Skelfingin
7.4.2009 | 23:52
Ég er búin að vera afskaplega slöpp undanfarið. Hef enga eirð í mér að setjast niður við tölvuna og skrifa niður hugrenningar mínar. Mér er farið að líða betur núna og er því að þakka að ég er byrjuð að taka járn. Það var víst alltof lágt hjá mér. Það hefur svosem ekki margt drifið á daga mín síðasta mánuðinn eða svo. Ég kjaga hérna um húsið með framsetta bumbuna og reyni að halda fallegt og hreint heimili. Peter er búinn að vera hér og laga barnaherbergin og mála þau. Við fórum og keyptum tvö barnarúm og tvíburakerru ásamt heilu fjalli af fötum. Ég bý ekki svo vel að þekkja mæður með ung börn svo ég hef keypt allt nýtt á litlu krílin sem koma bráðum í heiminn og ekki fengið neitt af notuðum fötum. Vinkona mín í Cleveland ætlar samt að kíkja í kringum sig og færa mér eitthvað ef hún getur. Það munar jú um allt ekki satt.
Ég er farin að sakna þess virkilega að geta ekki hreyft mig eins og ég er vön, það eru engir skokk eða hlaupatúrar lengur en ég reyni að ganga ef ég get. Það er búið að vera skelfiega kalt hér í Chicago í vetur og mikill snjór. Ég hef alltaf verið hrifin af snjó en í þetta sinn er ég ekki sátt við hann. Hef reyndar fengið algert ógeð á honum. Það er búið að hlýna aðeins og núna er hitinn rétt um 10°c en það er spáð rigningu yfir páskana. Úff ! Sjáið hvað líf mitt er spennandi um þessar mundir, ég er að skrifa um veðrið !
Þegar faðir minn kom inn í húsið þar sem að fólkið sem ól mig upp, bjó í.
Mætti honum skelfileg sjón.
Amma mín stóð efst í stigaþrepi hússins og hélt fast utan um tvíhleypta haglabyssu, það voru blóðslettur framan í henni og taumarnir láku niður á bringu hennar. Hún starði á pabba minn og röddin kjökraði þegar hún stundi upp.... "Þau kölluðu mig fyrir óþverra kanamellu"
Hún stóð grafkyrr þegar pabbi gekk varlega upp stigann og tók um hlaup haglabyssunar. Hann beyndi því niður og frá sér. Hann talaði rólega við hana í hughreystandi rómi, en hafði ekki hugmynd um hvort hún skildi ensku yfir höfuð. Hann náði að smokra haglabyssunni úr höndum hennar og opnaði svo byssuna til þess að athuga hvort báðum skotum hefði verið hleypt af. Það reyndist vera. Hann lét ömmu setjast varlega niður í efsta þrep stigans og gekk svo inn í herbergið þar sem að reykurinn úr tvíhleyptri haglabyssunni liðaðist enn út á lítinn þröngan ganginn. Á gólfinu lágu tvær manneskjur, fólkið sem hafði alið mig upp. Pabbi horfði í kringum sig í litla herberginu og leitaði eftir þriðja líkinu, mér.
Það var annað herbergi við hinumegin við ganginn og svo fyrir enda gangsins var klósett. Hann kíkti inn í bæði herbergin en fann ekkert athugavert þar. Honum létti aðeins og gekk fram til ömmu þar sem hún sat ennþá á stigaþrepinu og horfði í kjöltu sér. Hvar er dóttir mín, sagði hann varlega við ömmu, hvar er hún?
Amma yppti öxlum, ég veit það ekki. Ég ætlaði að ná í hana því ég vissi að þið væruð hér og mynduð reyna að ræna henni. Fólkið vildi ekki segja mér hvar hún er og fór að kalla mig öllum illum nöfnum. Hann kom svo með þessa ansans byssu og hótaði mér öllu illu ef ég kæmi mér ekki burt og léti þau í friði. Hann kallaði mig fyrir helvítis kanamelluna sem hafði drepið bróðir hans, ýtt honum út í sjálfsmorð. Hann hlóð byssuna fyrir framan mig og hrækti svo á mig. Hún talaði svo óðmála að pabbi átti í stökustu vandræðum með að skilja hana. Ég stóð hér fyrir utan í smá stund eftir að þau höfðu skellt hurðinni á eftir mér en ákvað svo að fara inn aftur og reyna að ræða málin við þau. Byssan stóð bara hér á stigapallinum og ég tók hana og fór inn í herbergið þar sem þau voru bæði að rífast. Ég, ég... hún horfði niður og gat ekki klárað setninguna.
Það var augljóst hvað hafði gerst. Hún þurfti ekkert að útskýra það neitt nánar fyrir pabba.
Hann var að spá í hvað til brags skyldi taka þegar það var bankað fast á útidyrahurðina. Þetta er Lögreglan, viljið þið gera svo vel að opna, Halló!!
Pabbi skildi ekki orðin en valdsmannleg röddin sagði honum að þetta hlyti að vera lögreglan.
Þau amma litu skelfingaraugum á hvort annað og svo áttaði pabbi sig á því að hann hélt á morðvopninu í hendinni.
Hurðinni var í sömu andrá sparkað upp af lögreglumanninum.
Jacky Lynn
Athugasemdir
Vá þetta er ótrúleg saga,ekki láta okkur bíða svona lengi næst.takk
Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 9.4.2009 kl. 00:23
Langadi ad skilja eftir spor eftir góda sögu.
Kvedja
Gudrún Hauksdótttir, 16.4.2009 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.