Erfiðar ákvarðanir ÚFF !

Ég er búin að vera í miklum hugarrenningum í dag! Það er gríðarlega margt sem brotist hefur upp á yfirborðið hjá mér og tilfinningarnar voru á tímabili að bera mig ofurliði. Eftir mikla sálarrannsóknir, ákvað ég að skrifta og segja frá því sem hefur þjakað mig lengi. Mér er töluvert létt og vonast til að fá bót og betrun. Það á þó eftir að koma í ljós.

Ég hitti Mr. Canada í gær. Hann er ennþá sami sjarmörinn og hann var þegar við hittumst á síðasta ári. Eitthvað er hann þó þreytulegri karlanginn. Það kom reyndar í ljós afhverju, þegar við settumst niður inni í koníaksstofunni hér á gistihúsinu fallega og ræddum málin og sögðum hvað á okkar daga hafði drifið síðan síðast.

Ég byrjaði, og sagði honum frá því að ég hefði verið á þannig stað í mínu lífi að ég hefði ekki viljað nokkuð samband að heita gæti, þess vegna hefði ég lokað á símanúmerið hans og ekki hringt til baka. Hann kinkaði kolli og sagðist skilja afstöðu mína að hluta til amk.

Ég sagði honum svo frá árekstrinum þegar ég var á leiðinni til Xxxxx en auðvitað sagði ég honum ekki ástæðuna fyrir för minni. Bara að ég hafði verið á smá ferðalagi og ég held að hann hafi haldið að ég væri á leið til vina í jólaheimsókn.

Hann sagði mér örlítið frá sínu lífi:

Hann fór beint heim til Vancouver, eftir að hafa klárað verkefnið sitt hér í Chicago og sótti um skilnað frá konunni sinni !!!

Þegar þetta datt svona „casual“ út úr honum, þá fraus ég hreinlega í sætinu mínu og gat varla mælt. Hvað meinarðu ? Ertu... varstu giftur þegar við vorum saman? Ég roðnaði af reiði og spáði alvarlega í það  að skvetta úr jurta-te glasinu mínu framan í hann.

Hann brosti vandræðalega út í annað munnvikið og sagði, já Jacky Lynn, ég var giftur þegar við eyddum saman frábærri nótt.... en, áður en þú drepur mig með augunum (ég var meira að hugsa um morð með brotnu te-glasi), þá vorum við Marie, löngu skilin að borði og sæng, hún flutti frá mér fyrir næstum því fjórum árum síðan en við höfum bara aldrei haft fyrir því að skilja á pappírunum. Afhverju veit ég ekki alveg, en það var sko tímabært. Ég verð að segja þér elsku vina, að ég var og er alveg kolfallinn fyrir þér. Ég hef eiginlega ekkert sofið síðan þú hafði samband um daginn því ég er búinn að vera svo spenntur að hitta þig. Ég kom hingað að hitta þig og ætlaði að reyna að vera „cool“ en það er bara ekki  séns að ég geti það Jacky Lynn. Ég ætla að segja þér hér og nú, að þú hefur tekið öll völd í mínu hjarta og huga. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segjast elska þig, því ég trúi því að fólk verði að kynnast áður en ástin kemur inn í spilið, en guð minn góður Jacky Lynn, ég þrái að kynnast þér.... og verða svo ástfanginn !

Ég sat bara eins og einhver spýtukerling þarna í stólnum notalega og kom ekki upp orði. Ég hef ekkert hugsað um Mr. Canada á þennan hátt, enda hefur yfirlýst markmið mitt verið það að enda þessa tilvist hér á jörðinni. Ég hallaði mér afturábak í stólnum og lét veika fótinn upp á skemilinn. Hugsanirnar æddu um höfuðið og ég bókstaflega fann þær skella fram og tilbaka á höfuðbeinunum.

Jacky Lynn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Ég fylgji tér í hugarrenningum tínum kæra Jacky LYnn

Kvedja frá Jyderup

Gudrún Hauksdótttir, 22.1.2009 kl. 20:09

2 identicon

Áfram Jacky!

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 20:14

3 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Húrra fyrir ykkur,þið eigið örugglega eftir að enda saman fram á elliár með barnaskarann ykkarkærleiksknús kæra vina

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 22.1.2009 kl. 22:53

4 Smámynd: Halla Vilbergsdóttir

Æi guð þetta er magnað..nelgdu kauða ;) hehe

Halla Vilbergsdóttir, 23.1.2009 kl. 12:20

5 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Þetta verður betra og betra, hvenær verður brúðkaupið.

Heiður Helgadóttir, 29.1.2009 kl. 07:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband