Varnaðarorð:

Ég vil byrja þennan pistil minn á því að vara viðkvæmar sálir við að lesa bloggið mitt!

Ég mun aldrei skilja afhverju fólk kemur hingað inn, les bloggið mitt og fordæmir mig svo fyrir það eitt að tjá mig í rituðu máli ! Ég er nokkuð viss um að það ríkir ritfrelsi á Íslandi, meðan ég er ekki að níðast á einum eða neinum, þá finnst mér ég hafa fullan rétt á því að tjá mig um mitt eigið líf, tilfinningar og, að lokum, dauða. Það dásamlega við mannskepnuna er sú staðreynd að við höfum heila.... ef einhver sem þetta les, fyllist óhug, óþoli eða fordæmingu, þá ætti heili viðkomandi að geta stöðvað lesturinn og snúið sér að einhverju öðru! Ég mun halda áfram mínu striki og segja frá því hvernig mér líður, hef liðið og mun líða. Láttu þessi varnaðarorð verða þér til varnar og hættu að lesa núna: 

Jacky Lynn

En fyrir ykkur hin sem hafið fylgst með:  

Ég starði á hann og fann fyrir svima eitt augnablik, svo fylltust augun mín bara af tárum. Ég hef auðvitað oft spáð í hverjir foreldrar mínir væru en alltaf reynt að kæfa þá hugsun eins vel og mér var mögulegt. Núna sat ég fyrir framan mann sem var faðir blóðföður míns, ég fékk nett sjokk, ég sat fyrir framan „Afa“ minn !

Titrandi og skjálfandi reyndi ég að koma upp orði en það var ekki alveg að heppnast. Gamli maðurinn horfði bara á mig en ég gat ekkert lesið úr augnaráði hans. Hann hnyklaði brýrnar og sagði svo lágri röddu „Jacky Lynn, ég er semsagt afi þinn“! Augu hans flóðu skyndilega í tárum líka. Þarna sátum við og fórum bæði að snörla upp í nefið. Það hlýtur að hafa verið einkennilegt fyrir utanaðkomandi að horfa á okkur.

Þarna, sko, ég vissi ekki hvar átti að byrja, segðu mér meira takk. Hvað með föður minn? Hvað með þennan sorgaratburð sem þú talar um að blaðamenn séu eftir upplýsingum? Er faðir minn á lífi? Ég hellti yfir hann spurningum án þess að anda á milli.

Sko, við skulum bara byrja á byrjuninni kæra Jacky Lynn, sagði hann og þerraði vangana með handarbaki vinstri handar.

Sonur minn, kynntist móðir þinni þegar hann var að gegna herskyldu í gamla landinu. Hann hafði farið út að skemmta sér með félögum sínum í litlum bæ sem er staðsettur ekki langt frá herstöðinni. Móður þinni kynntist hann svo þar sem þau stóðu í röð við einhverskonar matarsölu. Þau tóku tal saman og enduðu víst sem par þetta kvöld. Móðir þín sagði syni mínum ekki hvað hún væri gömul en hún, samkvæmt syni mínum, var afar bráðþroska miðað við aldur. Í stuttu máli þá komst þú undir þetta sama kvöld. Það getum við staðfest með því að sonur minn fór í 2 mánaða æfingabúðir í Þýskalandi á mánudeginum eftir umrætt kvöld. Móðir þín og hann voru í sambandi allan tíman og þegar hann svo kom til baka, var móðir þín gengin tvo mánuði á leið.

Þar sem hún var svo ung, hafði barnaverndarnefnd afskipti af henni og fór fram á það að hún færi í fóstureyðingu og krafðist refsingar til handa syni mínum. Það var svo herráðsfundur sem ákvað að sonur minn skyldi hljóta refsingu og var hann sendur úr landi og gegndi herþjónustu hér heima næstu ár á eftir.

Þau voru nú samt sem áður afar ástfangin og létu þetta ekki aðskilja sig tilfinningalega. Þegar móðir þín var orðin lögráða samkvæmt lögum gamla landsins, flutti hún hingað út. En Jacky Lynn, án þín! Amma þín var og er afar sérstök kona, hún tók þig og kom þér í fóstur hjá barnslausu fólki sem hún þekkti. Móðir þín bar sitt barr aldrei eftir það. Það var sama hversu oft hún hringdi og grét í ömmu þinni, barnið fengi hún aldrei meðan hún byggi í synd með útlendum hermanni. Hún hafði fengið fullt forræði yfir þér sem hún svo framseldi til fólksins. Ég veit ekki hvort þau ættleiddu þig en mig grunar það, annað hefði verið einkennilegt. Við hjónin, konan mín heitin, reyndum ítrekað að ná sambandi við fólkið en það svaraði okkur ekki. Við fórum meira að segja til gamla landsins og töluðum við sendiherrann okkar þar og hann aðstoðaði okkur eins og hægt var. Það var því miður til einskis, við fengum ekki einu sinni að sjá þig hvað þá meira. Rétturinn var greinilega ekki okkar megin og allir virtust taka afstöðu með ömmu þinni.

Að lokum gáfumst við upp Jacky Lynn, það var takmarkað hvað var hægt að gera þegar allir lögðust á eitt að setja stein í götu okkar. Þau höfðu reynt allan tíman að eignast annað barn, ekki til þess að gleyma þér, heldur til þess að fá útrás fyrir alla innbirgðu ástina sem þau höfðu svo mikið af. Þeim varð ekki fleiri barna auðið. Móðir þín fór í skóla og sonur minn nýtti sér menntunina úr hernum og fékk vinnu á verkfræðiskrifstofu í miðborginni. Hann varð fljótlega mjög atkvæða mikill í borgarmálum og kleif metorðastigann hratt. Það bættist sífellt meiri vinna á hann og að lokum fór það svo að samband þeirra fór í vaskinn. En Jacky Lynn, það var bara stutt. Móðir þín flutti til gamla landsins og var nú orðin gjafvaxta ung kona, hún nam lögfræði hér úti og varð dúx í sínum árgangi. Lögfræðin lék í höndunum á henni og hennar beið glæstur frami ef hún aðeins hefði teygt sig eftir því.

Hún ákvað hinsvegar að flytja til gamla landsins og freista þess einu sinni enn að ná þér til sín, núna vopnuð sjálfstrausti og kunnáttu á lagabáknið. Hún ætlaði sér að ná þér til baka, sama hvað. Hún byrjaði á að finna sér íbúð í borginni stóru og fékk vinnu við skjalaþýðingar. Eftir að hafa verið rétt um það bil 3 mánuði í gamla landinu, sáu þau sonur minn að þau gætu ekki þrifist án hvors annars. Það varð til þess að hann hætti í vinnunni sinni og flutti til gamla landsins til að vera með móðir þinni. Þau leigðu sér íbúð í litlu bæjarfélagi sem var samvaxið borginni og móðir þín tók til óspilltra málanna að hafa uppi á litlu stúlkunni sinni og vinna að málarekstri kringum það.

Hún hafði ekki látið neinn úr sinni fjölskyldu vita að hún var komin aftur til gamla landsins. Henni fannst svikin vera alger svo hún treysti engum né trúði.

Það tók hana rétt um ár að undirbúa sig nógu vel til þess að fara með málið fyrir barnaverndarnefnd og reyndar fyrir dómara líka. Ég þekki ekki alveg þá sögu út í gegn Jacky Lynn, en ég ég veit að hún ætlaði sér ekki að láta hanka sig á neinu, svo hún var vel undirbúin.

Hún og sonur minn, faðir þinn, voru búin að hafa uppi á fólkinu sem að amma þín hafði látið þig í hendurnar á. Þau fóru um páska í litla sjávarþorpið þar sem að þau, þið, leiðrétti gamli maðurinn sig, bjugguð og voru að vonast til þess að sjá þér bregða fyrir, án þess þó að koma upp um sig.

Þau fengu gistingu á pínulitlu hóteli og gengu svo eins og hverjir aðrir túristar um bæinn og skoðuðu hann. Það vildi svo til að fólkið bjó nánast í miðbænum og rétt við staðarverslunina og veitingarstað þorpsins. Þar gátu foreldrar þínir setið við borð og fylgst með húsinu þeirra.......

 

Gamli maðurinn, afi minn, var orðinn rámur eftir að hafa talað svona mikið, hann ræskti sig, stóð upp og bauð mér upp á meira vatn eða kannski te? Ég þáði te með þökkum og við gengum inn í eldhúsið. Hann lét renna í hraðsuðukönnu og teið varð til á örskotsstundu. Við þögðum bæði á meðan, ég var að melta þetta allt saman og hann eflaust líka.

Við settumst aftur inn í stofuna rúmgóðu og létum fara aðeins betur um okkur en áður og svo byrjaði hann aftur að segja frá.

 

Í dag eru 23 dagar til "jólanna" minna.

Jacky Lynn

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Þú ert góður penni og efnið áhugavert.

Hagbarður, 3.12.2008 kl. 20:24

2 Smámynd: Sigríður Inga Ingimarsdóttir

Sendi þér stórt knús, takk fyrir að vera svona gefandi og hlý manneskja" Jacky".

Sigríður Inga Ingimarsdóttir, 3.12.2008 kl. 20:56

3 Smámynd: Líney

KNÚS til þín og takk fyrir skilaboðin,haltu ótrauð áfram að skrifa

Líney, 3.12.2008 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband