Ég er slösuð en lifandi!

Kæru bloggvinir og þið sem þetta lesið: 

Á leið minni til „endastöðvarinnar“ tóku aldeilis örlögin í taumana.

Ég var að keyra á Freeway og gekk afar hægt vegna mikillar snjókomu og vinds. Ég var oft komin á þá skoðun að best væri að leggja bílnum við eitthvert Model við veginn og gista bara þar fram á vorið. Ég er alls óvön að keyra í snjó og það hræddi mig mikið hvað það voru margir bílar sem komu á mikilli ferð og tóku framúr mér og hinum sem fóru varlega.

Ég stoppaði við eina vegabúðina og fór á salernið með „prufuna“ mína.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að ég kláraði allar þrjár prufurnar áður en mér féllust alveg hendur og sat hágrátandi inni á salerninu. Þær sýndu allar blá línu sem merki um óléttu ! Ég bara sat þarna inni, titraði,skalf og grét þess á milli. Ég er búin að vera ólétt í rúmlega tvo mánuði án þess að vita það sjálf !! Hvernig er það eiginlega hægt!? Finna konur virkilega ekki fyrir einkennunum skýrar en þetta? Ég er búin að vera slöpp, flökurt á morgnanna og með netta magaverki, en samt ekkert svo afgerandi að mér dytti ólétta í hug. Ég rifjaði upp í huganum, allar konurnar sem hafa fætt börnin sín í klósettið!! Þessar sem maður les um í National Enquirer og svoleiðis sneplum. Mér leið eins og einni af þeim. Ekki góð tilfinning.

Eftir að hafa grátið nægju mína, sá ég að auðvitað og fann, að allar sjálfsmorðshugmyndir voru fyrir bý! Núna var líf mitt komið í eina allsherjar kollsteypu og ég varð bara að vinna úr því í ró og næði.

Ég ákvað þarna inni á salerninu, að snúa aftur til Chicago og koma mér fyrir á gistihúsinu meðan ég hugsaði málið og jafnaði mig aðeins. Einnig var ofarlega í huga mér að ná sambandi við Herra Dásamlegan eða Mr. Canada eins og ég kallaði hann alltaf í huganum. Það gæti orðið þrautin þyngri vegna þess að ég var búin að deleta út símanúmerinu hans. Ég verð allavega að reyna, mér finnst hver maður eiga rétt á því að vita af því ef hann á barn, ekki satt?

Ég var semsagt búin að snúa við og var á leið aftur til Chicago þegar slysið varð.

Það var ennþá þessi skelfilegi hríðarbylur og lítið lát þar á. Það gerðist svo að einn af þessum „óðu“ bílstjórum sem sífellt voru að taka framúr á alltof mikilli ferð, keyrði aftan á mig og kastaði bílnum sem ég var á á bílinn sem var á undan mér.

Ég man ekki eftir mér fyrr en ég lá hér inni á spítalanum og það var verið að tengja mig við einhversskona mælitæki sem átti að greina hjartslátt í litla fóstrinu. Læknirinn sagðist hafa sett mig í sónar meðan ég var meðvitundarlaus og ástæðan var sú að sjúkraflutningamennirnir höfðu séð pakkningarnar utan um óléttuprufuna á gólfinu á bílnum.

Hann staðfesti við mig að fóstrið væri um það bil  2-3 mánaða og það virtist ekki hafa orðið fyrir hnjaski í árekstrinum. Það var búið að setja á mig dömubindi og nú ætti að fylgjast með því hvort það kæmi eitthvað blóð niður.

Ég var svo svæfð því að það þurfti að gera aðgerð á fætinum á mér sem að brotnaði illa, eins er ég ofboðslega marin um alla bringuna eftir öryggisbeltið og hálsinn er ennþá hafður í kraga vegna þess að ég fékk „Whiplash“. Ég er dofin fram í fingurgómana á vinstri hendi og segir læknirinn góði að það sé vegna klemmdra tauga í hálsinum.

Núna ligg ég hér í sjúkrarúmi með annan fótinn hengdan upp í loft og horfi á vin minn dotta í stól við hliðina á rúminu mínu. Ég er fegin því að fartölvan mín slapp ósködduð úr slysinu, annað en ég.

Ég er byrjuð að gráta hljóðlega þegar ég horfi á þennan dásamlega mann. Það var hringt í hann af hjúkrunarfólkinu hér vegna þess að hans númer var eina númerið í símanum mínum.

Hann og konan hans ákváðu í sameiningu að það væri ekki spurning að hann kæmi hingað alla leið til Ameríku til þess að bjóða fram aðstoð sína. (það leka tárin hjá mér núna). Þrátt fyrir jólaboð, gamlárskvöld og allt, þá kom hann. Hversu góðar geta manneskjur verið, ég bara spyr?

Hann kom svo hér í gær og ég vaknaði við að hann stóð við rúmið mitt. Ég þekkti hann samstundis, hlýjan sem fylgdi brosinu hans var alveg í takt við það sem hann hefur skrifað mér á blogginu og svo í þessum örfáu símtölum sem við höfum átt. Kæra Xxxxxxxx þú átt alveg yndislegan eiginmann, takk fyrir að sjá af honum alla þessa leið. Þið munuð eiga mína vináttu vísa það sem eftir er.

Hvað tekur nú við?

Ég þarf greinilega að endurhugsa líf mitt og tilveru. Nú er komið lítið kríli sem, ef allt gengur að óskum, á eftir að dafna vel og þarfnast ást minnar og umhyggju. Það má guð vita að ég hef nóg af slíku.

Ég  þarf einnig að gera ráðstafanir með allt annað. Allir mínir peningar áttu að fara í góðgerðamál að mér genginni. Kannski er hægt að stoppa það eitthvað af, best að reyna að ná sambandi við lögfræðinginn minn í dag. Annars hef ég minnstar áhyggjurnar af peningum þessa stundina. Ég er meira að berjast við tilfinninguna um það að hafa „brugðist“ sjálfri mér með því að hafa ekki „endað“ þetta allt eins og ég stefndi að. Eins ótrúlegt og það kann að virðast, þá fékk ég skilaboð frá einni bloggvinkonunni þar sem að hún lýsir yfir furðu sinni á því að ég skuli vera lifandi ennþá? Ég varð svolítið hissa því það skein í gegn hjá aumingja manneskjunni að hún og hennar líf hefði beðið hnekki á því að ég skyldi ekki hafa staðið við mitt??

Ég bið bara góðan guð að geyma þessa konu.

Ég er sátt og það skiptir eiginlega öllu máli ekki satt?

Nú sé ég loks ljósið við enda ganganna í formi lítils sólargeisla sem vex innra með mér.

Jacky Lynn

Jólin mín urðu svo raunverulega að Jólakraftaverki

Í dag er 1. Dagurinn af restinni af lífi mínu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Jacky Linn Tad er med ólíkyndum hvad tú hefur verid heppin í óheppninni.Tú ert heppin ad hafa HR.stadgengil tér vid hlid og í rauninni hans fjölskyldu alla.Tú átt mig líka tó í huganum sé og örugglega fleirri af tínum bloggvinum.

Ég reyni ad sjá tig fyrir mér á sjúkrahúsinu med  vininn tér vid hlid og hvad tad hefur verid mikill styrkur ad vakna upp og sjá hanns andlit.

Tú tarft endilega ad finna MR.Dásamlegann sem verdur kannski demanturinn í lífi tínu ásamt barni tínu.Hver veit.Eda kannski bara vinur.

Sendi ykkur bloggvinum mínum sem eru tarna á sjúkrahúsi einhversstadar í Usa og ég er med hugann hjá baráttu kvedjur um gódann bata.

Óska ykkur gledilegs árs og fridar.

Hjartanskvedja frá Jyderup

Gudrún

Gudrún Hauksdótttir, 31.12.2008 kl. 05:58

2 Smámynd: Ólöf Karlsdóttir

Kæra Jakcky Lynn ég er ánægð að þú sért á lífi Gangi þér vel kæra bloggvinnkonaGleðilegt ár til þín Óla og vala

Ólöf Karlsdóttir, 31.12.2008 kl. 14:27

3 identicon

I love happy endings!

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 23:07

4 Smámynd: Halla Vilbergsdóttir

Hæ mús...þú áttir ekki að kveðja þennan  heim....;) og mikið til lukku því nú ætlar lífið að brosa við þér.þetta líf fer með mann í marga hringi og oft verður maður maður vitlaus en mikið er ég þakklát fyrir að eiga mína krakka þá langar mig´að lifa á morgunn....en til lukku og láttu þér batna,hlakka til að hitta ykkur kríla heheh en annars þá knúsaðu snillinginn frá mér ( staðgengilinn) og hafið það magnað...knús frá mér....;)

Halla Vilbergsdóttir, 1.1.2009 kl. 03:35

5 Smámynd: Sigríður  Ágústa Þórólfsdóttir

Elsku hjartans Jacky Lynn,sagan þín hefur svo sannarlega höfðað sterkt til mín,mér finnst hún algjört kraftaverkmér er sama þó fólk segi að þetta sé skáldsaga,ef svo er þá ert þú metsöluhöfundur elsku vinaég ætla að senda þér póst en skilaðu kærri kveðju til vinar okkar sem hefur verið alveg einstakur og hans fjölskylda,að fórna jólum og áramótum með þér og til að upplýsa okkur líka Guð gefi ykkur gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir bloggvináttu þína,ég myndi gjarnan vilja vera bloggvinur staðgengilsins

Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 1.1.2009 kl. 04:57

6 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Kæra Jacky Lynn, Gleðilegt 'Ar og til hamingju með lífið. Ég hef setið yfir blogginu þínu frá byrjun og þú ert frábær penni og segir skemmtilega frá merkilegri sögu. Fannst ég vera að lesa frábæra bók eða horfa á kvikmynd.

Þann 6.10.2008 skrifar þú:

Ég elska jólin. Það var aldrei gert mikið úr jólahátíðinni þegar ég var barn svo ég sór það þegar ég var 15 ára, að þegar ég eignaðist börn skyldi sko verða haldið almennilega upp á jólin á mínu heimili.

Næstu jól getur þú uppfyllt þessa ósk þína. Þér hefur verið gefin ærin tilgangur í lífinu. Óska þér góðs bata og gæfu á komandi ári.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 1.1.2009 kl. 17:47

7 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Þakka fyrir vel skrifaða sögu eða ævisögu, skiptir ekki máli, þú ert frábær penni, og átt að halda áfram að skrifa.

Heiður Helgadóttir, 1.1.2009 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband