Sá ég virkilega mömmu mína?

Ég þakka ykkur fyrir athugasemdir og faðmlög sem þið, bloggvinir og aðrir hafið sent mér hér á Moggablogginu. Ég met það mikils.

Ég er heil heilsu en mér er búið að líða frekar undarlega og tel það vera álag vegna komandi atburðar. 

Ég held hér áfram með bloggið mitt enda fer nú að styttast í ... ja sögulok?  

Þau sátu á veitingastaðnum fram eftir degi áður en þau sáu nokkra hreyfingu við húsið. Þau áttuðu sig á því að fólkið hlyti að vera að vinna. Það var svo rétt upp úr kvöldmat að þau sáu mann og konu koma gangandi að húsinu og opna með lyklum. Þau voru bara tvö á ferð. Foreldrar þínir Jacky Lynn, urðu fyrir miklum vonbrigðum. Þau höfðu vonast til að sjá litla stelpuhnátu bregða fyrir í það minnsta.

Þeim leist hinsvegar afar illa á þetta fólk, eins og mamma þín sagði, það bar ekki með sér góðan þokka. Þau sátu þarna á veitingastaðnum og hughreystu hvort annað þegar skyndilega birtust tvær ungar stúlkur fyrir framan hús fólksins. Önnur var dökkhærð og hin með sítt ljóst hár. Mamma þín horfði á þær í smástund en það var pabbi þinn sem benti henni á þig, dökkhærðu stúlkuna, og sagði að það færi sko ekki á milli mála að þetta væri þú! Þið mæðgurnar væruð eins líkar og hægt var að vera. Móðir þín fór að skæla af geðhræringu og ætlaði að stökkva út til þess að ná af þér tali. Þess þurfti hún ekki því að í sömu andrá, genguð þið stúlkurnar í átt að versluninni og fóruð inn. Pabbi þinn þurfti að halda fast í handlegginn á mömmu þinni svo að hún myndi ekki standa upp og grípa þig í faðm sér og hlaupa með þig á brott.

Þegar þú komst inn í verslunina, veittir þú þeim athygli, ófeimin gekkst að borðinu þeirra og sagði hátt og snjallt, „Hæ, ég heiti Xxx, hvað heitir þú?

Mamma þín fór alveg í kerfi en sagði svo hvað hún héti og pabbi þinn líka, ó eruð þið útlendingar? Sagðir þú þá og mamma þín sagði að hún hefði átt heima lengi í útlöndum en væri frá gamla landinu. Þú horfðir víst á þau til skiptist og mamma þín var viss um að hún las úr svipnum þínum að þér fannst þú kannast við þau... að sálir ykkar væru að tengjast, því að blóðböndin fyndu sér alltaf leið að sýnum nánustu á einn eða annan hátt.

Gamli maðurinn brosti örlítið og spurði mig hvort ég myndi eitthvað eftir þessum atburði?

Ég verð að viðurkenna að hversu mikið sem ég brýt heilann um þetta tiltekna augnablik, þá koma alls engar minningar upp sem gætu átt við það. Ég fór auðvita oft í sjoppuna, eins og hún var alltaf kölluð verslunin, og þar voru oft  „útlendingar“ eða bara framandi fólk á förnum vegi. Ég gat ómögulega munað eftir að hafa átt orðaskiptin sem afi minn rakti hér fyrir mér.

Gamli maðurinn leyfði mér aðeins að brjóta heilann um þetta en hélt svo áfram.

Það skiptir ekki öllu máli Jacky Lynn, þau fengu í það minnsta að sjá litlu dóttur sína og yrðu við það tvíefld við það að ná þér til baka. Þau ætluðu ekki að fara að klúðra málunum þarna í sjoppunni með því að koma upp um sig. Það var erfitt en þau voru staðráðin í að nota lagalegar aðgerðir í baráttu sinni fyrir þér og vissu að bíða yrði betri tíma til aðgerða. Þau voru í það minnsta búin að sjá þig og það gaf þeim mikið.

Þú og vinkona þín keyptuð ykkur nammi í poka og skoppuðuð svo út úr sjoppunni og fóruð eitthvert inn í bæinn.

Eftir að hafa jafnað sig í smá stund, stóðu foreldrar þínir upp og fóru á litla hótelið. Þau pökkuðu saman og keyrðu til borgarinnar.

Það var komið að aðgerðastund fannst þeim.

Ég var búin að sitja hjá gamla manninum í nokkra klukkutíma en það var eins og tíminn hefði liðið á ofurhraða. Hann var greinilega orðinn þreyttur og ég var það líka. Hann stóð upp og bauð mér að koma í heimsókn daginn eftir til að klára söguna og ég þáði það auðvitað með þökkum. Það var afráðið að ég myndi mæta upp úr tíu því að sjúkraþjálfarinn hans væri farinn um það leiti. Hann fylgdi mér til dyra og þegar ég snéri mér við til að taka á kurteisan hátt í höndina á honum, tók hann utan um mig og faðmaði mig fast að sér. Ég endurgalt faðmlagið og saman stóðum við fastklemmd í nokkra mínútur, litla hjartans litla barnabarnið mitt, snökti hann og tárin runnu niður kinnar hans. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja svo ég faðmaði hann bara fastar að mér. Þetta var afi minn. Ég var ekki alveg búin að melta það hugtak. Ég hafði alltaf haldið að ég væri ein.

Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þeim tilfinningum sem að brutust út þegar ég var svo komin heim í fallega húsið mitt. Ég opnaði vínflösku og hellti mér í eitt staup, fór í mjúku prjónuðu inniskóna mína og settist fyrir framan arinn. Þarna sat ég bróðurpartinn úr kvöldinu og starði í logana. Hugur minn æddi um víðan völl ef svo mætti að orði komast. Ég fór í fyrsta skiptið síðan fólkið sem ól mig upp, framdi sjálfsmorð, að hugsa um það. Hverskonar manneskjur voru þetta eiginlega að taka að sér barn sem að amma þess hafði komið upp á þau og passa sig svo á því að sýna þessu barni alls enga ástúð? Kannski gat þetta fólk ekki átt börn, en hefðu þau þá ekki átt að fagna því að fá tækifæri á að ala eitt upp, umvefja það ástúð og umhyggju sem þau hefðu byrgt inni vegna þess að þau höfðu ekki fengið tækifæri til að sýna eigin barni hana?

Ég get svarið það eins og ég sit hér, að þetta fólk sýndi mér aldrei svo mikið sem vott af hlýju eða umhyggju, hvað þá ást eða eitthvað í líkingu við það. Ég reikna með því að það sé þess vegna sem ég hef alltaf átt erfitt með að tjá mínar tilfinningar opinberlega. Ekki það að ég hafi ekki nóg af þeim, ég er ekkert tilfinningakalt gerpi, alls ekki. Ég hef bara aldrei fundið sérstaka þöf fyrir að láta þær í ljós. Svo kom sjokkið að ég væri óbyrja og þá fannst mér það vera punkturinn yfir i-ið. Ef ég gæti ekki einu sinni sýnt barninu mínu hvaða tilfinningar, ást og umhyggja byggju í mínu brjósti, afhverju að sýna öðrum það? Ég, án þess að gera mér fulla grein fyrir því, lokaði smám saman á tilfinningar mínar og varð köld og einræn.

Ég taldi mig alltaf vera svo mikið í sambandi við sjálfa mig að ég sá ekki hættumerkin.

Það var svo einn dag að ég tók ákvörðunina að enda þetta allt. En, eins og þið vitið sem hafið lesið bloggið mitt frá upphafi, þá var það að undangengnum miklum sjálfsskoðunum. Bæði með fagfólki og ein, þannig að þetta er engin „skyndiákvöðrun“.

Ég minni aftur á að þessir atburðir, þetta samtal við afa minn, átti sér stað fyrir ca 10 árum. Það breytist margt á þeim tíma eins og þið vitið.

Jacky Lynn

Í dag eru  17 dagar til „Jólanna“ minna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga skjol

Ég seigji eins og ruslana, mér finnst ég orðið þekkja þig eftir allan þann lestursem ég hef átt hér, oft á tíðum langar mig að kvitta en veit satt að seigja ekki hvað ég á að seigja, ég get hins vegar sagt það nú að mikið afskaplega er mér farið að þykja vænt um þig.

Knús á þig elsku Jacky og takk fyrir að deila þessu með okkur hinum

Helga skjol, 9.12.2008 kl. 19:25

2 Smámynd: Fríða Bára Magnúsdóttir

Takk fyrir að leyfa mér að vera bloggvinur þinn. Rakst hér inn um daginn og skrif þín voru svo hirspurslaus og falleg að ég bara varð að fá að fylgjast með þér.

Fríða Bára Magnúsdóttir, 10.12.2008 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband