Einn af öðrum
2.12.2008 | 10:20
Hér líða dagarnir áfram, einn af öðrum og mér líður bara ágætlega. Ég er alveg komin yfir þessa óþolinmæði sem heltók mig hér fyrir nokkrum vikum síðan. Þá var ég svo ósátt við tímamörkin sem ég hafði sett mér, ósátt við að tíminn leið töluvert hægar en ég átti von á. Þegar ég ákvað að deyja, hélt ég að síðustu dagarnir myndu líða órahratt og ég fyndi fyrir kvíða vegna þess. Ekki varð það nú að raunveruleika. Síðustu vikurnar hafa einkennst af óþolinmæði af minni hálfu, pirringi yfir því að klára dæmið ekki bara með það sama. Það er jú engin sérstök ástæða fyrir tímasetningu minni önnur en sú að mér fannst hún við hæfi á sínum tíma. Núna er ég ekki svo viss. Ég ætla samt að halda minni stefnu og hvika hvergi !
Ég er búin að vera segja ykkur frá því hvernig ég hafði upp á blóðforeldrum mínum og held ég áfram með þá frásögn. Ég minni aftur á að þetta eru atburðir sem gerðust fyrir 10 árum síðan....
Gamli maðurinn horfði beint í augun á mér og sagði, sko ef þú ert dóttir hennar "Xxxxx" þá er ég með töluvert að segja þér. Er eitthvað sem sannar að þú ert raunveruleg dóttir hennar?
Ég kvað svo ekki vera, ég er bara nýbúin að komast að því og fékk símanúmer hjá henni þar sem hún býr í gamla landinu og svo fékk ég þessa addressu hér. Ég bý hér í borginni og hef búið hér í rétt yfir 20 ár en hafði auðvitað enga hugmynd um að hún hefði einnig búið hér.
Ég sagði þetta allt í einni setningu án þess að anda á milli og fann að ég varð móð. Gamli maðurinn starði á mig og ég fann til vanmáttar gagnvart þessu stingandi augnaráði. Hann var sennilega að spá í hvort ég væri brenglaður geðsjúklingur eða eitthvað álíka.
Ég sagði honum að fljótlega eftir að ég flutti hingað út, fékk ég mig ekki til að hugsa um gamla landið. Það var ekkert þangað að sækja fyrir mig. Fólkið sem ól mig upp hafði fyrirfarið sér þegar ég var unglingur og ég ætti, að því að ég best vissi, engin skyldmenni í gamla landinu. Ég fór samt þangað í smá frí fyrir stuttu og ákvað þá að reyna að finna út úr því hverjir foreldrar mínir hefðu verið eða væru. Sú eftirgrennslan hefði leitt í ljós að þessi kona Xxxxx væri móðir mín og konan á skrifstofunni sem rannsakaði þetta fyrir mig væri nágranni hennar.
Sá gamli fékk sér sopa af vatninu og ræskti sig svo, okey segjum að þetta sé allt satt og rétt hjá þér, hvað þá með föður þinn? Fékkstu einhverjar upplýsingar um hann?
Nei, því miður þá vissi konan á skrifstofunni ekkert um hann eða hvaðan hann kom. Ég var skráð sem dóttir móður minnar fram að því að fólkið tók við mér og fékk ég þá eftirnafn hans.
Við hvað vinnur þú spurði hann allt í einu?
Ég sagði honum það, að ég væri starfskona á skrifstofu niðri í miðbæ. Hann fékk símanúmerið hjá mér og stóð upp, gekk að símanum og hringdi í númerið. Hann kynnti sig og spurði eftir Jacky Lynn, hlustaði svo augnablik og þakkaði fyrir og lagði á.
Fyrirgefðu en þetta er bara nauðsynlegt, ég hef ekki orku í að tala við enn einn fréttasnápinn sem er að velta sér upp í löngu liðnum atburðum. Nú trúi ég þér og skal segja þér allt það sem ég veit um foreldra þína Jacky Lynn.
Ég veit vel hver þau eru eða voru, þú segir að mamma þín sé á lífi en því miður er svo ekki. Þessi kona Xxxxx er hinsvegar amma þín. Móðir þín var afar ung þegar hún átti þig, svo ung að það var ólöglegt að verða ófrísk eftir karlmann á þeim aldri, það er að segja, maðurinn sem að var valdur að óléttu móðir þinnar var að framkvæma glæp samkvæmt lögum. Þau voru samt sem áður afar ástfanginn, hvaða skilning þau lögðu svosem í það.
Faðir þinn, Jacky Lynn, var sonur minn.....
Það eru 24 dagar til "Jólanna minna"
Jacky Lynn
Athugasemdir
Eftir að vera búin að lesa allt sem að þú skrifar, þá finnst mér að þú eigir að skrifa bók, sem að kemur út fyrir næstu jól, þú ert frábær penni
Heiður Helgadóttir, 2.12.2008 kl. 11:58
Já, þetta er efni í heila bók sem þú ert að skrifa. Mér finnst eins og ég hafi lesið að þú værir um fertugt hér einhversstaðar fyrir neðan, hvað varstu gömul þegar þú fluttir út?
Freyr (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 12:10
Til hvers að kaupa jólabækur.. þetta er frábært skáld... finnst engum óeðlilegt hvað eru fáir í kringum þessa konu.,.að eiga enga nána að. enga vini.. enga ættingja.. enga nágranna.. þetta er bara í skáldsögum... en þetta er frábært og nýtt form...
Ragnhildur (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 12:44
Veistu það, Jacky, að ég taldi þetta vera skáldskap frá upphafi. Sagði samt ekkert um það, því að hvað ef þér væri alvara og þetta væri núið ? Ég hafði engan rétt til að svívirða tilfinningar þínar og líf ef svo væri. Nú gæti ég best trúað því að þetta sé saga þín, kannski færð í stílinn, en e.t.v. ekki alveg ósönn.....
Sía (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 02:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.