Ástarbrími.. eða köld vatnsgusa?
12.10.2008 | 18:28
Sjáið fyrir ykkur bráðmyndarlegan mann komandi á vínrauðum Buick til þess að ná í Date dömuna sína. Hún er auðvitað alveg tilbúin, máluð og í fallegum dökkbláum kvöldkjól með saffran litað sjal um axlirnar. Hún er búin að setja hárið upp og það hanga síðir eyrnalokkar úr eyrunum sem leggja áherslu á langan hálsinn. Kjóllinn er fleginn og þrýstir hvelfdum brjóstunum vel upp svo að falleg brjóstaskoran tekur vel á móti hálsmeninu sem er alsett litlum demöntum og glitrar svo fallega í myrkrinu. Hún gengur tígulega niður tröppurnar á gistihúsinu þar sem að hann bíður, opnar hurðina á bílnum og aðstoðar hana við að setjast inn í bílinn.
Saman bruna þau á veitingastaðinn sem fær alveg 5 stjörnur af 5 mögulegum af veitingahúsagagnrýninum sem að öllu jöfnu slátrar flestum veitingahúsum sem á annað borð voga sér að vera með frumlegri matseðil en mamma hans hafði í eldhúsinu þar sem hún ólst upp á sveitahótelinu í Boulder Colorado. Allur annar matur er hreint óæti en samt gefur hann þessu veitingahúsi heilar 5 stjörnur. Þau eru boðin til sætis eins og um konungborið fólk væri að ræða. Saman sátu þau við kertaljós, borðuðu góðan mat og hlógu nett allt kvöldið. Eftir dásamlegu máltíðina ók hann henni aftur upp á Gistihúsið, þar sem hún bauð honum upp á kvöldkaffi sem að svo leiddi þau bæði í rúmið þar sem að fjörugur langdregin ástarleikur hófst og endaði ekki fyrr en undir morgun.
Haldið virkilega að þetta hafi verið svona? Ónei, ég er ekki Meg Ryan og hann ekki Tom Hanks.
Hann hringdi og sagði að einhverra hluta vegna gæti hann ekki opnað bílinn, læsingarnar væru bilaðar eða eitthvað þannig, og lagði til að ég tæki leigubíl inn í borgina. Við myndum bara hittast á veitingastaðnum og gera gott úr málinu. Ég var auðvitað ekki tilbúin svo að ég fór í stresskast. Það gekk ekkert að hemja hárið, varaliturinn var brotinn í hulstrinu og ég náði að setja maskara í vinstra augað. Mig logsveið alveg hreint og augað var rautt og þrútið.
Þegar ég var svo loksins tilbúin, fór ég niður og bað elskulegu konuna í móttökunni að hringja fyrir mig á leigubíl, bauðst hún til að láta skutla mér inn í borgina og á veitingastaðinn. Þangað mætti ég 49 mínútum of seint takk fyrir, orðin rauð í framan og sveitt af stressi. Hann var ekki kominn. Ég sagði við móttökuþjóninn að við ættum pantað borð og nefndi nafnið hans. Sem betur fer þá passaði það alveg og ég settist niður við fallega dúkað borð með kertaljósi. Það var lágvær dinnertónlist á staðnum og mér til ánægju sá ég að í einu horninu sat jazzpíanóleikari, ekkert venjulega góður.
Peter kom svo eftir stutta stund og bað mig margfaldlega afsökunar á seinkuninni. Hann hafði verið með hleðslutækið fyrir mobile símann sinn í hanskahólfinu á bílaleigubílnum og auðvitað varð síminn rafmagnslaus á raunastundu. Hann fékk þó að lokum leigubíl og þá rataði ekki Indverjinn á veitingastaðinn og fór kolvitlausa leið. En þetta hafðist nú allt að lokum og nú sat þessi huggulegi maður fyrir framan mig á einum rómantískasta stað sem ég hef komið inn á og brosti ómótstæðilega til mín. Perluhvítu tennurnar hans glóðu í rökkrinu inni á veitingastaðnum og ísblá augun sindruðu eins og demantar. Ég fann fyrir fiðringi í maganum og hnén kiknuðu örlítið. Þjónninn kom og færði okkur vín hússins sem ég man ómögulega hvað heitir (ég er alls óvön að drekka mikið). Kannski var það stressið eða áfengið, veit ekki, en það losnaði kyrfilega um málbeinið á okkur báðum. Hann er hinn fullkomni hlustandi. Svo var komið að honum og ég sat bergnumin og heyrði varla hvað hann var að segja. Röddin í manninum var gersamlega dáleiðandi. Það er eins og hann hafi æft sig fyrir framan spegil, að ná svona skemmtilega valdi á rödd og augabrúnum. Hann var svo innilega lifandi í frásögn að maður hreyfst alveg með honum niður í minnstu smáatriði. Við áttum góða kvöldstund og það lá við að við leiddumst út af veitingastaðnum. Mér leið eins og við hefðum þekkst frá barnsæsku, svo innilega traustvekjandi var hann. Ég taldi ekki annað en að við færum upp á hótelið hans eða gistihúsið mitt, hvort sem var nær. Ég var fallin head over heels fyrir þessum dásamlega manni.
Aftur verð ég að minna ykkur á að ég er ekki persóna Meg Ryan í mynd með Tom Hanks. Fyrir utan veitingastaðinn bað hann bílastæðavörðinn um að kalla á tvo leigubíla !? Tvo! Takk fyrir, hann hafði þá ekki minnstan áhuga á mér ! Guð hvað mér sárnaði. Ég reyndi að kyngja kekkinum í hálsinum en hann vildi ekki niður. Þegar Peter snéri sér svo að mér, sagði hann bara Takk fyrir notalegt kvöld. Ég rétt gat haldið andlitinu og stundi upp, ha já, takk sömuleiðis, þetta var notalegt. Hvað var að mannaumingjanum? Ég veit að ég er ekkert ómyndarleg kona, ég fæ oft að heyra það. En hvað var málið. Við áttum frábærar, bæði faglegar og persónulegar samræður og allt þar á milli. Var það eitthvað sem ég sagði? Eða sagði ekki? Úff það var bara farið að fjúka í mig. Bílarnir komu meðan ég var að brjóta heilann um þetta og ég gekk að aftari bílnum. Hann vinkaði og settist inn í fremri bílinn, sem að brunaði svo burt!
Okey fínt ! Hann var bara að missa af flottri konu sem var sko alveg tilbúin að ganga alla leið á fyrsta stefnumóti. Ég lét það eftir mér að skæla aðeins á leiðinni á gistihúsið. Reið og pirruð ákvað ég að drepa mig..... æ nei, var næstum búin að gleyma að það var jú alltaf á dagskránni. Hey, ég verð líka að sjá broslegu hliðarnar ekki satt? Ein bloggvinkona bloggvinar míns var með afar skondinn sjálfsmorðsbrandara á síðunni sinni. Hvet ykkur til að kíkja.
Núna er ég farin að sofa eftir skrítið ófullnægjandi kvöld. Ég veit að Peter fer úr bænum eftir helgina svo að ekki öll von er úti. Sjáum hvað setur. Kannski á þetta sér eðlilegar útsýringar... vona ég.
Jacky Lynn
Athugasemdir
Knús og kvitt, mín kæra! Dásamleg lesning, þó hún hafi ekki farið eins og við var búist. En á móti kemur að ég er mikill aðdáandi kaldhæðni, og gat ekki stillt mig um að brosa æ ofan í æ, þrátt fyrir kreppu og vanlíðan! Eigðu góðan dag!!!!
Berglind Nanna Ólínudóttir, 13.10.2008 kl. 08:49
Sammála um ad hann hafi misst af flottri konu.....
En tad er hans mál
Eitt stórt fadmlag til tín inn í gódann dag.
Gudrún Hauksdótttir, 13.10.2008 kl. 08:58
Hann er þá bara ekki þín virði, svo einfalt er það
Kristín Gunnarsdóttir, 13.10.2008 kl. 15:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.