Gamla landið

Hvað er best að gera þegar manni leiðist lífið?

Ég er búin að taka mína ákvörðun, eins og lesendur þessa bloggs vita. En ég hef gert stór mistök að mínu mati.

Ég er fyrir löngu síðan búin að ákveða dánardægrið og það er ekki langt í það. Samt misreiknaði ég mig illilega. Ég hætti að vinna, seldi húsið mitt og líka bílinn. Losaði mig við allar eigur mínar fyrir utan það sem sem ég hef í ferðatöskunni minni. Eftir að ég hætti að vinna, bjó ég á lúxushóteli hér í borginni, en þar sem að ég er kannski frekar feimin að eðlisfari, þótti mér afar óþægilegt að láta þjóna mér til handar og fótar meðan ég var á hótelinu. Ég flutti þess vegna á fallegt gistihús hér rétt við stóra vatnið og sé ekkert eftir því. Þar fæ ég allan þann frið sem ég þarfnast og fólkið sem rekur staðinn er ekkert nema góðmennskan við mig.

Hin óþægilega niðurstaða er sú að ég var of snemma í þessu !

Ég læt mér leiðast !

Ég fékk reyndar nokkra spennandi daga þegar ég vann að kosninga-aðstoð við annan forsetaframbjóðandann sem kemur héðan úr borginni. Ég er bara þannig kona að ég þarfnast þess að gera eitthvað, eitthvað annað en að slæpast.

Ég ætla að segja ykkur örlítið meira frá mér og mínu lífshlaupi ef ykkur er sama?

 

Eftir að fólkið sem ól mig upp, var látið, tóku við nokkur ár í skóla og svo fór ég í flugfreyjuna. Sá Carrier hætti þegar mér var boðið starf á skrifstofu þar sem að nám mitt í háskólanum nýttist til fullnustu. Það krafðist að ég myndi flytja búferlum frá gamla landinu mínu og setjast að hér í borginni minni stóru. Það var ekki erfið ákvörðun skal ég segja ykkur. Það var ekkert í gamla landinu sem ég var að skilja eftir, annað en sárar minningar og tómleiki. Ég stökk því til og þáði starfið og kom mér fyrir hérna.  Ég var fljót að vinna mig upp í starfi og gegndi lykil hlutverki í fyrirtækinu allt þar til ég sagði upp fyrir stuttu.

Vinnan gaf mér aldrei neitt sérstakt, hvorki sigurtilfinningu þegar vel gekk, né heldur taptilfinningu þegar illa gekk. Ég vann bara þarna, gerði mitt besta og ekkert meira en það. Ég sé ekkert eftir starfinu sem slíku en sakna rútínunnar og skipulagsins sem var í kringum starfið mitt.

Ég var búin að eiga heima hér í 10 ár þegar ég ákvað að fara í sumarfrí til gamla landsins. Ég pantaði far með gamla flugfélaginu mínu og lagði svo af stað seint síðdegis og lent á gömlu grundinni eldsnemma að morgni. Það tók á móti mér ískaldur en fallegur sumardagur. Ég átti pantaðan bílaleigubíl og fann hann að lokum á illa skipulögðu stæðinu. Ég keyrði svo til borgarinnar og skráði mig inn á hótel í miðborginni. Ég er greinilega svolítil miðborgarrotta ekki satt? Ég fór á kaffihús, listasöfn og meira að segja gamla minjasafnið. Það fannst mér reyndar frekar óspennandi en skoðaði samt allt sem fyrir augu bar. Borgin hafði breyst töluvert á þessum tíu árum en ég rataði samt ágætlega um.

Ég náði sambandi við Signýju, gömlu vinkonu mína og komst að því að hún bjó í borginni og vildi endilega hitta mig. Við hittumst svo á kaffihúsi í miðborginni. Mér brá töluvert þegar ég sá þessa gömlu vinkonu. Hún hafði bætt á sig ótal kílóum og var illa til höfð, bæði til hárs og húðar ef svo mætti að orði komast. Saga hennar var heldur ekki beysin. Eftir grunnskólanámið fór hún að vinna við fisk og var orðin ólétt 17 ára að fyrsta barninu sínu. Pabbinn var verkstjóri í fiskvinnslufyrirtækinu og rétt um 30 árum eldri en Signý, giftur og átti fjögur börn. Hann hótaði henni öllu illu ef hún „kjaftaði“ frá sambandi þeirra og til að kóróna skömmina, lét hann reka Signýju úr fiskvinnslunni fyrir lélega mætingu. Lélega mætingin kom af þeirri ástæðu að hún var með honum einhversstaðar í „Jeppaferð“. Það kom auðvitað ekki fram þegar henni var svo sagt upp störfum. Hún kynntist greinilega ótal mönnum síðan og átti börn með þeim flestum. Kannski ekki alveg öllum en þegar ég hitti hana á kaffihúsinu átti hún 6 börn með 6 mönnum! Ég fann svolítið til með henni. Ég heyrði það á tali hennar að draumar hennar hefðu kafnað í ófullkomleika lífs hennar og hún var ekki sátt. Henni fannst eins og það hefði allt verið betra ef hún hefði bara komist í burtu frá gamla landinu. Hún sagðist öfunda mig.

Ég lofaði henni því að það væri engin öfund í því að lifa mínu lífi.

Ég kvaddi hana með kossi á kinnina og góðum kveðjum. Ég heyrði aldrei aftur frá henni en sá minningagrein um hana á Morgunblaðinu á netinu fyrir 8 árum. Börnin hennar skrifuðu fallega um hana. Ég gat ekki ráðið af minningagreinunum hvað hafði komið fyrir hana.

Ég notaði tímann í borginni til að reyna að hafa upp á hver blóðmóðir mín og faðir væru.... fólkið lofaði að senda mér upplýsingar ef þær fyndust yfirhöfuð. Þau voru ekki vongóð einhverra hluta vegna.

Eftir að hafa eytt viku í borginni, fór ég aftur á flugvöllinn og leit aldrei til baka. Ég vissi að hingað kæmi ég aldrei aftur.

Ég hafði rangt fyrir mér......

Nú eru bara 44 dagar til „jólanna“ minna....

Jacky Lynn

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Inga Ingimarsdóttir

Kær kveðja til þín, mín kæra.

Sigríður Inga Ingimarsdóttir, 12.11.2008 kl. 21:43

2 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Tú spyrd hvad á madur ad gera tegar manni leidist.Er ég flutti til Danmerkur fyrir 4 árum ein og allt voda spennandi komu stundir sem manni leiddist.Tá settist ég inn í bílinn minn og keyrdi af stad.Keyrdi stundum til Týskalands ,stundum til Svítjódar eda bara hérna i damörku.Fann mér heimagistingu eda lítid hótel bjó tar kannski í eina nótt eda fleirri.Alltaf hitti ég einhvern sem spennandi var ad spjalla vid.Fór í göngur med myndavélina mína tók myndir sem ylja mér oft.Tessar ferdir gáfu mér mikid enn tann dag hugsa ég um tær hvad ég í rauninni var rík ad geta leyft mér tetta.Fara í svona stuttar ferdir ein og kinnast sjálfri mér eiginlega upp á nítt.Tar sem ég hafdi átt líf á hradferd med eigid fyrirtækji ,börn ,eiginmann ,vini og fjölskylduna.Tessar stundir eru ómetanlegar og bendi ég tér á ad gera svona eithvad sem fyllir líf titt ,gefur tér kærleik og gledi.Svona ferdir eins og ég fór eru kannski ekki ad henta tér tví tú lifir svona lífi ad hluta en kannski eithvad annad kæra Jacky.

ég sendi tér kærleik sem vonandi fyllir eithvad tómarúm í tínu hjarta.

Tetta voru stundir

Gudrún Hauksdótttir, 13.11.2008 kl. 08:12

3 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Er eiginlega að vonast til þess að frétta frá þér. Með kærum kveðjum frá Svíþjóð.

Heiður Helgadóttir, 18.11.2008 kl. 20:55

4 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Nú átti ég auðvitað við að frétta af þér

Heiður Helgadóttir, 18.11.2008 kl. 20:55

5 Smámynd: Jac Norðquist

Kveðjur til þín kæra Jacky.

Jac

Jac Norðquist, 19.11.2008 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband