Ofurölvi?

Best að svara fyrirsögninni strax, ég varð ekki ofurölvi í gærkvöld í kveðjuhófi sem að vinnan hélt mér til heiðurs. Það var reynt ítrekað að fá mig til þess að drekka frá mér vitið, en það tókst sem betur fer ekki :)

Ég fór niður með lyftunni í gær og hún stöðvaðist í hótel andyrinu, við deilum skrifstofum með hótelinu og eru þær á efstu hæðinni. Kveðjuhófið átti að byrja upp á skrifstofu en svo var stefnan að fara á huggulegan skemmtistað hér rétt hjá. Það var búið að gera skrifstofuna alla huggulega og setja upp borða með nafninu mínu og falleg kveðja undir. Ég fékk tár í augun þegar allt liði brast í söng og sungu fyrir mig "Hin gömlu kynni gleymast ey", lag sem er venjulega sungið á miðnætti hvert gamlárskvöld.... svo var skellihlegið og gert mikið grín að mér og starfsháttum mínum. Unga stúlkan sem er íhlauparitari, var búin að klæða sig upp í svipaða dragt og ég er stundum í, kom fram og hélt örlítinn leikþátt um mig og gerði það listilega vel. Hún er á kolröngum stað í lífinu, ætti að vera nema leiklist við konunglega leikhúsið frekar en að vera ritari eins og hún stefnir á. Hún var bara snilld. Hún endaði litlu sýninguna sína á því að leggja flatt handarbakið á ennið á sér og stynja hátt.... "ohhh ég er bara farin héðan, farin heim á æskuslóðir þar sem að fólk er vonandi búið að gleyma hversu skapvond og ráðrík ég var" Við gátum ekki annað en skellihlegið því að þetta er sem betur fer afar ólíkt mér og mínu skapferli.

Eftir að hafa borðað snittur og smákökur, fórum við svo út á lífið. Skemmtistaðurinn stóðst allar væntingar og var mjög gaman þar innandyra.

Þar sem að ég er lítil dansmanneskja, sat ég nánast allt kvöldið og spjallaði við starfsfélagana, eða réttara sagt, fyrrum starfsfélaga. Allt gott tekur enda og þannig var það einnig í gærkvöld. Ég gekk heim á hótel eftir að hafa kvatt þá sem voru ekki þegar farnir heim. Það var fallegt veður í borginni minni í gærkvöld og alls ekkert slæmt að ganga þennan stutta spöl á hótelið.

Svítan beið eftir mér og það fyrsta sem ég tók eftir var stór rósavöndur á miðju stofuborðinu. Hissa gekk ég að honum og las meðfylgjandi kort. Þetta var auðvitað frá vinkonu minni í Cleveland enda vissi svosem engin að ég var stödd hér á hótelinu. Takk mín kæra vinkona, vöndurinn er æðislegur

r2lg.jpgÞetta er reyndar ekki vöndurinn en hann er alls ekkert ósvipaður.

Eftir að hafa farið í sturtu fór ég bara að sofa. Vaknaði svo hress í morgunsárið og fékk morgunmat upp á herbergi. Það er mesta furða miðað við hvað ég get borðað að ég skuli vera þó þetta grönn?

Núna sit ég hér og hugsa næstu skref í áætlun minni. Ennþá vottar ekki á löngun til að hætta við. Ég er búin að skipuleggja þetta niður í minnsta smáatriði og held bara að allir lausir endar séu hnýttir. Ég er hinsvegar búin að ákveða dagsetningu og ætla að halda mig við hana. Þó ekkert sé því fyrirstöðu að framkvæma áætlunina á morgun.

Jacky Lynn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilega skrifuð saga.

Guðrún (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband