Minningum eytt ! Lífinu eytt !
26.9.2008 | 18:39
Það voru farnar 2 ferðar á Endurvinnslustöðina hér í hverfinu, ein í gær og ein í morgun. Maður sem er húsvörður í stóra húsinu hinumegin við götuna, var svo elskulegur að bjóðast til að nota vinnubílinn sinn og hjálpa mér með síðustu kassana eða þá sem að þrifaliðið tók ekki. Hann tók örugglega eftir því að í amk einum kassanum vour myndaalbúm, en hann er mjög hægverskur eldri maður og spurði ekkert. Það hentaði mér ágætlega því ég var í miklu ójafnvægi við að henda þessum minningum mínum.
Líf mitt eins og það leggur sig, var í þessum örfáu kössum. Merkilegt hvað maður getur saknað dauðra hluta. Það er ekki eins og ég hafi skoðað þessi albúm á hverjum degi, eða á hverju ári ef út í það er farið. Það voru reyndar margar persónulegar myndir sem ég hafði upp á arinhillunni og á myndaveggnum mínum og þær hafði ég auðvitað fyrir augunum nánast daglega, en hvenær virkilega "skoðar" maður svona myndir? Er það ekki einna helst þegar einhver kemur í heimsókn og fer að forvitnast um fólkið? Í mínu tilfelli var það sennilega þannig. Minnið er ekki betra en það.
Eftir að húsvörðurinn hafði keyrt mér heim, gat ég ekki boðið honum upp á kaffisopa eða neitt, því að húsið stendur tómt eftir. Hann lofaði mér að fylgjast með því þar til nýja fólkið flytti inn. Ég þakkaði honum kærlega fyrir og dáðist að góðsemi hans. Það var ekki laust við að hann roðnaði örlítið þegar ég smellti kossi á vangann á honum en ég bara stóðst ekki mátið. Yndislegur maður sem á örugglega bústna indæla konu sem bakar fyrir hann á hverjum sunnudegi.
Ég læsti húsinu í síðasta sinn og keyrði niður í bæ á hótel sem er í sama húsi og skrifstofan mín. Ég sit núna uppi á herberginu sem varla hægt er að kalla herbergi heldur ætti að heita íbúð því að ég tók bara sjálfa "Forseta-Svítuna" takk fyrir! Afhverju ekki að láta stjana við sig svona annað slagið. Ég get svarið það mér datt allt í einu í hug myndin með henni Queen Latifha, þar sem hún er greind með einhvern sjúkdóm sem átti að draga hana til dauða á stuttum tíma og fór á eitthvað svaka hótel í sviss eða einhversstaðar og lifði eins og milljónamæringur í einhverja daga. Kannist þið við myndina? Æ þetta var nú meiri þvælan en það var hægt að brosa við og við að henni. Ég hef enga sérstaka þörf fyrir að láta bera mikið á mér út á við, svo ég ætla bara að hafa það huggulegt hér á herberginu fram að kveðjuhófinu í kvöld.
Hvað ætli sé "hinumegin" ?
Ég held að dauðinn sé bara endanlegur, svartur og tómur. Það eiginlega er bara huggandi fyrir mig. Ég gæti ekki hugsað mér að "ganga aftur" og sjá kannski ástvinina/ættingjana og hvernig þeir lifa sínu lífi og ég bara starandi draugur og geta ekkert gert !! Úff nei það er ekki fyrir mig. Himnaríki? Er það hugsað sem stórt ríki á himnum þar sem að englar búa? Hvernig er fyrirkomulagið? Ætli það sé eins og vel skipulögð borg, með götum eða svifbrautum, því engla geta svifið eða flogið. Ætli það sé ekki töluverð mannmergð eða réttara sagt englamergð þar? Er himnaríki svo stórt að það er margra daga gangur/svif til að hitta á guð? Er guð celerbrity sem er of mikilvægur til þess að spjalla við almennan engil. God has left the building.
Ég vona að engin lýti á þessar hugrenningar sem guðlast. Það er alls ekki ætlunin að vera með einhverja niðurlægingu á Guð, þetta eru bara hugrenningar konu sem trúir ekki alveg á Guð en ætlar alls ekki að afneita honum á neinn hátt. Ef ég á eftir að hitta hann, þá efa ég ekki að hann muni skilja þessar pælingar og hendir mér ekkert niður til heljar fyrir að lasta hann :)
"Kona, þér löstuðuð vora tilveru á Morgunblaðs bloggrásinni, þér skuluð dæmdar til vistar í Helvíti, Hinn svarti engill, kann að höndla konur eins og þér eruð".
Nei, ætli það.
Það er kominn tími á varalit, makeupp og slatta af hárspreyji.... ég ætla að vera fín í kvöld. Ég vona að þetta fólk, þessir félagar, hafi minningar um mig þar sem ég leit afar vel út, ekki bara í vinnudragtinni ;)
Eins og ég hef áður sagt, það er heilmikill léttir fyrir mig að skrifa þessar línur hér á Mogga blogginu. Ég lýt á þetta sem smá sálarhreinsun.
Jacky Lynn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.