Áfallið
16.3.2009 | 08:38
Ég er búin að hafa það dásamlegt undanfarið. Eða eins dásamlegt og verðandi tvíburamamma getur haft það :)
Peter er búinn að vera hér í kringum mig eins og grár köttur og ég þarf varla að lyfta hendi þá er hann búnn að "þjónusta" mig. Ferlega gæti maður vanist þessu. Við förum reglulega í göngutúra og njótum þess að sitja svo á kaffihúsum og drekka kakó og borða muffins.
Ég hef komið vel út úr öllum skoðunum og lífið er bara bjart.
Peter spurði mig reyndar um daginn, hvað málið væri með brottflutning minn frá Chicago á sínum tíma. Ég þornaði öll í munninum og velti fyrir mér hvað ég ætti að segja honum mikið frá þessum sjálfsmorðs-áætlunum mínum. Hikið á mér varði aðeins of lengi svo hann dró í land og sagði, veistu, þú bara talar um þetta þegar þér finnst vera tími til vina. Ég hefði getað kysst hann (sem ég gerði reyndar). Ég bara veit ekki hvort það borgi sig nokkuð að draga þetta upp á yfirborðið.
Ég held áfram með sögu Ömmu.
Það gekk um allan bæ að Amma hefði legið undir einhverjum hermanninum á vellinum og hefði eignast móður mína í kjölfarið. Á þessum árum var afar ljótt að vera kennd við "Kanann" og var uppnefnið "Kanamella" oft notað um konur sem höfðu átt kærasta af öðru þjóðerni en var í gamla landinu. Fólk var fljótt að dæma og sakfella.
Allt þetta umtal barst að lokum til pabba Ömmu, manns sem var mikils metinn í þjóðfélagi þar sem að orðspor var auðveldlega ónýtt ef ekki var gætt ýtrustu varúðar. Hann mátti ekki við neinum "kjaftasögum" um einhvern Kanamellu-unga. Hann kallaði Ömmu á sinn fund og til þess að gera henni betur grein fyrir stöðunni, var hún boðuð á skrifstofuna hans frekar en heimili.
Hvað nákvæmlega gerðist inni á skrifstofunni er auðvitað ekki alveg vitað, en langafi minn gerði ömmu það kristaltært að ef hún ekki tæki sig saman í andlitinu og losaði sig við þennan króga, þennan Kanamellu króga, skyldi hún gera svo vel að hundskast eitthvað langt í burtu frá fjölskyldunni. Hún yrði gerð arf og eignalaus með öllu.
Amma virti föður sinn meira en allt í lífinu og þetta var gríðarlegt áfall fyrir hana. Hann hafði ekki einu sinni spurt hana hvort hún hefði "legið" undir Kana heldur bara gengið út frá því vísu. Það særði hana gríðarlega. Hún yfirgaf skrifstofu föður síns niðurbrotin á sálinni. Henni fannst hún ekki eiga þetta skilið enda hafði hún alltaf staðið fyrir sínu. Það leið langur tími þar til Amma hafði samband aftur við föður sinn.
Elskulegur "Afi" minn var ekki mönnum sinnandi vegna óreglu. Hann náði engri stjórn á drykkjunni og þrátt fyrir gríðarlegan stuðning Ömmu, kom allt fyrir ekki og þau skildu skiptum þegar mamma var orðin 6 ára. Amma lokaðist ennþá meira við þetta mótlæti en hélt sínu striki og kom ´ser upp hörðum skráp gagnvart lífinu. Hún og einkadóttirin áttu enga samleið og var það sagt manna á milli að Amma kenndi dóttur sinni um hvernig komið var fyrir henni.
Það var því reiðarslag þegar svo litla dóttirin var að verða gjafvaxta og náði sér í "Útlending", ekki nóg með það heldur bar hún barn hans undir belti. Það má segja að það hafi ýtt Ömmu fram af brúninni. Hún vissi vel hvað hún hafði gengið gegnum og hefur eflaust ekki viljað dóttir sinni sama hlutskipti. En í staðinn fyrir að styðja dóttir sína, gerði allt rangt sem hægt var að gera rangt í samskiptum þeirra. Að lokum fór svo eins og þið vitið, að hún útilokaði mömmu, lét senda mig í fóstur út á land og sat svo ein og yfirgefin á heimili sínu. Ef hún var bitur fyrir, þá bara jókst það við þessar hræðilegu aðferðir hennar. Hún hefur eflaust meint vel til að byrja með, en svo hafa spilin gersamlega snúinst í höndunum á henni. Ég trúi því ekki að hún hafi verið ill að eðlisfari, stundum vantar fólki bara þroska til að takast á við vandamálin í kringum sig og þá fara hlutirnir oft öðruvísi en til var ætlast.
Lá Amma undir Kana? Óvenjulegt orðalag að kalla þetta því nafni. Hún viðurkenndi það að minnsta kosti aldrei. Konan sem hefur aðstoðað mig við upplýsingaleit um Ömmu og hennar fjölskyldu, skoðaði einhverja upplýsingaveitu á internetinu og komst að því að í ætt langafa, var þeldökkur maður sem átti barn með langa langaömmu minni. Það var mjög dökkt á húð og hár. Samkvæmt því gæti vel verið að þessir litningar hefðu yfirfærst til móður minnar og þaðan til mín. Ég er jú ekki mjög "Norræn" í útliti.
Bréfið sem ég fékk svo frá konunni góðu, var einskonar játning á því að Amma hefði kannski séð að sér að lokum.
Þegar Mamma og Pabbi fóru í litla sjávarþorpið í örvæntingafullri tilraun til þess að nálgast mig, vissu þau ekki að Amma var á staðnum.....
Jacky Lynn
Athugasemdir
Spennan magnast
Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 16.3.2009 kl. 18:28
Sæl.
Ég hef fylgst með blogginu þínu í töluverðan tíma en aldrei skrifað neitt.
Innilega til hamingju með krílin væntanlegu og tilveruna yfir höfuð.
Vonandi er nú loksins kominn vendipunktur í fjölskyldusögunni þinni. Þú og þín fjölskylda verða greinilega fyrsta hamingjusama fjölskyldan í langan tíma og það er yndislegt. Nú lokast þessi óhamingjuhringur og það er vel.
Gangi ykkur sem allra allra best og njóttu skinkusamlokanna og meðgöngunnar sem mest og best.
Kveðja,
Áslaug Traustadóttir
Áslaug Traustadóttir (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 10:51
Langadi bara ad kvitta fyrir lesturinn
takk takk.
Gudrún Hauksdótttir, 23.3.2009 kl. 14:04
Spennandi lestur, eins og venjulega
Heiður Helgadóttir, 8.4.2009 kl. 10:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.