Ég ætla ekki að lifa lífinu bitur yfir því sem er liðið. Það er ekkert sem ég get gert til þess að breyta fortíðinni. Ég er búin að ganga í gegnum gríðarlegt tóm í mínu lífi og var þetta tóm næstum búið að reka mig út í sjálfsmorð. Fyrir einskæra og svolítið sjálfselska tilviljun, hitti ég mann og varð ólétt eftir hann eftir stutt kynni. Það var svo á síðasta augnabliki fyrir planlagða brottför mína af þessari jörð, að þessi einkennilegu forlög tóku í taumana og ég komst að því að ég væri barnshafandi. Eftir bílslys og þá staðreynd að fjarlægur vinur kom alla leið hingað út til þess að vera mér til aðstoðar, sá ég að lífið er bara alveg þess virði að lifa því.
Núna er ég meira að segja að læra að elska Peter, barnsföður minn. Hann vinnur á hægt og bítandi. Það hlýtur að vera varið í mann sem að þolir konu með tvöfaldan skammt af óléttuhormónum og ævilangt sjálfstæði í farteskinu.
"Ég elska þig Peter" Kannski ég geti bara sagt það við hann í kvöld þegar hann leggst uppí við hliðina á mér og strýkur varlega yfir kúluna mína.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skelfingin
7.4.2009 | 23:52
Ég er búin að vera afskaplega slöpp undanfarið. Hef enga eirð í mér að setjast niður við tölvuna og skrifa niður hugrenningar mínar. Mér er farið að líða betur núna og er því að þakka að ég er byrjuð að taka járn. Það var víst alltof lágt hjá mér. Það hefur svosem ekki margt drifið á daga mín síðasta mánuðinn eða svo. Ég kjaga hérna um húsið með framsetta bumbuna og reyni að halda fallegt og hreint heimili. Peter er búinn að vera hér og laga barnaherbergin og mála þau. Við fórum og keyptum tvö barnarúm og tvíburakerru ásamt heilu fjalli af fötum. Ég bý ekki svo vel að þekkja mæður með ung börn svo ég hef keypt allt nýtt á litlu krílin sem koma bráðum í heiminn og ekki fengið neitt af notuðum fötum. Vinkona mín í Cleveland ætlar samt að kíkja í kringum sig og færa mér eitthvað ef hún getur. Það munar jú um allt ekki satt.
Ég er farin að sakna þess virkilega að geta ekki hreyft mig eins og ég er vön, það eru engir skokk eða hlaupatúrar lengur en ég reyni að ganga ef ég get. Það er búið að vera skelfiega kalt hér í Chicago í vetur og mikill snjór. Ég hef alltaf verið hrifin af snjó en í þetta sinn er ég ekki sátt við hann. Hef reyndar fengið algert ógeð á honum. Það er búið að hlýna aðeins og núna er hitinn rétt um 10°c en það er spáð rigningu yfir páskana. Úff ! Sjáið hvað líf mitt er spennandi um þessar mundir, ég er að skrifa um veðrið !
Þegar faðir minn kom inn í húsið þar sem að fólkið sem ól mig upp, bjó í.
Mætti honum skelfileg sjón.
Amma mín stóð efst í stigaþrepi hússins og hélt fast utan um tvíhleypta haglabyssu, það voru blóðslettur framan í henni og taumarnir láku niður á bringu hennar. Hún starði á pabba minn og röddin kjökraði þegar hún stundi upp.... "Þau kölluðu mig fyrir óþverra kanamellu"
Hún stóð grafkyrr þegar pabbi gekk varlega upp stigann og tók um hlaup haglabyssunar. Hann beyndi því niður og frá sér. Hann talaði rólega við hana í hughreystandi rómi, en hafði ekki hugmynd um hvort hún skildi ensku yfir höfuð. Hann náði að smokra haglabyssunni úr höndum hennar og opnaði svo byssuna til þess að athuga hvort báðum skotum hefði verið hleypt af. Það reyndist vera. Hann lét ömmu setjast varlega niður í efsta þrep stigans og gekk svo inn í herbergið þar sem að reykurinn úr tvíhleyptri haglabyssunni liðaðist enn út á lítinn þröngan ganginn. Á gólfinu lágu tvær manneskjur, fólkið sem hafði alið mig upp. Pabbi horfði í kringum sig í litla herberginu og leitaði eftir þriðja líkinu, mér.
Það var annað herbergi við hinumegin við ganginn og svo fyrir enda gangsins var klósett. Hann kíkti inn í bæði herbergin en fann ekkert athugavert þar. Honum létti aðeins og gekk fram til ömmu þar sem hún sat ennþá á stigaþrepinu og horfði í kjöltu sér. Hvar er dóttir mín, sagði hann varlega við ömmu, hvar er hún?
Amma yppti öxlum, ég veit það ekki. Ég ætlaði að ná í hana því ég vissi að þið væruð hér og mynduð reyna að ræna henni. Fólkið vildi ekki segja mér hvar hún er og fór að kalla mig öllum illum nöfnum. Hann kom svo með þessa ansans byssu og hótaði mér öllu illu ef ég kæmi mér ekki burt og léti þau í friði. Hann kallaði mig fyrir helvítis kanamelluna sem hafði drepið bróðir hans, ýtt honum út í sjálfsmorð. Hann hlóð byssuna fyrir framan mig og hrækti svo á mig. Hún talaði svo óðmála að pabbi átti í stökustu vandræðum með að skilja hana. Ég stóð hér fyrir utan í smá stund eftir að þau höfðu skellt hurðinni á eftir mér en ákvað svo að fara inn aftur og reyna að ræða málin við þau. Byssan stóð bara hér á stigapallinum og ég tók hana og fór inn í herbergið þar sem þau voru bæði að rífast. Ég, ég... hún horfði niður og gat ekki klárað setninguna.
Það var augljóst hvað hafði gerst. Hún þurfti ekkert að útskýra það neitt nánar fyrir pabba.
Hann var að spá í hvað til brags skyldi taka þegar það var bankað fast á útidyrahurðina. Þetta er Lögreglan, viljið þið gera svo vel að opna, Halló!!
Pabbi skildi ekki orðin en valdsmannleg röddin sagði honum að þetta hlyti að vera lögreglan.
Þau amma litu skelfingaraugum á hvort annað og svo áttaði pabbi sig á því að hann hélt á morðvopninu í hendinni.
Hurðinni var í sömu andrá sparkað upp af lögreglumanninum.
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áfallið
16.3.2009 | 08:38
Ég er búin að hafa það dásamlegt undanfarið. Eða eins dásamlegt og verðandi tvíburamamma getur haft það :)
Peter er búinn að vera hér í kringum mig eins og grár köttur og ég þarf varla að lyfta hendi þá er hann búnn að "þjónusta" mig. Ferlega gæti maður vanist þessu. Við förum reglulega í göngutúra og njótum þess að sitja svo á kaffihúsum og drekka kakó og borða muffins.
Ég hef komið vel út úr öllum skoðunum og lífið er bara bjart.
Peter spurði mig reyndar um daginn, hvað málið væri með brottflutning minn frá Chicago á sínum tíma. Ég þornaði öll í munninum og velti fyrir mér hvað ég ætti að segja honum mikið frá þessum sjálfsmorðs-áætlunum mínum. Hikið á mér varði aðeins of lengi svo hann dró í land og sagði, veistu, þú bara talar um þetta þegar þér finnst vera tími til vina. Ég hefði getað kysst hann (sem ég gerði reyndar). Ég bara veit ekki hvort það borgi sig nokkuð að draga þetta upp á yfirborðið.
Ég held áfram með sögu Ömmu.
Það gekk um allan bæ að Amma hefði legið undir einhverjum hermanninum á vellinum og hefði eignast móður mína í kjölfarið. Á þessum árum var afar ljótt að vera kennd við "Kanann" og var uppnefnið "Kanamella" oft notað um konur sem höfðu átt kærasta af öðru þjóðerni en var í gamla landinu. Fólk var fljótt að dæma og sakfella.
Allt þetta umtal barst að lokum til pabba Ömmu, manns sem var mikils metinn í þjóðfélagi þar sem að orðspor var auðveldlega ónýtt ef ekki var gætt ýtrustu varúðar. Hann mátti ekki við neinum "kjaftasögum" um einhvern Kanamellu-unga. Hann kallaði Ömmu á sinn fund og til þess að gera henni betur grein fyrir stöðunni, var hún boðuð á skrifstofuna hans frekar en heimili.
Hvað nákvæmlega gerðist inni á skrifstofunni er auðvitað ekki alveg vitað, en langafi minn gerði ömmu það kristaltært að ef hún ekki tæki sig saman í andlitinu og losaði sig við þennan króga, þennan Kanamellu króga, skyldi hún gera svo vel að hundskast eitthvað langt í burtu frá fjölskyldunni. Hún yrði gerð arf og eignalaus með öllu.
Amma virti föður sinn meira en allt í lífinu og þetta var gríðarlegt áfall fyrir hana. Hann hafði ekki einu sinni spurt hana hvort hún hefði "legið" undir Kana heldur bara gengið út frá því vísu. Það særði hana gríðarlega. Hún yfirgaf skrifstofu föður síns niðurbrotin á sálinni. Henni fannst hún ekki eiga þetta skilið enda hafði hún alltaf staðið fyrir sínu. Það leið langur tími þar til Amma hafði samband aftur við föður sinn.
Elskulegur "Afi" minn var ekki mönnum sinnandi vegna óreglu. Hann náði engri stjórn á drykkjunni og þrátt fyrir gríðarlegan stuðning Ömmu, kom allt fyrir ekki og þau skildu skiptum þegar mamma var orðin 6 ára. Amma lokaðist ennþá meira við þetta mótlæti en hélt sínu striki og kom ´ser upp hörðum skráp gagnvart lífinu. Hún og einkadóttirin áttu enga samleið og var það sagt manna á milli að Amma kenndi dóttur sinni um hvernig komið var fyrir henni.
Það var því reiðarslag þegar svo litla dóttirin var að verða gjafvaxta og náði sér í "Útlending", ekki nóg með það heldur bar hún barn hans undir belti. Það má segja að það hafi ýtt Ömmu fram af brúninni. Hún vissi vel hvað hún hafði gengið gegnum og hefur eflaust ekki viljað dóttir sinni sama hlutskipti. En í staðinn fyrir að styðja dóttir sína, gerði allt rangt sem hægt var að gera rangt í samskiptum þeirra. Að lokum fór svo eins og þið vitið, að hún útilokaði mömmu, lét senda mig í fóstur út á land og sat svo ein og yfirgefin á heimili sínu. Ef hún var bitur fyrir, þá bara jókst það við þessar hræðilegu aðferðir hennar. Hún hefur eflaust meint vel til að byrja með, en svo hafa spilin gersamlega snúinst í höndunum á henni. Ég trúi því ekki að hún hafi verið ill að eðlisfari, stundum vantar fólki bara þroska til að takast á við vandamálin í kringum sig og þá fara hlutirnir oft öðruvísi en til var ætlast.
Lá Amma undir Kana? Óvenjulegt orðalag að kalla þetta því nafni. Hún viðurkenndi það að minnsta kosti aldrei. Konan sem hefur aðstoðað mig við upplýsingaleit um Ömmu og hennar fjölskyldu, skoðaði einhverja upplýsingaveitu á internetinu og komst að því að í ætt langafa, var þeldökkur maður sem átti barn með langa langaömmu minni. Það var mjög dökkt á húð og hár. Samkvæmt því gæti vel verið að þessir litningar hefðu yfirfærst til móður minnar og þaðan til mín. Ég er jú ekki mjög "Norræn" í útliti.
Bréfið sem ég fékk svo frá konunni góðu, var einskonar játning á því að Amma hefði kannski séð að sér að lokum.
Þegar Mamma og Pabbi fóru í litla sjávarþorpið í örvæntingafullri tilraun til þess að nálgast mig, vissu þau ekki að Amma var á staðnum.....
Jacky Lynn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Amma og "Afi"?
8.3.2009 | 23:45
Ég hef það alveg ágætt þessa dagana. Fer í langa göngutúra hér um nágrenið og tek strætó niður í bæ og sit á kaffihúsinu góða og slaka á með rjóma-smoothies. Ég er alveg hætt að drekka kaffi og hreinlega hryllir við tilhugsuninni. Ég er hinsvegar komin með eitthvað æði gagnvart samlokum með gúrku, skinku og eplamauki !! Ekki spyrja hvernig mér datt þessi samsetning í hug en ég bara varð að fá þetta og það strax. Ég stóð við eldhúsborðið og hendurnar á mér hreinlega titruðu meðan ég var að búa þetta til og ég hlýt að hafa litið út eins og fíkniefnaneytandi að fá sér skammt dagsins.
Ég nýt þess að vera ólétt en finn samt fyrir mikilli þreytu, sérstaklega seinnipart dags. Ég er farin að leggja mig í sófann og setja Oprah eða Dr. Phil á sjónvarpið og sofna svo út frá malinu í þeim. Þrátt fyrir klukkutíma lúr þá er ég komin inn í rúm rétt um 9:30pm og steinsofna með það sama.
Peter kemur hingað fljótlega og ætlar hann að reyna að vera í tvær vikur hér í Chicago. Það verður notalegt að hafa hann hér. Ég er svosem vön því að vera ein en það er eitthvað við nærveru hans sem fyllir mig öryggi. Svo er það þessi dásamlega feremón hlaðin lykt af manninum! Ég stal af honum peysu og sef með hana á næturnar.
Áfram með hana Ömmu.....
Amma og "Afi" áttu ekki fyrir höndum að eiga farsælt og fallegt hjónaband. Þvert á móti.
Móðir mín var ekki fyrr komin í heiminn þegar fór að berast út sá kvittur í bæjarfélaginu að "Afi" minn hefði verið "keyptur" inn í þetta hjónaband. Barnið litla var afar dökkt yfirlitum með brún augu og alveg kolsvart hár. Bæði Amma og "Afi" voru ljóshærð og reyndar líka fyrrum kærastinn sem var látinn.
Fljótlega fóru sögurnar að bera keim að því að Amma hefði "legið undir" Kana og barnið sem hún bar undir belti var kallað "Ástands-barnið" og gott ef einhverjir voru ekki farnir að kalla Ömmu fyrir "Kanamelluna" á bak við tjöldin.
"Afi" fór eins og svo margir sem lenda í mótlæti, ímynduðu eða ekki, að drekka. Hann var aldrei sáttur við það að Amma skyldi eignast barn með "Útlendingsræfil" eins og hann orðaði það við nánast hvern sem var þegar hann var á túrafylleríi. Samt virðist Amma aldrei hafa sagt neinum með hverjum hún átti mömmu mína, en þar sem að hún var svo "Ítölsk" á brún og brá, kom engum til hugar annað en að hún hefði legið undir útlendingi.
Horfandi á manninn sinn vaða lengra og lengra niður í svaðið, gerði Amma allt sem hún gat til þess að halda andliti meðal fólks. Hún var af efnuðum ættum og það varð að halda í fjölskyldugildin hvað sem það kostaði. Stöðugt pískrið gerði Ömmu að bitri konu, bitri gagnvart fólkinu sem stóð henni næst en gerði ekkert til þess að verja hana. Smám saman virðist hún hafa lokað fyrir tilfinningar sínar og fór að draga úr samneyti við fólk.
Svo kom áfallið.
Jacky Lynn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)