Grár Sunnudagur

Ég verð að segja að andleg orka mín var í algjöru lágmarki í gær. Það var grár sunnudagur fyrir utan gluggana hér á flotta hótelinu sem ég gisti á, útsýnið er reyndar alveg dásamlegt en því miður skín hvorki sól í sinni né heiði eins og sagt er.

Ég byrjaði daginn á afar góðum morgunmat, uppi á herbergi að sjálfsögðu og svo tók við þetta hefðbundna, að koma sér í að gera eitthvað. Sunnudagar hafa oftast einkennst af mikilli leti hjá mér. Ég hef forðast eins og heitann eldinn að fara í matarboð eða einhverja þá atburði sem krefjast beinlínis að ég sé þar meira heldur en í anda. Ekki að ég sé mikil mannafæla, heldur meira það að ég bara þarf á Sunnudögum að halda til að hlaða rafhlöðurnar. Þó að ég lifi frekar fábrotnu lífi og þá sérstaklega síðustu 5-6 árin, þá eru bara sunnudagar í mínum huga, endurhleðsludagar. Hvernig leit venjuleg vika út í mínu lífi?, spyr ég sjálfa mig núna á þessum tímamótum.

Mánudagur: Vakna um 05:30, sloppur, pissa, tannburstun, athuga bauga undir augum, þvæ andlit með köldu vatni, set á mig krem, fer og kveiki á kaffivélinni, næ í blað dagsins á dyrapallinn. Svo er notið þess að sitja ,lesa blaðið, drekka kaffið og borða ristað brauð með ost og appelsínumarmelaði. Geri mig klára fyrir vinnu, keyri í vinnuna, meðtek ysinn og þysinn í henni fram að klukkan 16:30 og þá er keyrt heim. Stoppa kannski í búðinni á horninu á götunni minni, versla örlítið ef á þarf að halda, svo heim. Skokka oftast strax eftir einfaldan kvöldmat og spái í hvert einasta skiptið undanfarin 2 ár, af hverju ég er ekki búin að fá mér iPod? Hleyp nákvæmelga 6,5 kílómetra í hvert skipti og finnst það akkúrat hæfilegt fyrir mig. Eftir hlaupin er farið í sturtu, sett annaðhvort tónlist á græjurnar eða kveikt á TV. Ég á það líka til að gleyma mér yfir fartölvunni að lesa bloggfærslur hjá ýmsum kjarnakonum. Yfirleitt leiðast mér bloggskrif karlmanna, veit ekki afhverju, kannski ekki nógu mjúkir fyrir mig. Það er þó einn og einn sem ég hef merkt inn í bókamerkin mín. Spjallþráðaumræður hef ég lítin áhuga á að taka þátt í en er með fastar færslur á einn sem viðkemur æðri hugsun og sjálfsíhugun. Þar er ég reyndar ein af stjórnendum en kem fram undir dulnefni eins og flest allir þar inni. Fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins skiptist á skoðunum þar inni.

Ég er semsagt afar fábrotin manneskja, finnst mér í það minnsta, kannski er líf flestra bara svipað og mitt, flestra sem búa einir kannski. Ætli það sé ekki töluvert erfiðara að vera með þetta lífsmynstur og eiga maka og börn? Ég reikna nú bara með því.

Ég gerði nú heiðarlega tilraun til þess að næla mér í eiginmann, ójá, ég er engin sjálfkjörin nunna!! Alls ekki, auðvitað hef ég og hafði, mínar langanir og þrár, annað væri það nú!

Eiginmannsefnið:

Tall dark and handsome..... ? Nei ekki aldeilis, hann var lágvaxinn, 1,72cm (ég er 1,78) farinn að gildna um miðjuna og það sem var eftir af hárinu hefði ekki dugað í hárkollu á barbídúkku ! Hann var óöruggur í fasi og jakkafötins hans fóru honum afar illa. Það var eins og fyrrverandi konan hans hefði keypt jakkaföt 3 númerum of stór á hann og soðið þau svo í mannætupotti í tvo daga áður en hún lét þau þorna af sjálfsdáðum í einum kuðli inni í skáp. Ég sá hann fyrst þegar hann kom í vinnuna til mín fyrir um það bil 4-5 árum. Hann átti tölvufyrirtæki sem hannaði samskiptapakka fyrir teiknistofur (fer ekki nánar út í það). Þar sem að fyrirtækið sem ég vinn vann hjá, átti einmitt í viðskiptum við Teiknistofur og þessháttar, féll það í minn hlut að sjá um samskiptin við þennan ágæta en illa tilhafða mann. Hann var þó hreinlegur, það mátti hann eiga. Kunni hann að spjalla við konur? Nei, ekki þó hann fengi borgað fyrir það. Ég hitti hann á hverjum degi nánast í tvær vikur þegar yfirmaður minn bað mig um að bjóða honum, ásamt sameiganda hans að fyrirtækinu, út að borða í hádeginu til að ganga frá kaupum á þessu samskiptatæki og þjónustu við það næsta árið. Ég var steinhissa á þessari bón yfirmanns míns og benti honum réttilega á að við hefðum innréttað fundarsalinn fyrir ótrúlega upphæð fyrr um haustið og gætum allt eins notað hann til að ganga frá samningum? Hann bað mig allra blíðlegast um að fara með þeim ásamt ritararanum mínum, á þennann hádegisfund.

Ég komst síðar að því að það var sett sem skilyrði af þeirra hálfu, að ég kæmi með út að borða áður en samningar yrðu undirskrifaðir !!! Karlmenn !!

Fundurinn fór bara vel, minn maður mætti í nýjum jakkafötum en guð minn góður, þau höfðu fengið nákvæmelga sömu meðhöndlun og hin fötin hans! Var einhverjum svona illa við aumingja mannin? Ég borðaði lítið meðan á matartímanum stóð en hlutstaði því betur á það sem hann hafði að segja. Það kom í ljós að undir hrjúfu yfirborðinu, var afskaplega fallega þenkjandi maður. Við náðum afar vel saman þennan "skipulagða" hádegisverð og ákváðum að hittast helgina eftir. Prívat.

Ég er alls ekki vön að falla kylliflöt fyrir neinum. Féll ég kylliflöt fyrir honum? Já, ég gersamlega missti mig í rómantíkina. Ef rómantíkin væri sjór, hann væri ísjaki, þá var ég Titanic ! Rúmt ár leið í algerri sælu þar sem að hver dagurinn var öðrum betri, sætari, rómantískari og að lokum..... ógeðslegri !!

Hvað gerðist?

Sko, ef þetta væri nú almennileg skáldsaga, þá kæmi hér krassandi hlutinn.... hér væri hægt að setja inn hvernig ég fann kvittanir frá vændishúsi, hverig ég komst að því að hann var hommi og hitti sjóaða leðurhomma á gaybarnum hinumegin við sjúskaða Thai-matsölustaðinn, hvernig ég, eftir dramatíska eftirgrennslan á internetinu, komst að því að hann var höfuðpaurinn í alþjóðlegum ****-klámshring!!! En nei, því miður er þetta ekki þannig saga.... það var engin dramatík í kringum sambandsslitin. Ég var eins og batteríslaus víbrator..... alveg á fullu spani, en svo stopp og það á versta mögulega augnabliki. Við vorum í kirkju og það var yndislega fallegt brúðkaup í gangi. Starfsfélagi hans og sameigandi að fyrirtækinu þeirra, var að gifta sig. Ég var brúðarmeyja ásamt tveimur öðrum konum á svipuðum aldri og ég. Brúðarvendinum var fleygt og eins og í lélegri  klisjukenndri bíómynd, greip ég vöndinn! Ég sver að ég ætlaði ekki að grípa, en þar sem ég rétti upp hendurnar til að fylgja hinum konunum, flæktist blessaður vöndurinn í hendunar á mér og ég sat uppi með hann, ásamt milljón hamingjuóskum um væntanlega giftingu! Jafnvel unnusti minn horfði á mig með stjörnur í augum og másaði í eyrað á mér "Eigum við ekki að fara að spá í giftingu?" Úff, ég vissi samstundis að þetta var búið. Það eru bara konur sem hafa leyfi til þess að kollvarpa sér svona í ástarmálum, eina stundina hamingjusamar, þá næstu með gæsahúð af hryllingi yfir unnustanum og geta ekki með nokkru móti eytt með honum meiri tíma, hvað þá ævinni.

Ég er vön að koma hreint fram og sagði honum þetta sama kvöld að ég endurgyldi ekki lengur tilfinningar hans. Skilnaðurinn var mjög hreinlegur, við bjuggum ekki saman, vorum ekki með sama fjárhag eða neitt sem flækti málin að óþörfu. Við bara hættum að hittast. Það var ekki erfitt fyrir mig og ég hafði ekki áhuga á því að vita hvort þetta væri erfitt fyrir hann.

Já þetta hljómar afar kalt eins og ég rita þetta hérna niður, en ekki gleyma því að ég er ekki alin upp við ástríki eða væntumþykju. Ég fann ekki að ég elskaði þennan mann, væntumþykja er ekki nóg að mínu mati til þess að giftast viðkomandi. Ég féll fyrir honum, en það entist ekki.

Ég gekk áðan niður í miðbæ. Það fór að rigna og gott ef það voru ekki þrumur og eldingar einhversstaðar ekki fjarri. Ég ætlaði að fara á safnið, en gleymdi því að sjálfsögðu að flest öll söfn víða um heim, eru lokuð á mánudögum. Sat á kaffihúsi og drakk double latte með mapel syrup. Gott kaffi getur gert skyndikraftaverk á beygluðum manneskjum.

Ég ætla að þakka fyrir lesturinn í bili og minna á að þetta er nokkurskonar minningagrein um mig. Ef þú ert búin að lesa alla leið hingað niður, hlýtur þér að finnast eitthvað áhugavert við það sem ég er að skrifa. Ég er ekki vön að tjá mig mikið, en ég er að uppgötva nýja hlið á mér með þessum skrifum. Hálf kaldhæðnislegt að það skuli vera á þessum tímamótum í lífi mínu.....

Jacky Lynn 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég verð að seija að mér finnst þú vera sérstök kona Jacký. Ég dásit að hreynskilnini hjá þér og hvernig þú sérð hlutina. Ég hef því miður oft reint að dreba mig en ekki tekist (sem betu fer). Núna hef ég eitkvað til að liva firir svo ég er búin með þann kabbla í lífinu. Ég vona að þú finnir þína réttu leið hvort sem hún endar á himnum eða áframm á jörðinni.

ML

Margrét L. (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 07:51

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Afsakið, en þetta hljómar frekar ótrúlega, finn allavega ekki fyrir miklum kulda né miklum sannfæringarkrafti.

Magnús Geir Guðmundsson, 1.10.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband